Fleiri eru nú andvígir veiðum á langreyðum en áður. Jókst andstaðan um sjö prósentustig á milli maí 2022 og ágúst 2023. Þetta sýna niðurstöður könnunar sem Maskína framkvæmdi fyrir Náttúruverndarsamtök Íslands.
42 prósent sögðust andvígir hvalveiðum en í maí á síðasta ári voru 35 prósent andvígir hvalveiðum.
Stuðningur við hvalveiðar hefur sömuleiðis minnkað. Í maí á síðasta ári sögðust 33 prósent styðja við hvalveiðar en 29 prósent sögðust styðja við hvalveiðar nú í ágúst.
Mestur er stuðningurinn við hvalveiðar á meðal þeirra sem sögðust myndu kjósa Miðflokkinn. Minnstur er stuðningurinn á meðal þeirra sem sögðust myndu kjósa Pírata.
Könnunin var lögð fyrir Þjóðgátt Maskínu dagana 17. til 22. ágúst og voru svarendur 1.078.
Í upphafi sumars, skömmu áður en vertíð átti að hefjast, lagði Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra tímabundið bann við veiðum á langreyðum. Bannið nær til 31. ágúst.