Leikhúsveisla í vændum

„Leikárið samanstendur af metnaðar fullum verkum þar sem tekist er …
„Leikárið samanstendur af metnaðar fullum verkum þar sem tekist er á við fjölbreytileika lífsins og ýmsar áskoranir nútímans,“ segir Magnús Geir Þórðarson þjóðleikhússtjóri um komandi leikár. Morgunblaðið/Kristinn Magnússon

„Leikárið samanstendur af metnaðarfullum verkum þar sem tekist er á við fjölbreytileika lífsins og ýmsar áskoranir nútímans. Við setjum fókus á umhverfismálin, stríðsrekstur og samskiptin í nánum samböndum, svo fátt eitt sé nefnt,“ segir Magnús Geir Þórðarson þjóðleikhússtjóri um leikárið.

Fyrsta frumsýningin verður í Kassanum í september þegar Ást Fedru, eftir Söruh Kane, í þýðingu Kristínar Eiríksdóttur og leikstjórn Kolfinnu Nikulásdóttur, verður frumsýnd. „Hér er um að ræða Íslandsfrumsýningu á þessu kraftmikla tímamótaverki,“ segir Magnús Geir og tekur fram að spennandi sé að fela ungum leikstjóra stjórnina á því. Kolfinna leikstýrir einnig Óperunni hundrað þúsund eftir Þórunni Grétu Sigurðardóttur við texta Kristínar Eiríksdóttur með vorinu.

Ást Fedru er byggð á goðsögninni um drottninguna Fedru sem verður ástfangin af stjúpsyni sínum, Hippolítosi, með skelfilegum afleiðingum,“ segir Magnús Geir og bendir á að í verkinu sé tekist á við ágengar spurningar um ofbeldi, mörk og sannleika. „Það er óhætt að fullyrða að #Metoo-byltingin breyti lestri okkar á verkinu í dag.“ Í aðalhlutverkum eru Margrét Vilhjálmsdóttir og Sigurbjartur Sturla Atlason. „Margrét hefur ekki sést á íslensku leiksviði í sjö ár þar sem hún býr erlendis. Það er því mikill fengur að fá hana aftur á svið hér í Þjóðleikhúsinu, enda er hún frábær leikkona, sem leikur hér á móti einum sterkasta leikara þjóðarinnar af yngri kynslóðinni,“ segir hann.

Mútta mikið ólíkindatól

Ekki málið er titillinn á þriðja og síðasta verkinu í þríleik eftir þýska leikskáldið Marius von Mayenburg sem heimsfrumsýndur er hérlendis,“ segir Magnús Geir, en verkið verður frumsýnt í leikstjórn höfundar á Stóra sviðinu í september. „Líkt og í hinum verkunum tveimur, Ellen B. og Ex sem voru sigurvegarar Grímunnar í ár, er Mayenburg að kryfja samskiptin í nánum samböndum. Að þessu sinni skoðar hann m.a. þriðju vaktina á heimilinu og hvernig nútímafólki tekst að standa sig í vinnu en líka heima. Sem fyrr er textinn hjá Mayenburg eitursnjall, flugbeittur og drepfyndinn. Það er ótrúlega flott og klókt form á þessu verki sem mun koma skemmtilega á óvart,“ segir Magnús Geir leyndardómsfullur. Leikarar eru Björn Thors og Ilmur Kristjánsdóttir.

Magnús Geir bendir á að öll verkin þrjú í þríleiknum séu sjálfstæð. „En þetta er unnið inn í sama útlitsramma sem Nina Wetzel hannaði svo snilldarlega,“ segir Magnús Geir og bendir á að hægt verði að sjá öll þrjú verkin á Stóra sviðinu í haust, því Ellen B. og Ex snúa aftur á svið í október og nóvember. „Það er auðvitað alveg einstakt fyrir okkur að hafa fengið að heimsfrumsýna þennan þríleik. Verkin eru væntanleg á fjalir leikhúsa um allan heim á næstu misserum og við vitum af heimsóknum fjölmargra erlendra gesta hér í haust vegna þessa.“

