Vilja sjá vatnið koma inn í skólann

Taka þarf allan Laugarnesskóla í gegn.
Taka þarf allan Laugarnesskóla í gegn. mbl.is/Sigurður Bogi

Björn Gunnlaugsson, starfandi skólastjóri í Laugarnesskóla, segir að unnið hafi verið að bráðabirgðalausnum vegna mygluvandamála í skólanum í sumar. 

Eins og sakir standa verður skólinn tekinn í gegn næsta sumar ef marka má nýjustu tímasetningu frá borginni.  

„Það þarf að taka alla skólabygginguna gjörsamlega í gegn. Þá verður skólastarfið flutt úr byggingunni. Sú aðgerð tekur eitt og hálft ár. Við vitum ekki alveg hvenær það hefst því í hvert skipti sem við fáum fund og upplýsingar um áætlaðan dag á framkvæmdunum þá er hann seinna en síðast þegar okkur var sagt eitthvað. En samkvæmt nýjustu upplýsingum er stefnt á að hefja framkvæmdir sumarið 2024,“ segir Björn.

Allir verða fyrir áhrifum 

Hann segir að allt skólastarfið muni verða fyrir áhrifum af framkvæmdunum. Aðalbyggingin verður tekin fyrst en skrifstofuhluti byggingarinnar verður tekinn í framhaldinu.

Á meðan framkvæmdum stendur verða nemendur vistaðir í hollum í bráðabirgðahúsnæði á skólalóðinni.

Björn Gunnlaugsson er sitjandi skólastjóri í Laugarnesskóla.
Björn Gunnlaugsson er sitjandi skólastjóri í Laugarnesskóla.

Framkvæmdir áttu að hefjast í vor 

Að sögn Bjarnar var byggingarefni fjarlægt úr að minnsta kosti 12 kennslustofum í sumar og bráðabirgðabyggingarefni sett í staðinn. 

„Við vitum að húsnæðið lekur ennþá og markmiðið með þessu er að sjá miklu betur hvað gerist þegar vatn kemur inn. Myglan mun því ekki geta læst sig í panel eða gólfdúkum því búið er að fjarlægja þá. Markmiðið með þessu er að myglan muni verða til friðs þangað til framkvæmdir hefjast á næsta ári. Svo verðum við að sjá hvort það gengur eftir,“ segir Björn. 

Upphaflega áttu framkvæmdir að hefjast við skólann í vor en þeim var svo frestað og er nú áætlað að verkið hefjist næsta vor. 

Skólinn var settur í dag. Björn er sitjandi skólastjóri og er ráðinn til bráðabirgða til áramóta. Hann tók við af starfinu af Sigríði Heiðu Bragadóttur sem sagði upp starfi sínu að læknisráði vegna mygluvandamálanna.

mbl.is