„Ég lá sárlasin í rúminu og fékk algjört sjokk“

Ísold Halldórudóttir fer með hlutverk Maríu í kvikmynd Claudiu Rorarius, …
Ísold Halldórudóttir fer með hlutverk Maríu í kvikmynd Claudiu Rorarius, Touched. Hér sést hún ásamt meðleikara sínum, Stavr­os Za­feir­is. Samsett mynd

Ísold Halldórudóttir vekur ómælda athygli hvar sem hún kemur. Listakonan, leikkonan, aðgerðasinninn og fyrirsætan hefur komið víða við þrátt fyrir ungan aldur og býr hún yfir víðtækri reynslu úr lista- og menningarheiminum. „Þegar ég ólst upp hafði ég ávallt mikinn áhuga á listum og menningu, komin af listafólki. Mér þótti þetta eðlileg framvinda, sjálfsagt næsta skref,“ segir Ísold, en foreldrar hennar kynntu hana fyrir ólíkum listgreinum á uppvaxtarárunum. 

Ísold hreppti nýverið verðlaun ítölsku kvikmyndahátíðarinnar, Locarno Film Festival, fyrir hlutverk sitt í kvikmynd þýska leikstjórans Claudiu Rorarius, Touched. Mikil fagnaðarlæti brutust út í hátíðarsalnum þegar listakonan tók við verðlaununum, enda mögnuð listakona á hraðri uppleið. 

Kynntist leikstjóranum á Instagram

„Claudia hafði samband við mig á Instagram og spurði hvort ég hefði einhvern áhuga á leiklist,“ segir Ísold. Sjálfur hafði þýski leikstjórinn og handritshöfundurinn verið í sambandi við Paul Kooiker ljósmyndara, sem Ísold hafði unnið með í myndatöku fyrir tímaritið Dazed & Confused. 

„Leikstjórinn var víst búinn að leita að einhverjum til þess að fara með aðalhlutverkið, hana Maríu, í marga mánuði, og það án árangurs. Claudia hélt ótal opnar áheyrnarprufur en fannst enginn passa í hlutverkið,“ segir Ísold. Það var þá sem Claudia fór að heyra í góðvinum sínum í menningarbransanum og nafn Ísoldar kom upp. 

„Fljótlega eftir að við vorum kynntar á Instagram áttum við myndspjall á Skype, en það var þá sem hún sagði mér frá handritinu og spurði hvort ég hefði vott af áhuga á því að leika. Ég hafði aldrei pælt í því þrátt fyrir að elska kvikmyndir og kvikmyndagerð, en ég er alltaf opin fyrir að prófa nýja hluti og stökk á tækifærið og fór í prufu,“ segir hún. 

Ísold brosmild á rauða dregli Locarno kvikmyndahátíðarinnar.
Ísold brosmild á rauða dregli Locarno kvikmyndahátíðarinnar. Ljósmynd/Ísold Halldórudóttir

Ísold fór í eina áheyrnarprufu í Berlín, sem hún viðurkennir að muna ekki alveg eftir. „Ég var bara agndofa á þessum tíma enda allt í þoku,“ segir hún og hlær. Nokkrar vikur liðu þar til Ísold barst símtal frá leikstjóranum með fréttunum að hlutverkið væri hennar. „Eftir það gerðist allt mjög hratt,“ segir hún. 

Kórónuveiran seinkaði öllu

Tökuferli myndarinnar var seinkað um heilt ár vegna kórónuveirunnar, en það gaf Ísold um það bil sex mánuði til þess að kynna sér persónu Maríu og kafa ofan í leiklistarsöguna og heim leiklistar. „Ég hafði aldrei leikið áður og gat þar af leiðandi ekki reitt mig á leiklistaraðferðir, en ég vann með frábærum leiklistarþjálfara sem hjálpaði mér að kynnast persónunni og mikilvægi hverrar senu,“ segir hún. 

Þrátt fyrir reynsluleysið þá tókst Ísold að koma rullunni afskaplega vel til skila og kom það henni á óvart hvað henni leið vel að þykjast vera einhver annar þegar tökur hófust. „Ég elska ferlið, að vinna á kvikmyndasetti,“ útskýrir hún. 