Í október er komið að Múttu Courage og börnunum eftir Bertolt Brecht í þýðingu Bjarna Jónssonar og leikstjórn Unu Þorleifsdóttur, sem sýnt verður á Stóra sviðinu. „Þetta er eitt magnaðasta leikrit 20. aldarinnar. Okkur hefur lengi langað að setja þetta á svið, enda á þetta verk alltaf við í umfjöllun sinni um stríðsrekstur og kapítalisma. En eftir að stríðið braust út í Úkraínu fannst okkur innihald þess orðið enn meira aðkallandi en áður og hreinlega verða að fara á svið núna,“ segir Magnús Geir, en ný tónlist eftir Valgeir Sigurðsson og Helga Hrafn Jónsson verður fyrirferðarmikil í sýningunni. „Okkur fannst Una hárréttur leikstjóri fyrir þetta verkefni, enda einstaklega sterkur leikstjóri sem hefur m.a. nýtt framandgervinguna með áhrifaríkum hætti í fyrri sýningum sínum,“ segir Magnús Geir og tekur fram að titilpersóna verksins sé ein magnaðasta kvenpersóna leikbókmenntanna. „Og mikið ólíkindatól. Það er því sérlega spennandi að sjá Steinunni Ólínu Þorsteinsdóttur takast á við þetta dásamlega hlutverk. Ég er því sannfærður um að þetta verði mikil veisla.“

Talar sterkt til ungs fólks

Orð gegn orði nefnist nýr einleikur eftir Suzie Miller í þýðingu Ragnars Jónassonar og leikstjórn Þóru Karítasar Árnadóttur sem frumsýndur verður í Kassanum í nóvember. Leikari sýningarinnar er Ebba Katrín Finnsdóttir. „Þetta er ástralskt verk sem farið hefur sigurför um heiminn og sópað að sér verðlaunum. Það sló í gegn bæði á West End og Broadway og fer á næsta leikári á svið í mörgum af leiðandi leikhúsum heims. Þetta er afskaplega vel skrifað verk, knappt og beitt, segir Magnús Geir og tekur fram að verkið hafi verið sett í íslenskt samhengi. „Verkið fjallar um Telmu, sem er ungur og metnaðarfullur lögfræðingur sem tekist hefur að klífa hratt upp metorðastigann. Hún vinnur hvert málið á fætur öðru þar sem hún ver sakborninga af mikilli fimi en þeir eru iðulega kynferðisafbrotamenn. Ófyrirsjáanlegur atburður í lifi hennar verður til þess að hún neyðist til að endurskoða hugmyndir sínar um réttarkerfið og lífið,“ segir Magnús Geir og tekur fram að þetta sé verk sem „rígheldur áhorfandanum þar sem það sé æsispennandi og sláandi. Verkið setur alla umræðuna um veika stöðu þolenda, sekt, sakleysi og sönnunarbyrði í kynferðisbrotamálum í nýtt samhengi og færir áhorfendur nær málaflokknum. Þetta er verk sem talar sterkt til fólks í dag, ekki síst ungs fólks.“

Jólasýningin í ár er Edda eftir Þorleif Örn Arnarsson, Jón Magnús Arnarsson og Hörpu Rún Kristjánsdóttur í leikstjórn Þorleifs. Frumsýnt verður á Stóra sviðinu á annan í jólum. „Hér nálgast Þorleifur og samstarfsfólk hans hugmyndaheim Eddukvæðanna á nýstárlegan, frjóan og ögrandi hátt,“ segir Magnús Geir og bendir á að í forgrunni séu átök guða, manna og annarra afla sem stjórna veröldinni, sköpun og endalok heimsins og samband manneskjunnar við náttúruna sem og umhverfismálin. Bætir hann við að uppsetningin verði ungleg og aðgengileg í anda Rómeós og Júlíu, Njálu og Engla alheimsins. „Uppsetning Þorleifs á Eddukvæðunum í Borgarleikhúsinu í Hannover fyrir tveimur árum vakti mikla athygli,“ segir Magnús Geir og rifjar upp að Þorleifur hafi hlotið Faust-verðlaun Þýska leiklistarsambandsins sem leikstjóri ársins fyrir uppfærsluna.

