„Gríðarleg áskorun“ í Hagaskóla

4 gámastofur eru tilbúnar af 18. Því verður þröngt um …
4 gámastofur eru tilbúnar af 18. Því verður þröngt um Hagskælinga fyrstu skólavikurnar. mbl.is/Eyþór

Enn er stefnt að því að Hagaskóli verði settur á mánudag. Skólastjóri segir þó gríðarlega áskorun blasa við í skólastarfinu þar sem kennslurými er enn takmarkað.

Um­fangs­mikl­ar end­ur­bætur vegna myglu í skóla­hús­inu hóf­ust í sept­em­ber 2022 og hafa nú staðið yfir í rúmt ár. Setja átti skólann í dag en vegna óvissu um skólastarfið var henni frestað um tæpa viku.

„Það er allt eftir plani enn þá, en við bíðum og nögum þröskuldana um að komast inn í húsnæðið sem verið er að klára,“ segir Ómar Örn Magnússon skólastjóri Hagaskóla í samtali við mbl.is.

Mygla hefur haft áhrif á skólastarf í Hagaskóla í Reykjavík. …
Mygla hefur haft áhrif á skólastarf í Hagaskóla í Reykjavík. Áhrifa myglu gætir í fleiri grunnskólum borgarinnar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

4 stofur tilbúnar af 18

Haf­ist var handa við að koma fyr­ir gáma­stof­um við Haga­skóla fyrr í mánuðinum. Aðeins fjórar gámastofur verða teknar í notkun við skólasetningu í næstu viku en til stendur að opna 14 til viðbótar í byrjun október. Samtals verða því 18 gámastofur á skólalóðinni.

„Það eru tvær einingar sem verið er að setja upp á skólalóðinni, við austurenda skólans eru 4 stofur. Síðan við suðurenda (við Dunhaga) verða 14 stofur og á þær er verið að hífa efri hæð núna, í dag og í gær,“ segir Ómar.

„[Stofurnar] verða samt ekki tilbúnar í næstu viku og við erum að koma okkur þröngt fyrir í aðalbyggingunni og þessum fjórum stofum við austurendann. Þannig mun það vera þangað til 1. október, þegar við komumst inn í lausu einingarnar sem eru við Dunhaga.“

Gámar við Hagaskóla.
Gámar við Hagaskóla. mbl.is/Eyþór

„Mjög fínar einingar“

Gert er ráð fyrir að allir nemendur verði á skólalóðinni en þröngt verður þó um Hagskælinga þar sem enn eru ekki allar stofur tilbúnar.

„Það verður alveg gríðarleg áskorun. Það verður þröngt um okkur og við verðum að vera með ýmiss konar lausnir. Því miður verða list- og verkgreinastofur ekki tilbúnar fyrr en 1. október,“ segir Ómar.

Aftur á móti bætir hann við að þó svo að um svokallaðar „lausar einingar“ og „tímabundið húsnæði“ sé að ræða séu gámaeiningarnar sérstaklega hannaðar fyrir skólann.

„Þetta eru ekki bara einhverjir 40 feta gámar sem eru innréttaðir. Þetta er teiknað sem skólahúsnæði og hannað þannig.“

Heldur hann áfram: „Við náttúrulega erum að bíða eftir varanlegri nýbyggingu, sem er sérsniðin eftir okkar þörfum. En þetta eru hins vegar mjög fínar einingar.“

mbl.is