Leikhúsveisla í vændum

„Leikárið samanstendur af metnaðar fullum verkum þar sem tekist er …
„Leikárið samanstendur af metnaðar fullum verkum þar sem tekist er á við fjölbreytileika lífsins og ýmsar áskoranir nútímans,“ segir Magnús Geir Þórðarson þjóðleikhússtjóri um komandi leikár. Morgunblaðið/Kristinn Magnússon

„Leik­árið sam­an­stend­ur af metnaðarfull­um verk­um þar sem tek­ist er á við fjöl­breyti­leika lífs­ins og ýms­ar áskor­an­ir nú­tím­ans. Við setj­um fókus á um­hverf­is­mál­in, stríðsrekst­ur og sam­skipt­in í nán­um sam­bönd­um, svo fátt eitt sé nefnt,“ seg­ir Magnús Geir Þórðar­son þjóðleik­hús­stjóri um leik­árið.

Fyrsta frum­sýn­ing­in verður í Kass­an­um í sept­em­ber þegar Ást Fedru, eft­ir Söruh Kane, í þýðingu Krist­ín­ar Ei­ríks­dótt­ur og leik­stjórn Kolfinnu Nikulás­dótt­ur, verður frum­sýnd. „Hér er um að ræða Íslands­frum­sýn­ingu á þessu kraft­mikla tíma­móta­verki,“ seg­ir Magnús Geir og tek­ur fram að spenn­andi sé að fela ung­um leik­stjóra stjórn­ina á því. Kolfinna leik­stýr­ir einnig Óper­unni hundrað þúsund eft­ir Þór­unni Grétu Sig­urðardótt­ur við texta Krist­ín­ar Ei­ríks­dótt­ur með vor­inu.

Ást Fedru er byggð á goðsögn­inni um drottn­ing­una Fedru sem verður ást­fang­in af stjúp­syni sín­um, Hippo­lítosi, með skelfi­leg­um af­leiðing­um,“ seg­ir Magnús Geir og bend­ir á að í verk­inu sé tek­ist á við ágeng­ar spurn­ing­ar um of­beldi, mörk og sann­leika. „Það er óhætt að full­yrða að #Met­oo-bylt­ing­in breyti lestri okk­ar á verk­inu í dag.“ Í aðal­hlut­verk­um eru Mar­grét Vil­hjálms­dótt­ir og Sig­ur­bjart­ur Sturla Atla­son. „Mar­grét hef­ur ekki sést á ís­lensku leik­sviði í sjö ár þar sem hún býr er­lend­is. Það er því mik­ill feng­ur að fá hana aft­ur á svið hér í Þjóðleik­hús­inu, enda er hún frá­bær leik­kona, sem leik­ur hér á móti ein­um sterk­asta leik­ara þjóðar­inn­ar af yngri kyn­slóðinni,“ seg­ir hann.

Mútta mikið ólík­indatól

Ekki málið er tit­ill­inn á þriðja og síðasta verk­inu í þríleik eft­ir þýska leik­skáldið Marius von Mayen­burg sem heims­frum­sýnd­ur er hér­lend­is,“ seg­ir Magnús Geir, en verkið verður frum­sýnt í leik­stjórn höf­und­ar á Stóra sviðinu í sept­em­ber. „Líkt og í hinum verk­un­um tveim­ur, Ell­en B. og Ex sem voru sig­ur­veg­ar­ar Grím­unn­ar í ár, er Mayen­burg að kryfja sam­skipt­in í nán­um sam­bönd­um. Að þessu sinni skoðar hann m.a. þriðju vakt­ina á heim­il­inu og hvernig nú­tíma­fólki tekst að standa sig í vinnu en líka heima. Sem fyrr er text­inn hjá Mayen­burg eit­ursnjall, flug­beitt­ur og drep­fynd­inn. Það er ótrú­lega flott og klókt form á þessu verki sem mun koma skemmti­lega á óvart,“ seg­ir Magnús Geir leynd­ar­dóms­full­ur. Leik­ar­ar eru Björn Thors og Ilm­ur Kristjáns­dótt­ir.

