„Það þarf að fara í átak“

„Íslenska tungan er lykillinn að þessu samfélagi okkar. Við þurfum …
„Íslenska tungan er lykillinn að þessu samfélagi okkar. Við þurfum sem samfélag að kenna öllum þeim sem hingað hafa komið íslensku,“ segir Mjöll Matthíasdóttir, formaður Félags grunnskólakennara.

Formaður Félags grunnskólakennara segir að stórar áskoranir blasi við í skólastarfinu hvað varðar íslenskukennslu barna.

Mikilvægt sé að nemendur og starfsfólk á öllum skólastigum sem eru af erlendu bergi brotin læri íslensku.

„Við erum að horfa upp á mikla enskunotkun í samfélaginu. Samfélagið okkar er að breytast mjög hratt,“ segir Mjöll Matthíasdóttir, formaður Félags grunnskólakennara, í samtali við mbl.is. Segir hún að mörg dæmi séu um grunnskóla þar sem hátt hlutfall, jafnvel meirihluti, barna tali ekki íslensku að móðurmáli.

Það feli í sér stóra áskorun fyrir skólastarf að kenna mörgum börnum íslensku sem annað tungumál í íslenskum grunnskóla.

Tala jafnvel ensku við fólk sem kann ekki ensku

„Ég hef áhyggjur af þessum börnum. Íslenska tungan er lykillinn að þessu samfélagi okkar. Við þurfum sem samfélag að kenna öllum þeim sem hingað hafa komið íslensku. Við eigum ekki alltaf að vera að grípa í enskuna. Við erum jafnvel að tala ensku við fólk sem kann ekkert í ensku,“ segir Mjöll.

Bendir hún á að þau börn sem tala ekki íslensku að móðurmáli standi ekki alltaf jafnfætis við önnur börn í framhaldsmáli, nái þau ekki góðum tökum á málinu.

„Það er bara alvarleg staða fyrir okkur sem samfélag þegar sístækkandi hópur hefur ekki aðgang að menntakerfinu því það skortir íslenskuþekkingu,“ segir hún.

„Við erum að tala um tugi þúsunda einstaklinga sem eru hér fullir þátttakendur í samfélaginu en hafa ekki íslensku sem móðurmál og tala hana sáralítið.“

Gera þurfi „alvöru tilboð“

Hvernig finnst þér að leysa eigi það vandamál?

„Í fyrsta lagi vantar okkur mannafla, tíma og peninga til þess að sinna þessu verkefni nægilega vel. Ég veit að menn hafa miklar áhyggjur af stöðunni á leikskólastiginu, því það er svo algengt að starfsfólk þar sé af erlendum uppruna og tali mismikla íslensku, en þetta er starfsfólkið sem er að sinna börnum á máltökuskeiði.“

Segir hún að gera þurfi því starfsfólki „alvöru tilboð svo að það geti bætt sína íslenskuþekkingu“.

Bætir hún við að kennarar hafi lengi beitt sér fyrir slíkum aðgerðum og var aðgerðaáætlun í málefnum íslenskrar tungu kynnt í samráðsgátt stjórnvalda í sumar.

Íslenskumælandi börn tala ensku hvert við annað

Aðspurð segist Mjöll kannast við það að íslensk börn sem tala íslensku að móðurmáli kjósi að tala ensku við hvert annað. Hún telur þó slíkt ekki vera áhyggjuefni hvað varðar viðhald málsins.

„Þetta hefur nú alltaf viðgengist að við erum að reyna að æfa okkur í öðrum tungumálum á einhverju skeiði lífsins,“ segir hún og bendir á að málfar Íslendinga hafi verið dönskuskotið fyrr á tímum.

„Þá fóru menn í átak og það þarf að fara í átak, kannski enn frekar núna af því að auðvitað dynur þessi enski málheimur á þeim öllum, í gegnum samfélagsmiðla og það efni sem börnin sækja sér á netinu.“

Lykillinn að samfélaginu

Þannig þú telur það ekki vera áhyggjuefni að íslenskumælandi börn nýti sér ensku frekar en íslensku?

„Ég veit ekki beinlínis hvort við eigum að hafa áhyggjur af því. Þau halda stundum að þau séu mjög góð í ensku en svo hafa þau í rauninni mjög fátækan orðaforða. Svo þegar það kemur að því að skrifa á ensku er staðan svolítið önnur.

Ég held að við þurfum að hafa áherslu á að við öll í samfélaginu séum að tala íslenskuna og séum að kenna okkar nýju íslendingum tungumálið okkar. Því það er lykillinn að þessu samfélagi.“

mbl.is