„Við höfðum engan áhuga á því að taka þá sýningu og endurgera hana á Íslandi, enda erum við spenntari fyrir frumsköpun. Þorleifur nálgast því efniviðinn á nýjan og ferskan hátt með nýju samstarfsfólki, þó hann byggi á sterkum grunni,“ segir Magnús Geir og bendir á að staða mála í heiminum sé einnig allt önnur en þegar Die Edda var sýnd í Þýskalandi. „Ég er sannfærður um að þetta verði átakamikil, fjörleg og fyndin sýning eins og Þorleifs er von og vísa. Á sama tíma verður þetta spennandi sýning um brennandi spurningar samtímans,“ segir Magnús Geir.

Fyrsta frumsýningin á nýju ári verður í Kassanum í janúar á Saknaðarilmi – einhverju alveg sérstöku þar sem Unnur Ösp Stefánsdóttir skrifar leikgerð upp úr skáldsögunum Saknaðarilmi og Aprílsólarkulda eftir Elísabetu Kristínu Jökulsdóttur í leikstjórn Björns Thors. „Mæðgnasambandið er í forgrunni í uppfærslunni auk þess sem fjallað er um glímuna við geðveikina,“ segir Magnús Geir og tekur fram að listræni hópurinn sem kemur að uppfærslunni sé sá sami og setti upp Vertu úlfur. „Þá rómuðu sýningu sem sýnd var í þrjú leikár. En að þessu sinni skipta hjónakornin Björn og Unnur um hlutverk þar sem hann leikstýrir henni. Þetta er sýning sem ég er nokkuð sannfærður um að muni snerta við áhorfendum og hafa mikil áhrif.“

Frost magnaður kokteill

Í mars er komið að fjölskyldusöngleiknum Frosti sem byggist á Disney-teiknimyndinni Frozen sem „heillaði heimsbyggðina upp úr skónum fyrir áratug. Sagan er innblásin af Snædrottningunni eftir H. C. Andersen og norrænni menningu,“ segir Magnús Geir og bendir á að Gísli Örn Garðarsson muni leikstýra uppfærslunni víða um Norðurlönd. „Þetta er einstaklega vel skrifaður fjölskyldusöngleikur með lögum sem allir þekkja,“ segir Magnús Geir. Handritið skrifaði Jennifer Lee og tónlistina sömdu Kristen Anderson-Lopez og Robert Lopez. „Þegar maður mátar þetta flotta handrit, spennandi sögu og frábæra tónlist við leikhúsgaldra Gísla eins og þeir hafa birst í stórkostlegum uppfærslum Vesturports þá er ég sannfærður um að úr verði magnaður kokteill sem hrífur unga sem aldna. Þetta verður alveg ótrúlega flott, litrík og skemmtileg sýning, full af leikhústöfrum.“

Eltum veðrið nefnist samsköpunarsýning sem frumsýnd verður á Stóra sviðinu í apríl. „Þar munu margir fremstu gamanleikarar þjóðarinnar fara á kostum í drepfyndnum gamanleik sem þau hafa verið að vinna að síðan í upphafi þessa árs. Hér er þjóðarsálin krufin út frá skemmtisögum um veðrið.“ Fyrr í sumar auglýsti leikhúsið eftir sönnum reynslusögum úr ýmsum áttum frá útilegum og ferðalögum landsmanna. „Og það hefur hér rignt inn sögum,“ segir Magnús Geir, en tekið verður við sögum fram til áramóta.

Síðasta frumsýningin á Stóra sviðinu er leikgerð á skáldsögunni Drag plóg þinn yfir bein hinna dauðu eftir Nóbelsverðlaunahöfundinn Olgu Tocarczuk, í leikstjórn Simons McBurneys. „Hér er um að ræða glænýja leiksýningu frá Complicité í samstarfi við Þjóðleikhúsið. McBurney vann hér leiksmiðju með leikurum Þjóðleikhússins við þróun verksins,“ segir Magnús Geir, en Þjóðleikhúsið er eitt 11 leikhúsa í Evrópu sem koma að samstarfinu við Complicité. „Þetta er djúpt en um leið aðgengilegt verk þar sem samband manns og náttúru er skoðað,“ segir Magnús Geir og tekur fram að sýningin sé upphafið á frekara samstarfi við Complicité.

