Á næstu AIM Independent Music Awards, sem fram fara hinn 26. september næstkomandi hlýtur Björk Guðmundsdóttir tónlistarkona verðlaun sem besti flytjandinn. Markmið AIM-samtakanna er að jafna stöðu sjálfstæðra tónlistarmanna og sjálfstæðra útgáfufyrirtækja á Englandi.
Í síðustu viku var greint frá því hverjir myndu hljóta tilnefningar til verðlaunanna en einnig var tilkynnt um úrslit í flokknum besti flytjandinn. Björk hlýtur þau verðlaun fyrir Cornucopiu. Aðrir listamenn sem voru á úrtakslista í flokknum voru BABYMETAL, Beebadoobee, MUNA og Reverand and the Makers.
„AIM (Association of Independent Music) verðlaunahátíðin hefur verið haldin síðan 2011 og verðlaunað ýmsa í tónlistarbransanum og má þar nefna Björk, Stormzy, Adele, The Prodigy, 4AD og marga fleiri,“ segir í tilkynningu.
Breska útgáfufyrirtækið One Little Independent er einnig tilnefnt í flokknum besta sjálfstæða útgáfufyrirtækið, en fyrirtækið hefur gefið út tónlist með Björk, Ásgeiri Trausta, Árnýju Margréti, Sykurmolunum og Kaktusi Einarssyni.
Hinn 1. september næstkomandi hefst Cornucopiu-tónleikaferðalag um Evrópu og fara fyrstu tónleikarnir fram í Lissabon, höfuðborg Portúgals. Nú þegar er uppselt á þrenna tónleika en Cornucopia hefur hlotið lof áhorfenda um allan heim.