Magnús Geir bend­ir á að öll verk­in þrjú í þríleikn­um séu sjálf­stæð. „En þetta er unnið inn í sama út­litsramma sem Nina Wetzel hannaði svo snilld­ar­lega,“ seg­ir Magnús Geir og bend­ir á að hægt verði að sjá öll þrjú verk­in á Stóra sviðinu í haust, því Ell­en B. og Ex snúa aft­ur á svið í októ­ber og nóv­em­ber. „Það er auðvitað al­veg ein­stakt fyr­ir okk­ur að hafa fengið að heims­frum­sýna þenn­an þríleik. Verk­in eru vænt­an­leg á fjal­ir leik­húsa um all­an heim á næstu miss­er­um og við vit­um af heim­sókn­um fjöl­margra er­lendra gesta hér í haust vegna þessa.“

Í októ­ber er komið að Múttu Coura­ge og börn­un­um eft­ir Bertolt Brecht í þýðingu Bjarna Jóns­son­ar og leik­stjórn Unu Þor­leifs­dótt­ur, sem sýnt verður á Stóra sviðinu. „Þetta er eitt magnaðasta leik­rit 20. ald­ar­inn­ar. Okk­ur hef­ur lengi langað að setja þetta á svið, enda á þetta verk alltaf við í um­fjöll­un sinni um stríðsrekst­ur og kapí­tal­isma. En eft­ir að stríðið braust út í Úkraínu fannst okk­ur inni­hald þess orðið enn meira aðkallandi en áður og hrein­lega verða að fara á svið núna,“ seg­ir Magnús Geir, en ný tónlist eft­ir Val­geir Sig­urðsson og Helga Hrafn Jóns­son verður fyr­ir­ferðar­mik­il í sýn­ing­unni. „Okk­ur fannst Una hár­rétt­ur leik­stjóri fyr­ir þetta verk­efni, enda ein­stak­lega sterk­ur leik­stjóri sem hef­ur m.a. nýtt fram­andgerv­ing­una með áhrifa­rík­um hætti í fyrri sýn­ing­um sín­um,“ seg­ir Magnús Geir og tek­ur fram að titil­per­sóna verks­ins sé ein magnaðasta kven­per­sóna leik­bók­mennt­anna. „Og mikið ólík­indatól. Það er því sér­lega spenn­andi að sjá Stein­unni Ólínu Þor­steins­dótt­ur tak­ast á við þetta dá­sam­lega hlut­verk. Ég er því sann­færður um að þetta verði mik­il veisla.“

Tal­ar sterkt til ungs fólks

Orð gegn orði nefn­ist nýr ein­leik­ur eft­ir Suzie Miller í þýðingu Ragn­ars Jónas­son­ar og leik­stjórn Þóru Karítas­ar Árna­dótt­ur sem frum­sýnd­ur verður í Kass­an­um í nóv­em­ber. Leik­ari sýn­ing­ar­inn­ar er Ebba Katrín Finns­dótt­ir. „Þetta er ástr­alskt verk sem farið hef­ur sig­ur­för um heim­inn og sópað að sér verðlaun­um. Það sló í gegn bæði á West End og Broadway og fer á næsta leik­ári á svið í mörg­um af leiðandi leik­hús­um heims. Þetta er af­skap­lega vel skrifað verk, knappt og beitt, seg­ir Magnús Geir og tek­ur fram að verkið hafi verið sett í ís­lenskt sam­hengi. „Verkið fjall­ar um Telmu, sem er ung­ur og metnaðarfull­ur lög­fræðing­ur sem tek­ist hef­ur að klífa hratt upp met­orðastig­ann. Hún vinn­ur hvert málið á fæt­ur öðru þar sem hún ver sak­born­inga af mik­illi fimi en þeir eru iðulega kyn­ferðisaf­brota­menn. Ófyr­ir­sjá­an­leg­ur at­b­urður í lifi henn­ar verður til þess að hún neyðist til að end­ur­skoða hug­mynd­ir sín­ar um rétt­ar­kerfið og lífið,“ seg­ir Magnús Geir og tek­ur fram að þetta sé verk sem „ríg­held­ur áhorf­and­an­um þar sem það sé æsispenn­andi og slá­andi. Verkið set­ur alla umræðuna um veika stöðu þolenda, sekt, sak­leysi og sönn­un­ar­byrði í kyn­ferðis­brota­mál­um í nýtt sam­hengi og fær­ir áhorf­end­ur nær mála­flokkn­um. Þetta er verk sem tal­ar sterkt til fólks í dag, ekki síst ungs fólks.“