Af öðrum sýningum leikársins má nefna að útskriftarsýning leikaranema úr Listaháskóla Íslands verður sýnd í Kassanum í vor í leikstjórn Hörpu Arnardóttur auk þess sem tvö stuttverk verða sýnd undir merkjum Hádegisleikhússins, þ.e. Verkið eftir Jón Gnarr og Heimsókn eftir Hildi Selmu Sigbertsdóttur. Tvö samstarfsverkefni verða á dagskránni; Leyndarmál í leikstjórn Ásrúnar Magnúsdóttur sem frumsýnt er á Litla sviðinu í nóvember og Á eigin fótum í leikstjórn Agnesar Wild sem frumsýnt er á Litla sviðinu í febrúar. Frá fyrri leikárum snúa aftur fjölskyldusöngleikurinn Draumaþjófurinn, danssýningin Til hamingju með að vera mannleg og barnasýningarnar Lára og Ljónsi – jólasaga og Ég get. Sem fyrr verður uppistand, drag, spunasýningar Improv Ísland, kabarett undir stjórn Margétar Erlu Maack og gamanóperur í uppfærslu Óðs áberandi í Kjallara leikhússins.

„Lokaviðburður hátíðarhalda í tilefni af List án landamæra fer fram á Stóra sviðinu 3. desember í samstarfi við Þjóðleikhúsið, Drag syndrome nefnist sýning víðfrægs hóps drag-listafólks með Downs-heilkenni sem sýnd verður í Kjallaranum í október. Þjóðleikhúsið stendur fyrir fjórum kvöldum í vetur undir yfirskriftinni House of Revolution þar sem fjölmargir listamenn af ólíkum uppruna stíga á stokk en R.E.C. Arts velur listamennina.“

Ræktum mennskuna

Í ljósi þess að komandi leikár er fyrsta eðlilega starfsárið að heimsfaraldri loknum liggur beint við að spyrja hvernig Þjóðleikhúsið komi undan faraldri fjárhagslega séð. „Þetta voru auðvitað ótrúlega krefjandi tímar þar sem sífellt þurfti að bregðast við breyttum aðstæðum og forsendum. En við komumst í gegnum þennan skafl með réttum ákvörðunum, velvild leikhúsgesta og góðum stuðningi stjórnvalda. Þrátt fyrir faraldurinn tókst leikhúsinu að skapa stórkostlegar sýningar og halda sterku sambandi við gesti sína,“ segir Magnús Geir, en bendir á að það sé krefjandi verkefni um allan heim að koma áhorfendum aftur í menningartaktinn, t.d. með áskriftarkortum.

Ekki er hægt að sleppa Magnúsi Geir án þess að forvitnast hvernig Þjóðleikhúsið hafi brugðist við þeirri miklu umræðu og ákalli um inngildingu í sviðslistum sem fram fór í samfélaginu í fyrra, m.a. í tengslum við frumsýninguna á Sem á himni. „Það er hlutverk leikhússins að vera opið, vakandi og að hlusta. Þannig viljum við vera í öllum okkar störfum og reynum að hlusta eftir þörfum og ábendingum samfélagsins. Þegar umræða fer af stað reynum við að hrökkva ekki í vörn heldur að læra af reynslunni og verða betri í dag en í gær. Við viljum nálgast allt samtal opin og af kærleika. Síðasta haust fór af stað mjög fróðleg og lærdómsrík umræða,“ segir Magnús Geir og vísar þar m.a. til málþings með hagaðilum sem Þjóðleikhúsið stóð fyrir síðasta haust.

„Við tókum þá góða umræðu sem fram fór á málþinginu inn í stefnumótunarvinnu fyrir leikhúsið, sem fór fram síðasta vetur. Þar sjást þess glögg merki að við höfum lagt við hlustir. Ég leyfi mér að fullyrða að leikárið endurspegli umræðuna og þann lærdóm sem við höfum dregið. Eins og sjá má af dagskránni er hún mjög fjölbreytt. Hæfileikaríkt fólk úr öllum áttum kemur að sýningum hússins og vonandi hjálpar það til við að þoka málum í rétta átt í stóra samhenginu. Leikhúsið er sameinandi afl, þar sem við komum saman, ræktum mennskuna og tengjumst. Hér hlæjum við og grátum saman.“

mbl.is