Ísold þekkir vel hvernig það er að vera fyrir framan myndavélina og líður mjög vel þar. „Mamma tók mjög reglulega myndir af mér þegar ég var að alast upp og bara við hvaða tilefni sem var, eins og kannski flestir foreldrar. Það eru til myndir af mér hlæjandi, öskrandi og grátandi. Þetta hefur án efa hjálpað mér að líða betur fyrir framan myndavélina,“ segir hún hlæjandi. 

Ísold í hlutverki sínu sem María í Touched.
Ísold í hlutverki sínu sem María í Touched. Ljósmynd/Katharina Poblotzki

„Ég er vön að vinna sem fyrirsæta og það sem kom mér mest á óvart er að þar færðu mun meiri stjórn á umhverfinu, en að vinna sem leikari er allt öðruvísi. Það reyndist heldur krefjandi fyrir mig, ég fékk ekki að stjórna neinu varðandi lokaútkomuna.“ 

Nakin á stóra skjánum á Ítalíu

Þegar Ísold frétti af tilnefningunni og sigrinum lá hún veik í rúminu, umkringd snýtibréfum. „Þegar Claudia hringdi í mig til þess að segja mér frá því að ég hefði unnið bestu frammistöðuna fyrir frumraun mín í kvikmynd á virtri kvikmyndahátíð, vissi ég bara ekki hvert ég ætlaði.

Ég lá sárlasin í rúminu, fékk algjört sjokk og bað hana um að endurtaka sig nokkrum sinnum, enda átti ég í mjög miklum erfiðleikum með að trúa þessu. Ég hafði ekki hugmynd um að ég hefði hlotið tilnefninguna,“ segir Ísold og hlær. 

Unga leikkonan segir upplifunina af kvikmyndahátíðinni hafa verið ævintýri og eða lygasögu líkast. „Ég vissi eiginlega ekki við hverju ég átti að búast. Ég man að ég var mjög smeyk, vitandi hversu margir leikarar, listamenn og menningarvitar myndu sjá mig nakta á stórum skjá,“ en Touched var sýnd fyrir fullum sal á hátíðinni. „Ég er ekki enn komin niður á jörðina,“ segir Ísold eftir upplifunina. 

Ísold og Stavros á Locarno kvikmyndahátíðinni.
Ísold og Stavros á Locarno kvikmyndahátíðinni. Ljósmynd/Ísold Halldórudóttir

„Það þarf fleiri sögur“

Ísold elskar líkama sinn og stærð og vill ólm sjá fleiri sögur í sjónvarpi og kvikmyndum um konur og alls kyns fólk í yfirstærðum. „Ó, algjörlega! Ekki bara konur, allt feitt fólk. Það er pláss fyrir alla og mun meiri fjölbreytni. Ég er persónulega mjög þreytt á Hollywood-frásögninni um feitt fólk, hún einkennist af fitubúningum og skömm. 

Ég vil sjá sögur um alls kyns líkama og fólkið á bak við þá, ég vil að við fögnum öllum líkamsbyggingum sem við sjáum. Það á ekki að skipta nokkru máli hvort að manneskjan á skjánum sé mjó eða feit, það hefur ekkert með leikhæfileika að gera,“ útskýrir hún.

Ísold ásamt meðleikara sínum Stavr­os Za­feir­is í kvikmyndinni Touched.
Ísold ásamt meðleikara sínum Stavr­os Za­feir­is í kvikmyndinni Touched. Ljósmynd/Katharina Poblotzki

Ísold hefur engan áhuga á því að skapa fullkomna mynd af sjálfri sér, hvort sem er á samfélagsmiðlum, forsíðum tímarita eða á stóra skjánum. „Ég ætla að klúðra, gera mistök og halda áfram að segja heimskulega hluti, það er það sem gerir mig mannlega. Ég vona bara að ég geti hvatt einhverja til að stökkva á tækifærin þegar þau gefast,“ segir þessi öfluga unga kona að lokum. 

mbl.is