„Ég hef kannski hitt eina manneskju sem er gjörsamlega taktlaus“

Margrét Erla Maack segir að allir séu með taktinn í …
Margrét Erla Maack segir að allir séu með taktinn í sér. Ljósmynd/Kristín Ásta

Margrét Erla Maack, verkefnastjóri og danskennari í Kramhúsinu, er mikil dansdrottning og trúir því statt og stöðugt að öll geti fundið taktinn. Segir hún að dans snúist meira um að finna samhæfingu, sem auðvelt er að þjálfa.

„Ég hef kannski hitt eina manneskju sem er gjörsamlega taktlaus. Takturinn er alls staðar, til dæmis þegar við göngum og tölum,“ segir Margrét. Segir hún að íþróttakappleikir séu einnig gott dæmi um hvar taktinn er að finna. Margrét var meðal annars fengin til að kenna þýska karlalandsliðinu í handbolta Beyoncé-dansa, því þjálfaranum fannst þá vanta smá meiri takt í hraðaupphlaupin sín.

Margrét segir að gott sé að muna þegar mætt er í sinn fyrsta danstíma býst enginn við því að þú sért að fara í Íslenska dansflokkinn á morgun. Lýsir hún dansi meira eins og nútvitundaræfingu og að fólk nái yfirleitt ekki að hugsa um eitthvað annað. „Allir líka svo mikið að pæla í sjálfum sér að það horfir enginn á þig. Svo er líka gott að muna að allir ruglast í fyrsta tíma og ef þú ruglast skaltu bara gera það stærra og kalla það sóló,“ bætir Margrét við.

Magadans á pallinum fyrir framan Kramhúsið.
Magadans á pallinum fyrir framan Kramhúsið.

Gæsa- og steggjapartíin enn vinsæl

Eitt af því sem er alltaf mjög vinsælt að gera í Kramhúsinu er að fara með gæsa- eða steggjapartíið í danskennslu. Margrét segir að Beyoncé-dansarnir hafi alltaf verið vinsælastir en nýlega hafi áhuginn á Burlesque aukist. 

„Svo er alltaf svo mikil nostalgía í gangi. Nú er fólk að gifta sig sem ólst upp á 90's-tímabilinu og hjá þeim er mjög vinsælt að dansa við Spice Girls, Britney Spears, öll strákaböndin og þess háttar, “ segir Margrét.

Hún bendir þó á að einnig er hægt að koma með séróskir sem henta hverri gæs eða stegg fyrir sig. Úr nógu er að velja en miðað við síðustu talningu býður Kramhúsið upp á yfir 80 dansstíla sem hægt er að velja úr. Svo lengi sem fyrirvarinn er góður þá er oftast hægt að koma hvað lagi í kring. 

Á Menningarnótt verður hægt að skella sér í danstíma Kramhúsinu …
Á Menningarnótt verður hægt að skella sér í danstíma Kramhúsinu og njóta veðursins fyrir utan Kramber. Samsett mynd

Danspartí á Menningarnótt

Kramhúsið verður með opið hús og bjóða í allsherjar danspartý á Menningarnótt og býður upp á danstíma og danssýningar, bæði inni og úti. 

„Áður en heimsfaraldurinn skall á var alltaf mikið um að vera á Menningarnótt í Kramhúsinu og við erum dálítið að fagna því að honum sé lokið og að við getum nú sagt fyrir víst að lífið er komið í eðlilegar skorður,“ segir Margrét og bætir við að Kramhúsið sé líklega fyrsta dansstúdíóið á Íslandi sem er með sinn eigin bar, Kramber. „Þú getur sem sagt farið í danstíma og fengið þér svo freyðivín eftir á.“

„Við erum stöðugt að búa til ný námskeið og það er gott að nota þennan dag til þess að sjá hverju fólk hefur áhuga á, því við bjóðum upp á svo fjölbreytta afþreyingu. Margir hafa til dæmis í sumar séð myndbönd úr gæsa- og steggjapartíum og því er gaman að leyfa fólki að sjá hvað annað við höfum upp á að bjóða,“ segir Margrét.

mbl.is