Kvika sem hefur ekki sést áður á skaganum

Frá fyrsta degi gossins sem varð í júlí, því þriðja …
Frá fyrsta degi gossins sem varð í júlí, því þriðja á þremur árum. Morgunblaðið/Árni Sæberg

Rúm­ar þrjár vik­ur eru liðnar frá því að eld­gos­inu lauk sem upp kom við Litla-Hrút á Reykja­nesskaga þann 10. júlí. Gosið var það þriðja á jafn­mörg­um árum á skag­an­um og þykir til marks um að hafið sé nýtt tíma­bil auk­inn­ar eld­virkni í lands­hlut­an­um.

Og sú aukna virkni þarf ekki að tak­mark­ast við Reykja­nesskag­ann, eins og Þor­vald­ur Þórðar­son, pró­fess­or í eld­fjalla- og berg­fræði, greindi frá í sam­tali við Morg­un­blaðið fyrr í mánuðinum. Vísaði hann til möttulstróks­ins und­ir Íslandi sem ásamt fleka­skil­un­um hef­ur búið til landið og mótað það.

„Það bend­ir sumt til þess að möttulstrókur­inn sé að efl­ast og að þetta séu af­leiðing­ar af því. Maður veit það ekki fyr­ir víst en manni finnst það svo sem ekk­ert ólík­legt,“ sagði Þor­vald­ur.

Kafla­skipti í maí 2021

Eitt af því sem helst renn­ir stoðum und­ir þá kenn­ingu er sú staðreynd að kvik­an, sem brot­ist hef­ur upp á yf­ir­borðið síðustu þrjú ár til þess eins að storkna þar sem hraun, er ólík nokk­urri þeirri kviku sem sést hef­ur áður á Reykja­nesskaga.

Þor­vald­ur rifjar nú upp gosið í Geld­inga­döl­um sem hófst í mars 2021. Það fyrsta á þeim slóðum í um sex þúsund ár.

„Kvik­an sem kom upp allra fyrst í því gosi kall­ast sneydd kvika og er smá öðru­vísi. Hún ber vitni um að hafa orðið fyr­ir skorpu­meng­un,“ seg­ir hann og út­skýr­ir:

„Hún hef­ur meng­ast af skorp­unni með því að sitja í henni í ein­hvern tíma áður en hún kom upp. En kvik­an sem kem­ur upp, um það bil eft­ir 1. maí í því gosi – það er kvika sem hef­ur aldrei áður gosið á Reykja­nesskag­an­um svo að við vit­um til.“

Svo virðist sem þessi kvika eigi meira skylt við þá sem upp kem­ur á aust­urgos­belt­inu. Und­ir það heyra ekki minni eld­stöðvar en Hekla, Katla, Torfa­jök­ull, Grím­svötn og Bárðarbunga, svo dæmi séu tek­in. Þar hafa jarðvís­inda­menn talið að áhrifa möttulstróks­ins gæti meira.

„Þessi kvika kom fyrst upp í maí 2021 og virðist vera að koma upp til­tölu­lega hrein síðan þá,“ seg­ir Þor­vald­ur. Síðari eld­gos hafa þá engu breytt um sam­setn­ingu kvik­unn­ar.

Allt frá sama geymslu­stað?

„Það er eng­in breyt­ing á henni, 2021, 2022 og 2023. Þetta er allt ná­kvæm­lega eins,“ bæt­ir hann við. Greina má furðu í rödd­inni. „Og þetta virðist vera að koma úr geymslu­hólfi sem inni­held­ur þetta magn af kviku.“

Sem leiðir pró­fess­or­inn að ann­arri álykt­un, en fram til þessa hef­ur skag­inn verið tal­inn geyma að minnsta kosti sex eld­stöðva­kerfi, sem kennd eru við lands­lags­mynd­an­ir í röð frá vestri til aust­urs: Reykja­nes, Eld­vörp/​Svartsengi, Fagra­dals­fjall, Krýsu­vík, Brenni­steins­fjöll og Heng­ill.

Jarðhrær­ing­ar og eld­virkni und­an­far­inna ára hafa hrist upp í þess­um kenn­ing­um, rétt eins og íbú­um suðvest­ur­horns­ins.

„Ég er nú eig­in­lega far­inn að líta á Reykja­nesskaga­kerfið sem eitt kerfi,“ seg­ir Þor­vald­ur. „Það er eng­inn breyti­leiki á kviku­sam­setn­ingu á milli staða á Reykja­nesskaga. Þetta er allt ná­kvæm­lega eins. Þetta bend­ir til þess að þetta sé allt frá sama geymslu­stað.“

Eitt­hvað á hreyf­ingu und­ir

Eins og Morg­un­blaðið hef­ur fjallað um hef­ur óróa eða landriss orðið vart við marg­ar eld­stöðvar að und­an­förnu. At­hygli jarðvís­inda­manna hef­ur einna helst beinst að Öskju.

„Það er bú­inn að vera ein­hver órói þar frá ár­inu 2012,“ seg­ir Þor­vald­ur. „Núna síðustu árin hef­ur land risið veru­lega í öskj­unni, á síðustu tíu mánuðum um alla vega þrjá­tíu senti­metra. Þannig að eitt­hvað er á hreyf­ingu þarna und­ir.

Helsta málið með sum af okk­ur eld­fjöll­um er að við vit­um ekki hvernig þessi eld­fjöll búa sig und­ir gos. Katla og Askja eru meðal ann­ars í þeim hópi. Kannski erum við núna, með okk­ar nú­tíma­mæli­tækj­um, að sjá hvernig þessi fjöll búa sig raun­veru­lega und­ir gos.“

Hef­ur áhyggj­ur af Kötlu

Hann seg­ir mik­il­vægt að gera ráð fyr­ir því versta þegar fylgst er með mögu­leg­um aðdrag­anda eld­goss í þess­um ill­ræmdu eld­stöðvum.

„Við höf­um í raun­inni ekki þekk­ing­una til að segja til um hvenær og hvernig þess­ar eld­stöðvar gjósi, þar sem við þekkj­um ekki aðdrag­anda fyrri gosa. Við vilj­um helst ekki hafa fólk í grennd við svæðin ef það skyldi byrja að gjósa með skömm­um fyr­ir­vara,“ seg­ir hann og held­ur áfram:

„Ég verð að viður­kenna að ég hef áhyggj­ur af Kötlu. Eft­ir því sem lengra líður aukast lík­urn­ar á stærri at­b­urðum í tengsl­um við virkn­ina í Kötlu, sem er ekki það sem við vilj­um.“

Þor­vald­ur minn­ir á að Eld­gjá, norðaust­ur af Mýr­dals­jökli, standi enn til vitn­is um kraft­inn sem býr í Kötlu. Þar varð á tí­undu öld eitt stærsta eld­gosið frá því jökla leysti á Íslandi og stærsta flæðiba­salt­gos jarðar síðustu tvö þúsund ár í það minnsta, en svo nefn­ast stór gos sem mynda mikl­ar hraun­breiður á yf­ir­borði.

Vís­bend­ing­ar eru um að gosið kunni að hafa staðið yfir í þrjú til átta ár.

„Við meg­um ekki gleyma því að það eld­gos stöðvaði um tíma land­nám á Íslandi.“

mbl.is