Jóla­sýn­ing­in í ár er Edda eft­ir Þor­leif Örn Arn­ars­son, Jón Magnús Arn­ars­son og Hörpu Rún Kristjáns­dótt­ur í leik­stjórn Þor­leifs. Frum­sýnt verður á Stóra sviðinu á ann­an í jól­um. „Hér nálg­ast Þor­leif­ur og sam­starfs­fólk hans hug­mynda­heim Eddu­kvæðanna á ný­stár­leg­an, frjó­an og ögr­andi hátt,“ seg­ir Magnús Geir og bend­ir á að í for­grunni séu átök guða, manna og annarra afla sem stjórna ver­öld­inni, sköp­un og enda­lok heims­ins og sam­band mann­eskj­unn­ar við nátt­úr­una sem og um­hverf­is­mál­in. Bæt­ir hann við að upp­setn­ing­in verði ung­leg og aðgengi­leg í anda Rómeós og Júlíu, Njálu og Engla al­heims­ins. „Upp­setn­ing Þor­leifs á Eddu­kvæðunum í Borg­ar­leik­hús­inu í Hanno­ver fyr­ir tveim­ur árum vakti mikla at­hygli,“ seg­ir Magnús Geir og rifjar upp að Þor­leif­ur hafi hlotið Faust-verðlaun Þýska leik­list­ar­sam­bands­ins sem leik­stjóri árs­ins fyr­ir upp­færsl­una.

„Við höfðum eng­an áhuga á því að taka þá sýn­ingu og end­ur­gera hana á Íslandi, enda erum við spennt­ari fyr­ir frumsköp­un. Þor­leif­ur nálg­ast því efniviðinn á nýj­an og fersk­an hátt með nýju sam­starfs­fólki, þó hann byggi á sterk­um grunni,“ seg­ir Magnús Geir og bend­ir á að staða mála í heim­in­um sé einnig allt önn­ur en þegar Die Edda var sýnd í Þýskalandi. „Ég er sann­færður um að þetta verði átaka­mik­il, fjör­leg og fynd­in sýn­ing eins og Þor­leifs er von og vísa. Á sama tíma verður þetta spenn­andi sýn­ing um brenn­andi spurn­ing­ar sam­tím­ans,“ seg­ir Magnús Geir.

Fyrsta frum­sýn­ing­in á nýju ári verður í Kass­an­um í janú­ar á Saknaðarilmi – ein­hverju al­veg sér­stöku þar sem Unn­ur Ösp Stef­áns­dótt­ir skrif­ar leik­gerð upp úr skáld­sög­un­um Saknaðarilmi og Aprílsól­arkulda eft­ir Elísa­betu Krist­ínu Jök­uls­dótt­ur í leik­stjórn Björns Thors. „Mæðgna­sam­bandið er í for­grunni í upp­færsl­unni auk þess sem fjallað er um glím­una við geðveik­ina,“ seg­ir Magnús Geir og tek­ur fram að list­ræni hóp­ur­inn sem kem­ur að upp­færsl­unni sé sá sami og setti upp Vertu úlf­ur. „Þá rómuðu sýn­ingu sem sýnd var í þrjú leik­ár. En að þessu sinni skipta hjóna­korn­in Björn og Unn­ur um hlut­verk þar sem hann leik­stýr­ir henni. Þetta er sýn­ing sem ég er nokkuð sann­færður um að muni snerta við áhorf­end­um og hafa mik­il áhrif.“

