Tónlistarkonan Rita Ora og leikstjórinn Taika Waititi hafa notið lífsins á eyjunni Ibiza að undanförnu, en þau héldu á dögunum upp á 48 ára afmæli Waititi með stjörnum prýddri afmælisveislu.
Veislan var sannarlega ekki af verri endanum, en fram kemur á vef Daily Mail að gestalistinn hafi innihaldið stjörnur á borð við Jodie Turner-Smith, Joel Edgerton, Jess Glynne og Ashley Roberts. Þá hafi gestum verið boðið upp á kræsingar frá einkakokkinum Andrea Colecchia sem var skolað niður með glæsilegum kokteilum áður en haldið var á dansgólfið.
Daginn eftir veisluna fóru hjónin í siglingu á glæsisnekkju þar sem Ora hélt sjóðheita kroppasýningu. Það var líklega kærkomið að eyða deginum í slökun eftir veisluhöldin, en hjónin virtust njóta sín til hins ýtrasta.