„Skipin eru eins og ný“

Bæði Björgúlfur og Björg voru máluð og eru eins og …
Bæði Björgúlfur og Björg voru máluð og eru eins og ný að mati framkvæmdastjóra útgerðarsviðs Samherja. Ljósmynd/Samherji

Syst­ur­skip­in Björg­úlf­ur EA og Björg EA eru kom­in úr slipp og eru því til­bú­in til að tak­ast á við nýtt fisk­veiðiár sem hefst 1. sept­em­ber. Skip­in fóru bæði í slipp hjá Slippn­um Ak­ur­eyri og voru þau bæði máluð og unnið að end­ur­bót­um um borð, að því er fram kem­ur í færslu á vef Sam­herja.

Björg­úlf­ur og Björg eru tvö af fjór­um syst­ur­skip­um sem smíðuð voru hjá Cem­re skipa­smíðastöðinni í Tyrklandi. Björg­úlf­ur kom nýr til Ak­ur­eyr­ar í júní 2017 og Björg í lok októ­ber sama ár. Hin skip­in eru Kald­bak­ur EA-1 sem Sam­herji ger­ir einnig út og Drang­ey SK-2 sem FISK Sea­food ger­ir út.

Björgúlfur EA 312 í flotkví Slippsins Akureyri.
Björg­úlf­ur EA 312 í flot­kví Slipps­ins Ak­ur­eyri. Ljós­mynd/​Sam­herji

Kristján Vil­helms­son, fram­kvæmda­stjóri út­gerðarsviðs Sam­herja, seg­ir í færsl­unni að tími hafi verið kom­inn á hreins­un skrokka skip­anna. „Þegar skip­in voru byggð var vandað til allra verka og máln­ing­in hef­ur því enst mjög vel, aðeins hef­ur þurft að lag­færa skemmd­ir sem alltaf verða á skrokk­um skipa. Núna lét­um við sem sagt háþrýstiþvo skrokka skip­anna og mála. Þetta er nauðsyn­legt að gera reglu­lega, fjar­lægja gróður og þvo allt salt í burtu áður en málað er. Síðast en ekki síst stuðlar góð og mark­viss hreins­un að betri ork­u­nýt­ingu og sparnaði í ol­íu­notk­un, þannig að hvat­arn­ir eru marg­ir í þess­um efn­um.“

Skip­in reynst vel

Þá hafi einnig verið tima­bært að huga að lag­fær­ing­um um borð í skip­un­um tveim­ur. „Það eru marg­ir slit­flet­ir um borð í fiski­skip­um sem stöðugt þarf að fylgj­ast með og lag­færa. Stýris­búnaður var meðal ann­ars yf­ir­far­inn og upp­færður í öðru skip­anna, svo ég nefni sem dæmi. Þessi syst­ur­skip hafa reynst af­skap­lega vel en auðvitað þarf stöðugt að end­ur­nýja ýmsa hluti, það er bara hefðbundið og sjálfsagt viðhald. Í tengsl­um við sum­ar­leyfi starfs­fólks vinnslu­hús­anna á Dal­vík og Ak­ur­eyri er sjó­sókn­in ekki eins stíf og tími gefst því til viðhalds og end­ur­bóta. Skert­ar veiðiheim­ild­ir hafa líka sitt að segja í þess­um efn­um en nýtt fisk­veiðiár hefst þann 1. sept­em­ber,“ seg­ir Kristján.

Hann seg­ir mikla ánægju vera með vinnu starfs­manna Slipps­ins Ak­ur­eyri „Skip­in eru eins og ný, auk þess sem all­ar tíma­áætlan­ir stóðust. Inn­an raða Slipps­ins er mik­il þekk­ing og reynsla í háþrýstiþvotti og máln­ingu enda eru þess­ir þætt­ir mik­il­væg­ir í viðhaldi skipa. Ég held að áhuga­fólk um skip taki yf­ir­leitt eft­ir ný­máluðum skip­um, mér sýn­ist að minnsta kosti marg­ir taki mynd­ir af syst­ur­skip­un­um eft­ir að þau voru máluð svona vel og það er bara skemmti­legt.“

Björg EA nýmáuð við bryggju á Akureyri.
Björg EA ný­máuð við bryggju á Ak­ur­eyri. Ljós­mynd/​Sam­herji
mbl.is