Frost magnaður kokteill

Í mars er komið að fjöl­skyldu­söng­leikn­um Frosti sem bygg­ist á Disney-teikni­mynd­inni Frozen sem „heillaði heims­byggðina upp úr skón­um fyr­ir ára­tug. Sag­an er inn­blás­in af Snædrottn­ing­unni eft­ir H. C. And­er­sen og nor­rænni menn­ingu,“ seg­ir Magnús Geir og bend­ir á að Gísli Örn Garðars­son muni leik­stýra upp­færsl­unni víða um Norður­lönd. „Þetta er ein­stak­lega vel skrifaður fjöl­skyldu­söng­leik­ur með lög­um sem all­ir þekkja,“ seg­ir Magnús Geir. Hand­ritið skrifaði Jenni­fer Lee og tón­list­ina sömdu Kristen And­er­son-Lopez og Robert Lopez. „Þegar maður mát­ar þetta flotta hand­rit, spenn­andi sögu og frá­bæra tónlist við leik­hús­galdra Gísla eins og þeir hafa birst í stór­kost­leg­um upp­færsl­um Vest­urports þá er ég sann­færður um að úr verði magnaður kokteill sem hríf­ur unga sem aldna. Þetta verður al­veg ótrú­lega flott, lit­rík og skemmti­leg sýn­ing, full af leik­hústöfr­um.“

Elt­um veðrið nefn­ist sam­sköp­un­ar­sýn­ing sem frum­sýnd verður á Stóra sviðinu í apríl. „Þar munu marg­ir fremstu gam­an­leik­ar­ar þjóðar­inn­ar fara á kost­um í drep­fyndn­um gam­an­leik sem þau hafa verið að vinna að síðan í upp­hafi þessa árs. Hér er þjóðarsál­in kruf­in út frá skemmti­sög­um um veðrið.“ Fyrr í sum­ar aug­lýsti leik­húsið eft­ir sönn­um reynslu­sög­um úr ýms­um átt­um frá úti­leg­um og ferðalög­um lands­manna. „Og það hef­ur hér rignt inn sög­um,“ seg­ir Magnús Geir, en tekið verður við sög­um fram til ára­móta.

Síðasta frum­sýn­ing­in á Stóra sviðinu er leik­gerð á skáld­sög­unni Drag plóg þinn yfir bein hinna dauðu eft­ir Nó­bels­verðlauna­höf­und­inn Olgu Tocarczuk, í leik­stjórn Simons McBurneys. „Hér er um að ræða glæ­nýja leik­sýn­ingu frá Complicité í sam­starfi við Þjóðleik­húsið. McBurney vann hér leiksmiðju með leik­ur­um Þjóðleik­húss­ins við þróun verks­ins,“ seg­ir Magnús Geir, en Þjóðleik­húsið er eitt 11 leik­húsa í Evr­ópu sem koma að sam­starf­inu við Complicité. „Þetta er djúpt en um leið aðgengi­legt verk þar sem sam­band manns og nátt­úru er skoðað,“ seg­ir Magnús Geir og tek­ur fram að sýn­ing­in sé upp­hafið á frek­ara sam­starfi við Complicité.

Af öðrum sýn­ing­um leik­árs­ins má nefna að út­skrift­ar­sýn­ing leik­ara­nema úr Lista­há­skóla Íslands verður sýnd í Kass­an­um í vor í leik­stjórn Hörpu Arn­ar­dótt­ur auk þess sem tvö stutt­verk verða sýnd und­ir merkj­um Há­deg­is­leik­húss­ins, þ.e. Verkið eft­ir Jón Gn­arr og Heim­sókn eft­ir Hildi Selmu Sig­berts­dótt­ur. Tvö sam­starfs­verk­efni verða á dag­skránni; Leynd­ar­mál í leik­stjórn Ásrún­ar Magnús­dótt­ur sem frum­sýnt er á Litla sviðinu í nóv­em­ber og Á eig­in fót­um í leik­stjórn Agnes­ar Wild sem frum­sýnt er á Litla sviðinu í fe­brú­ar. Frá fyrri leik­ár­um snúa aft­ur fjöl­skyldu­söng­leik­ur­inn Draumaþjóf­ur­inn, dans­sýn­ing­in Til ham­ingju með að vera mann­leg og barna­sýn­ing­arn­ar Lára og Ljónsi – jóla­saga og Ég get. Sem fyrr verður uppistand, drag, spuna­sýn­ing­ar Improv Ísland, kaba­rett und­ir stjórn Margét­ar Erlu Maack og gamanóper­ur í upp­færslu Óðs áber­andi í Kjall­ara leik­húss­ins.

