Lína Rut keypti hús í Frakklandi og lætur drauma rætast

„Það eru ótrúlega spennandi tímar framundan. Draumar sem ég hef verið að vinna að í mörg ár eru loksins að rætast,“ segir listmálarinn Lína Rut Wilberg í samtali við Smartland. Hún er að flytja til Frakklands og hefur fest kaup á húsi þar í landi. Áður en hún heldur af landi brott ætlar hún að halda sýningu í Gallerí Fold sem opnar á morgun. Hún byrjaði á að læra listförðun í Christian Chaveau í París 1987 sem leiddi hana út í nám í Myndlista-og handíðaskóla Íslands.

Þegar Lína Rut er spurð út í flutninginn til Frakklands segir hún að þetta hafi verið langt og strangt ferli. 

„Undirbúningurinn að þessu hefur verið langur en nú er allt loksins að smella saman. Nú er ég stoltur húseigandi að fasteign í Suður Frakklandi og flyt þangað í september. Húsið er í mikilli niðurníðslu og þar er hvorki rafmagn né hiti. En þannig vildi ég hafa það því ég ætla að gera húsið að mínu,“ segir Lína Rut. 

Lína Rut fyrir utan húsið í Suður Frakklandi.
Lína Rut fyrir utan húsið í Suður Frakklandi.

Missti af mörgum húsum 

Listamaðurinn hefur verið með augun opin síðustu ár með það markmið að finna hús á þessum slóðum til að gera upp og hafa aðsetur í. 

„Ég var nokkuð ákveðin með stílinn sem ég vildi en ég áttaði mig fljótlega á því að þannig hús virðast fara fljótt. Þannig að ég missti af nokkrum húsum. Þegar ég fann þetta hús pantaði ég mér strax flug og var komin út fjórum dögum seinna. Ég festi kaup á húsinu um leið og ég var búin að skoða það,“ segir hún.

Lína Rut ætlar ekki að flytja alveg úr landi því hún ætlar að búa á tveimur stöðum, í húsinu í Suður Frakklandi og á Íslandi. Eins hyggst hún dvelja töluvert í Lundúnum. 

„Ég er með ákveðin áform í Lundúnum,“ segir hún. 

Það að kaupa hús í niðurníðslu sem er án rafmagns og hita hlýtur að kalla á mikla vinnu. Ertu handlagin? Ætlar þú að gera þetta allt upp sjálf?

„Ég er ekki svo handlagin að ég geti sjálf séð um að laga húsið. Ég ætla að ráða fagmenn í það en ég verð aðstoðarmaður þeirra,“ segir hún og hlær. 

Húsið þarf á miklu viðhaldi að halda.
Húsið þarf á miklu viðhaldi að halda.

Hvernig stíll verður á húsinu?

„Ég er með ákveðnar hugmyndir, en þetta mun samt þróast líka þegar ég byrja. Húsið verður mjög listrænt en samt vil ég halda ákveðnum einfaldleika. Ég reikna svo með því að leigja húsið út þegar ég er ekki þar. Þar að segja þegar ég er búin að koma því í stand,“ segir hún. 

Féll fyrir Frakklandi 19 ára 

Lína Rut féll fyrir Frakklandi þegar hún hélt að utan 19 ára gömul til að læra förðun. Þegar hún er spurð að því hvernig lífið sé öðruvísi í Frakklandi en á Íslandi segir hún að það sé allt annar taktur þar ytra. 

„Það er mun meira að sjá og upplifa í Frakklandi en á Íslandi þegar kemur að menningu. Við erum bara fámenn þjóð, þannig að mig þyrstir mikið í að upplifa meira af myndlist og þá ekki sem ferðamaður, heldur í daglega lífinu þarna úti,“ segir hún og bætir við: 

„Frá því ég var ung hefur mig dreymt um að eiga tvö heimili, eitt á Íslandi og annað erlendis. Fá þannig að upplifa það besta á báðum stöðum. Svo langar mig að vera aðeins í Lundúnum eða nágrenni Lundúna. Það er þó meira tímabundið og bundið við það sem ég er að byggja upp. Bæði mig sem listamann og hönnuð. Ég mun vinna að minni list í Frakklandi og á Íslandi. Það er svo dýrt að búa í Lundúnum. Ég get svo sett verkin mín í bíl og keyrt frá Frakklandi til Lundúna. Það er ekkert grín að flytja verkin mín frá Íslandi og út. Þannig að dvöl mín í Frakklandi auðveldar mikið líf mitt sem listamanns.“

Á morgun opnar Lína Rut sýningu í Gallerí Fold. Sýningin ber heitið Fiðrildaáhrif þar sem órói og vængjasláttur verður í forgrunni. 

„Ég hef verið að vinna að þessari sýningu í eitt ár. Sýningin fjallar um hvernig vængjasláttur fiðrilda getur valdið óróa. Haft áhrif á umhverfið og hrært í öðrum fiðrildum. Ég ímynda mér þá hvernig þunnir vængir sem valda breytingum á breytingu geta valdið stormi stundum og einhversstaðar annars staðar.“

Hvaðan kemur innblásturinn?

„Börnin mín eru eru helsti innblásturinn.“

Hvernig æxlaðist það að þú fórst að mála og búa til listaverk?

„Ég hef frá því man eftir mér skrifað sögur, teiknað og málað. Þetta er bara mitt eðli. Ég hugsaði aldrei um að gerast listamaður fyrr en ég dvaldi í París. Þegar ég var 19 ára þá fór ég í níu mánaða listförðunarnám þar. Á hverju degi labbaði ég í skólann þar sem ég var blankur námsmaður og þurfti að spara hverja krónu til að eiga fyrir mat. Á leiðinni uppgötvaði ég fullt af galleríum og varð dolfallin af list og ákvað að sækja um í Myndlista- og handíðaskóla Íslands þegar ég kæmi aftur heim. Ég komst strax inn og útskrifaðist úr málaradeild 1994. Ég er fyrst og fremst málari en eftir að ég eignaðist blindan dreng sem sá ekki listina mína þá byrjaði ég að gera skúlptúra þannig að hann gæti þreifað á og upplifað. Fljótlega eftir það kom hugmyndin um Krílin, sem eru litlir skúlptúrar, blindar fígúrur því mig langaði að láta gott af mer leiða og styðja við Blindrafélagið á Íslandi. Nýlega opnaði ég sýningarrými á Hverfisgötu 108 en þar má sjá Krílin í útstillingu gluggans,“ segir Lína Rut og er þá að vísa í Má Gunnarsson, son sinn, sem er afreksmaður í sundi en hann er einmitt búsettur í Bretlandi þar sem hann er í námi. 

Þú hefur selt vel af listaverkum ekki satt?

„Þegar þú velur þessa leið í lífinu, að verða listamaður, þá eru peningar ekki drifkrafturinn. Ég þekki allavega ekki neinn listamann sem hugsar þannig. Fyrstu árinn átti ég varla fyrir mat en síðastliðin ár þá hef ég getað lifað af listinni,“ segir Lína Rut glöð og ánægð. 

mbl.is