Og sú aukna virkni þarf ekki að takmarkast við Reykjanesskagann, eins og Þorvaldur Þórðarson, prófessor í eldfjalla- og bergfræði, greindi frá í samtali við Morgunblaðið fyrr í mánuðinum. Vísaði hann til möttulstróksins undir Íslandi sem ásamt flekaskilunum hefur búið til landið og mótað það.
„Það bendir sumt til þess að möttulstrókurinn sé að eflast og að þetta séu afleiðingar af því. Maður veit það ekki fyrir víst en manni finnst það svo sem ekkert ólíklegt,“ sagði Þorvaldur.
Kaflaskipti í maí 2021
Eitt af því sem helst rennir stoðum undir þá kenningu er sú staðreynd að kvikan, sem brotist hefur upp á yfirborðið síðustu þrjú ár til þess eins að storkna þar sem hraun, er ólík nokkurri þeirri kviku sem sést hefur áður á Reykjanesskaga.
Þorvaldur rifjar nú upp gosið í Geldingadölum sem hófst í mars 2021. Það fyrsta á þeim slóðum í um sex þúsund ár.
„Kvikan sem kom upp allra fyrst í því gosi kallast sneydd kvika og er smá öðruvísi. Hún ber vitni um að hafa orðið fyrir skorpumengun,“ segir hann og útskýrir:
„Hún hefur mengast af skorpunni með því að sitja í henni í einhvern tíma áður en hún kom upp. En kvikan sem kemur upp, um það bil eftir 1. maí í því gosi – það er kvika sem hefur aldrei áður gosið á Reykjanesskaganum svo að við vitum til.“
Svo virðist sem þessi kvika eigi meira skylt við þá sem upp kemur á austurgosbeltinu. Undir það heyra ekki minni eldstöðvar en Hekla, Katla, Torfajökull, Grímsvötn og Bárðarbunga, svo dæmi séu tekin. Þar hafa jarðvísindamenn talið að áhrifa möttulstróksins gæti meira.
„Þessi kvika kom fyrst upp í maí 2021 og virðist vera að koma upp tiltölulega hrein síðan þá,“ segir Þorvaldur. Síðari eldgos hafa þá engu breytt um samsetningu kvikunnar.
Allt frá sama geymslustað?
„Það er engin breyting á henni, 2021, 2022 og 2023. Þetta er allt nákvæmlega eins,“ bætir hann við. Greina má furðu í röddinni. „Og þetta virðist vera að koma úr geymsluhólfi sem inniheldur þetta magn af kviku.“
Sem leiðir prófessorinn að annarri ályktun, en fram til þessa hefur skaginn verið talinn geyma að minnsta kosti sex eldstöðvakerfi, sem kennd eru við landslagsmyndanir í röð frá vestri til austurs: Reykjanes, Eldvörp/Svartsengi, Fagradalsfjall, Krýsuvík, Brennisteinsfjöll og Hengill.
Jarðhræringar og eldvirkni undanfarinna ára hafa hrist upp í þessum kenningum, rétt eins og íbúum suðvesturhornsins.
„Ég er nú eiginlega farinn að líta á Reykjanesskagakerfið sem eitt kerfi,“ segir Þorvaldur. „Það er enginn breytileiki á kvikusamsetningu á milli staða á Reykjanesskaga. Þetta er allt nákvæmlega eins. Þetta bendir til þess að þetta sé allt frá sama geymslustað.“
Eitthvað á hreyfingu undir
Eins og Morgunblaðið hefur fjallað um hefur óróa eða landriss orðið vart við margar eldstöðvar að undanförnu. Athygli jarðvísindamanna hefur einna helst beinst að Öskju.
„Það er búinn að vera einhver órói þar frá árinu 2012,“ segir Þorvaldur. „Núna síðustu árin hefur land risið verulega í öskjunni, á síðustu tíu mánuðum um alla vega þrjátíu sentimetra. Þannig að eitthvað er á hreyfingu þarna undir.
Helsta málið með sum af okkur eldfjöllum er að við vitum ekki hvernig þessi eldfjöll búa sig undir gos. Katla og Askja eru meðal annars í þeim hópi. Kannski erum við núna, með okkar nútímamælitækjum, að sjá hvernig þessi fjöll búa sig raunverulega undir gos.“
Hefur áhyggjur af Kötlu
Hann segir mikilvægt að gera ráð fyrir því versta þegar fylgst er með mögulegum aðdraganda eldgoss í þessum illræmdu eldstöðvum.
„Við höfum í rauninni ekki þekkinguna til að segja til um hvenær og hvernig þessar eldstöðvar gjósi, þar sem við þekkjum ekki aðdraganda fyrri gosa. Við viljum helst ekki hafa fólk í grennd við svæðin ef það skyldi byrja að gjósa með skömmum fyrirvara,“ segir hann og heldur áfram:
„Ég verð að viðurkenna að ég hef áhyggjur af Kötlu. Eftir því sem lengra líður aukast líkurnar á stærri atburðum í tengslum við virknina í Kötlu, sem er ekki það sem við viljum.“
Þorvaldur minnir á að Eldgjá, norðaustur af Mýrdalsjökli, standi enn til vitnis um kraftinn sem býr í Kötlu. Þar varð á tíundu öld eitt stærsta eldgosið frá því jökla leysti á Íslandi og stærsta flæðibasaltgos jarðar síðustu tvö þúsund ár í það minnsta, en svo nefnast stór gos sem mynda miklar hraunbreiður á yfirborði.
Vísbendingar eru um að gosið kunni að hafa staðið yfir í þrjú til átta ár.
„Við megum ekki gleyma því að það eldgos stöðvaði um tíma landnám á Íslandi.“