„Lokaviðburður hátíðar­halda í til­efni af List án landa­mæra fer fram á Stóra sviðinu 3. des­em­ber í sam­starfi við Þjóðleik­húsið, Drag syndrome nefn­ist sýn­ing víðfrægs hóps drag-lista­fólks með Downs-heil­kenni sem sýnd verður í Kjall­ar­an­um í októ­ber. Þjóðleik­húsið stend­ur fyr­ir fjór­um kvöld­um í vet­ur und­ir yf­ir­skrift­inni Hou­se of Revoluti­on þar sem fjöl­marg­ir lista­menn af ólík­um upp­runa stíga á stokk en R.E.C. Arts vel­ur lista­menn­ina.“

Rækt­um mennsk­una

Í ljósi þess að kom­andi leik­ár er fyrsta eðli­lega starfs­árið að heims­far­aldri lokn­um ligg­ur beint við að spyrja hvernig Þjóðleik­húsið komi und­an far­aldri fjár­hags­lega séð. „Þetta voru auðvitað ótrú­lega krefj­andi tím­ar þar sem sí­fellt þurfti að bregðast við breytt­um aðstæðum og for­send­um. En við kom­umst í gegn­um þenn­an skafl með rétt­um ákvörðunum, vel­vild leik­hús­gesta og góðum stuðningi stjórn­valda. Þrátt fyr­ir far­ald­ur­inn tókst leik­hús­inu að skapa stór­kost­leg­ar sýn­ing­ar og halda sterku sam­bandi við gesti sína,“ seg­ir Magnús Geir, en bend­ir á að það sé krefj­andi verk­efni um all­an heim að koma áhorf­end­um aft­ur í menn­ing­ar­takt­inn, t.d. með áskrift­ar­kort­um.

Ekki er hægt að sleppa Magnúsi Geir án þess að for­vitn­ast hvernig Þjóðleik­húsið hafi brugðist við þeirri miklu umræðu og ákalli um inn­gild­ingu í sviðslist­um sem fram fór í sam­fé­lag­inu í fyrra, m.a. í tengsl­um við frum­sýn­ing­una á Sem á himni. „Það er hlut­verk leik­húss­ins að vera opið, vak­andi og að hlusta. Þannig vilj­um við vera í öll­um okk­ar störf­um og reyn­um að hlusta eft­ir þörf­um og ábend­ing­um sam­fé­lags­ins. Þegar umræða fer af stað reyn­um við að hrökkva ekki í vörn held­ur að læra af reynsl­unni og verða betri í dag en í gær. Við vilj­um nálg­ast allt sam­tal opin og af kær­leika. Síðasta haust fór af stað mjög fróðleg og lær­dóms­rík umræða,“ seg­ir Magnús Geir og vís­ar þar m.a. til málþings með hagaðilum sem Þjóðleik­húsið stóð fyr­ir síðasta haust.

„Við tók­um þá góða umræðu sem fram fór á málþing­inu inn í stefnu­mót­un­ar­vinnu fyr­ir leik­húsið, sem fór fram síðasta vet­ur. Þar sjást þess glögg merki að við höf­um lagt við hlust­ir. Ég leyfi mér að full­yrða að leik­árið end­ur­spegli umræðuna og þann lær­dóm sem við höf­um dregið. Eins og sjá má af dag­skránni er hún mjög fjöl­breytt. Hæfi­leika­ríkt fólk úr öll­um átt­um kem­ur að sýn­ing­um húss­ins og von­andi hjálp­ar það til við að þoka mál­um í rétta átt í stóra sam­heng­inu. Leik­húsið er sam­ein­andi afl, þar sem við kom­um sam­an, rækt­um mennsk­una og tengj­umst. Hér hlæj­um við og grát­um sam­an.“

mbl.is