Jóhann Lind Ringsted, sem hefur verið búsettur í Japan í tólf ár, segir í samtali við mbl.is að Japanir myndu líklega ekki sætta sig við það hvernig ruslamálum hefur verið háttað í Reykjavíkurborg síðustu mánuði.
Undanfarna mánuði hafa verið fluttar fréttir af ólestri í sorphirðu í Reykjavík en í byrjun sumars hófst innleiðing á nýju sorphirðukerfi. Blaðamaður mbl.is ákvað að slá á þráðinn til Jóhanns og forvitnast um hvernig sorphirðumálum væri háttað í Japan, en Japanir hafa lengi verið þekktir fyrir snyrtimennsku og heyrir rusl á víðavangi til undantekninga.
Jóhann er fæddur og uppalinn Borgnesingur sem fór í skiptinám til Japans á þriðja námsári sínu í japönsku við Háskóla Íslands, „þetta endaði með því að ég fór ekkert heim“.
Í dag starfar hann sem enskukennari og er kvæntur Ayaka Ringsted en saman eiga þau hina níu ára gömlu Hönnu Lind. Þau búa í borginni Sendai í Norðaustur-Japan sem er stærsta borg Tōhoku-svæðisins. Íbúafjöldi borgarinnar er um 1,5 milljónir manna. Borgin varð fyrir mikilli eyðileggingu er jarðskjálfti sem var 9 að stærð reið yfir í mars árið 2011.
Í hverfinu hjá Jóhanni er sorpmálum þannig háttað að hvert heimili flokkar sitt rusl og fer síðan með það í einskonar ruslageymslur sem eru í einni götu í hverfinu. Í myndskeiðinu hér að ofan má sjá slíka geymslu.
„Það fer listi á milli húsanna og alltaf í hverri viku sér einn um að kíkja eftir geymslunni,“ segir Jóhann og bætir við að því sé alltaf einhver sem sjái um að umgengnin sé í lagi.
„Það eru mjög ákveðnar reglur um hvenær má henda rusli og hvernig rusli.“
Einungis er leyfilegt að henda ruslinu á milli 6 og 8:30 á morgnanna. Tvisvar sinnum í viku er almennt rusl sótt og einu sinni í viku er endurunnið sorp sótt, þ.e.a.s. plast og flöskur. Pappír er sóttur í annarri hverri viku.
Jóhann segir að krákur komist einstaka sinnum í ruslið og rífi allt í tætlur og því þurfi að passa vel að loka ruslið af. Þess vegna sé meðal annars svo stuttur tími sem íbúar hafa til að henda ruslinu.
Þá taka sumar verslanir og fyrirtæki einnig við sorpi til endurvinnslu og fær fólk inneign hjá versluninni í staðinn. Íbúar geti því nýtt sér það ef þeir gleyma að fara með ruslið á tilsettum tíma eða einfaldlega til að safna sér inneign.
Ekki er tekið á móti lífrænu rusli við sorphirðuna en Jóhann segir að margir Japanir séu með eigin moltugerð í görðunum sínum. Margir rækta eigin grænmeti og ávexti og nýta til þess moltuna.
Þannig að það eru í raun engar tunnur við hús fólks eins og er á Íslandi?
„Nei, það er ekki hér. Í fyrsta lagi held ég að sé alveg ómögulegt fyrir [sorphirðufólk] að fara út í hvert hús og ná í tunnur – þetta er náttúrulega miklu fljótfarnara að þeir bara fari inn á þetta svæði og taki ruslið og fari síðan inn á næsta […] Svo myndi maður kannski ekki taka eftir neinu yfir veturinn að hafa ruslið svona úti, en hérna á sumrin í rakanum, ekki séns að geyma eitthvað úti í langan tíma. Ekki séns,“ segir Jóhann og nefnir til dæmis að eftir hálfan dag verði lyktin af opnum kattamat óbærileg og alls konar kvikindi kominn í hann.
„Ég get ekki ímyndað mér að vera með einhvern gám úti, fylla hann af rusli og að hann verði ekki tekinn í öllum þessum raka,“ segir hann og bætir við á þessum árstíma sé rakastigið um 70 til 80% yfir daginn.
Jóhann minnist á fréttir frá Reykjavík þar sem ruslagámar hafa sums staðar ekki verið tæmdir í mánuð.
„Það er bara óhugnanlegt að hugsa til þess,“ segir hann og hlær. „Það verður að minnsta kosti að tæma einu sinni í mánuði.“
Jóhann segir Japani því einfaldlega hafa sammælst um að henda ruslinu sínu í geymslurnar á sómasamlegum tíma. Margir gera það á leið í vinnu en Hanna, dóttir Jóhanns, hefur það verkefni að henda ruslinu þeirra áður en hún fer í skólann á morgnana.
„Þetta er allt annað viðhorf en maður þekkti frá því í gamla daga. Maður var kannski í bíl með vini sínum sem opnaði rúðuna og henti einhverri flösku út og sagði: „Ég er að búa til vinnu“. En núna sé ég kannski eitthvað smá rusl úti og hugsa: „Æ, ætti ég að taka þetta upp kannski“.“
Spurður af hverju Japanir séu svo snyrtilegir segir Jóhann ástæðuna fyrst og fremst vera skólakerfinu að þakka. Börnum er kennt strax að taka til eftir sig og hafa hreint í kringum sig.
„Þegar það er búið að venja börn á þetta þá er það bara sjálfsagt að taka til eftir sig og ekki skilja eftir sig rusl sem er eitthvað sem ég hef aldrei séð áður heima á Íslandi. Hér er það bara partur af náminu að taka til.“
Blaðamaður minnist á myndir og myndskeið á samfélagsmiðlum er HM í knattspyrnu karla í Katar stóð yfir í nóvember þar sem japanskir áhorfendur sáust tína upp rusl á leikvöngunum. Jóhann segir þá umræðu koma upp á hverju HM.
Hann minnist á stórtónleika sem hann fór á sumarið 2016 nærri Tókýó. „Það var alveg rosalega margt fólk þar og svaka stórir tónleikar. Svo sit ég eftir á og hugsa hvað þetta voru frábærir tónleikar og allt í einu eru komnir pokar út um allt og allir byrja að pikka upp ruslið. Þá hugsaði maður: „Já, auðvitað. Við þurfum að taka til hérna“. Það er enginn sem stendur upp og segir: „Ég ætla ekki að gera þetta“.“
Blaðamaður og Jóhann sammælast því um að Íslendingar ættu að taka sér Japani til fyrirmyndar er kemur að ruslamálum.