Enskan í forgangi á samlokum Landspítalans

Mismunur leturstærðanna og forgangur enskunnar fara ekki á milli mála.
Mismunur leturstærðanna og forgangur enskunnar fara ekki á milli mála. Samsett mynd

Samlokur sem framleiddar eru fyrir sjúklinga og starfsfólk á Landspítalanum eru merktar með ensku í forgangi.

Eftir að fyrrverandi framkvæmdastjóri spítalans benti á þetta brást Landspítalinn hratt við. Spítalinn hefur þegar ákveðið að breyta merkingunum svo að íslenskan sé í forgangi.

Anna Sigrún Baldursdóttir, skrifstofustjóri á velferðarsviði Reykjavíkurborgar og fyrrverandi framkvæmdastjóri á Landspítalanum, vakti fyrst athygli á málinu á fésbókarsíðu sinni.

Merktar ensku í stærra letri

Anna segir í samtali við mbl.is að hún hafi keypt sér samloku hjá ELMA, eldhúsi og matsal Landspítalans, sem hún geri oft þar sem samlokurnar eru að hennar sögn afar góðar. Hún tók þó eftir því að hráefni samlokunar væri merkt á ensku í stærra letri og síðan á íslensku í smærra. Fékk hún ýmis viðbrögð við ábendingunni.

„Ég er fyrrum starfsmaður þarna og á til með að vera þeim til aðstoðar í einstökum málum. Ég keypti mér svona samloku og tók eftir þessu,“ segir hún og bætir við að það hafi skotið skökku við að sjá enskuna í forgangi þar sem samlokurnar eru einungis framleiddar fyrir Landspítalann, þar sem meginþorri starfsfólks og sjúklinga á spítalanum er íslenskumælandi.

Á umbúðirnar er letrað stórt á ensku: „Smoked salmon & egg salad“.

Í litlu letri þar fyrir neðan: „Reykur [sic] lax, salat og eggjasalat“.

Anna Sigrún Baldursdóttir.
Anna Sigrún Baldursdóttir. Ljósmynd/Landspítalinn

„Snerpa hjá spítalanum“

„Það er búið að leysa þetta mál, þetta ver snerpa hjá spítalanum,“ segir Anna Sigrún. Á hún þá við að ekki liðu nema nokkrar mínútur frá því hún vakti máls á þessu og þar til Landspítalinn hafði brugðist við og ákveðið að breyta miðunum.

Andri Ólafsson, samskiptastjóri Landspítalans, skrifaði undir færsluna að fyrirtækið sem framleiði miðana á samlokurnar fyrir ELMA merki einnig fyrir fleiri aðila, sem kjósi að hafa miðana sína merkta á ensku.

„Við sendum núna í morgun erindi og báðum um að samlokurnar okkar verði merktar á íslensku og það verður þannig framvegis,“ skrifar hann.

mbl.is