Síðasti metanbíllinn seldur

Metanbílar eru afar umhverfisvænn kostur.
Metanbílar eru afar umhverfisvænn kostur. Ljósmynd/Guðmundur Rúnar Guðmundsson

Síðasti nýi metanfólksbíll landsins var seldur síðastliðinn föstudag í bílaumboði Heklu. Í bili að minnsta kosti. Að líkindum er þar upphafið að endi sögu metanbíla í almennri notkun eftir að veðjað var á aðra valkosti við orkuskiptin.

Þessi þróun kann að koma sumum á óvart. Sparnaður í metanakstri er 35-45 % samanborið við bensínakstur.

Þá er mikill umhverfisávinningur af því að nota metan sem orkugjafa. Metan er 80 sinnum skaðlegra en koltvísýringur þegar það sleppur út í and­rúmsloftið en mengun af því hverfandi þegar það er nýtt til aksturs.  

„Við seldum síðasta metanbílinn okkar á föstudaginn og erum ekki með neinar áætlanir um að panta fleiri,“ segir Friðbert Friðbertsson, forstjóri Heklu. Önnur bílaumboð bjóða ekki upp á nýja metanfólksbíla til almennings.

Friðbert Friðbertsson, forstjóri Heklu.
Friðbert Friðbertsson, forstjóri Heklu. Ljósmynd/Aðsend

Stórkostleg umhverfisáhrif

Friðbert segir að það hafi komið honum eilítið á óvart að metanbílar hafi ekki orðið stærri hluti af flotanum. 

„Það eru stórkostleg umhverfisáhrif af þessu. Því meira sem þú keyrir á metaninu því umhverfisvænni ertu,“ segir Friðbert.

Þá segir Friðbert það hafa haft áhrif að árið 2020 voru metanbílar teknir af lista yfir vistvæna bíla og hækkuðu þeir talsvert í verði í framhaldinu.

Runólfur Ólafsson, framkvæmdastjóri FÍB.
Runólfur Ólafsson, framkvæmdastjóri FÍB. mbl.is/Árni Sæberg

Helmingurinn í malbikið 

„Framleiðendur settu alla orkuna í rafbílana. En svo hérlendis skipti það líka miklu máli að Sorpa fór að einbeita sér að því selja metanið til nýrra kaupenda,“ segir Runólfur Ólafsson, framkvæmdastjóri FÍB. 

Meðal annars gerði Sorpa samning við Malbikstöðina árið 2022 um sölu á um milljón rúmmetrum árlega. Fer nærri að það sé um helmingur af allri metanframleiðslu en samkvæmt upplýsingum frá Sorpu voru framleiddir um tvær milljónir normalrúmmetrar af metangasi á síðasta ári.

Metanframleiðslan fer í iðnað.
Metanframleiðslan fer í iðnað.

Metanið í iðnaðinn 

Þorbjörn Þorleifsson, rekstrarstjóri gashreinsistöðvar Sorpu, segir að hann hafi ekki áhyggjur af því að skortur verði á kaupendum metans þegar fólksbílarnir hverfa af götunni eftir áratug eða svo. 

„Í fyrra var metár í sölu á metani og það stefnir í annað eins í ár,“ segir Þorbjörn. Á síðasta ári hafi um 90% sölunnar verið á almennan markað en 10% til iðnaðarins. 

„Það lítur út fyrir að rafmagnið verði svona hinn græni kostur. En í þungaflutningunum á metanið góða von,“ segir Þorbjörn.

„Iðnaðurinn er mjög áhugasamur en hann þarf mikla orku.“

mbl.is