„Að taka við stöðunni er dýpsta laug sem ég hef nokkurn tíma farið í“

Erna Sif Þorkelsdóttir tók við starfi miðasölustjóra árið 2018.
Erna Sif Þorkelsdóttir tók við starfi miðasölustjóra árið 2018. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Erna Sif Þorkelsdóttir var aðeins 25 ára gömul þegar hún hlaut ráðningu sem miðasölustjóri og tók við forystuhlutverki framhúss Borgarleikhússins. Hin nú þrítuga Reykjavíkurmær hefur vaxið og dafnað í starfi undanfarin ár og er nú sýkt af ólæknandi leikhúsbakteríu. 

Erna Sif tók við hlutverki miðasölustjóra Leikfélags Reykjavíkur í Borgarleikhúsinu síðla árs 2018 þegar Guðrún Stefánsdóttir lét af störfum sökum aldurs. Sú síðarnefnda hafði stýrt miðasölu og framhúsi félagsins áratugum saman og allar götur frá því að leikhúsið flutti í núverandi húsnæði þess við Listabraut árið 1989. 

„Þetta var virkilega krefjandi. Ég tók við mjög góðu búi frá Guðrúnu Stefánsdóttur, sem var búin að sinna stöðu miðasölustjóra í 30 ár. Hún hætti 70 ára gömul og ég byrjaði 25 ára. Ég var að hefja minn starfsferil þegar hún var að ljúka sínum en það reyndist mjög spennandi fyrir mig að taka við starfinu af svona miklum fagmanni eins og Guðrúnu. Það var jafnframt mikil áskorun og ég þurfti að hafa mig alla við. Hún var búin að byggja upp 30 ára tengsl við bæði starfsfólk og viðskiptavini,“ segir Erna Sif, sem tók stolt við starfinu af forvera sínum. 

Þetta hófst í Hörpu

„Ég hóf störf sem sætavísa í Hörpu samhliða menntaskóla, en það er skemmtilegasta starf sem ég hef unnið. Sem sætavísa sér maður svo svakalega ólíka, magnaða og áhrifaríka viðburði. Í Hörpu kynntist ég listinni og lærði að kunna að meta hana. Það stækkar mann að starfa í tengslum við listir og menningu,“ segir Erna Sif, sem rifjar upp fyrstu kynni sín af hinum íslenska menningarheimi. 

Fjölbreytt menningarstarf Hörpu og ríkt viðburðarlíf urðu síðar kveikjan að vali á háskólanámi Ernu Sifjar, en hún útskrifaðist úr eins árs diplómunámi í viðburðastjórnun frá Háskólanum á Hólum árið 2017. Skömmu eftir útskrift hlaut hún ráðningu sem miðasölustjóri Leikfélags Reykjavíkur og má því segja að ráðning Ernu Sifjar hafi verið skrifuð í skýin. 

Erna Sif í hlutverki sínu sem sætavísa í Hörpunni.
Erna Sif í hlutverki sínu sem sætavísa í Hörpunni. Ljósmynd/Erna Sif Þorkelsdóttir

„Ég vissi það alveg frá því að ég var lítil að ég vildi vera í starfi þar sem ég myndi bera ábyrgð, taka ákvarðanir og hafa áhrif á hlutina. Ég var ekki gömul þegar ég var farin að spá í starfi frænku minnar, hennar Jónu, sem þá var deildarstjóri og fékk ég endrum og sinnum að mæta með henni í vinnuna. Ég man mjög vel hvað mér þótti magnað að sjá hana takast á við alls kyns mál og hvað hún gerði það vel. Það og Jóna frænka er klárlega kveikjan að áhuga mínum, að hafa fengið þessa innsýn í stjórnunarstarf hennar og þetta ung,“ útskýrir Erna Sif. 

„Um 18 ára aldurinn, þegar ég vann sem sætavísa í Hörpu, sóttist ég svo sjálf eftir því að vinna mig upp, enda mjög áhugasöm. Ég elskaði að vera í húsinu og var í raun alveg sama hvert verkefnið var, mér leið aldrei sem ég væri í vinnunni. Ég tók allar aukavaktir sem buðust og elskaði að vera í vinnunni. Þannig tókst mér að vinna mig, hægt og rólega, upp í starf miðasölustjóra Leikfélags Reykjavíkur í Borgarleikhúsinu,“ segir Erna Sif, en menningarhúsið er heldur betur heppið með þessa ungu, öflugu og drífandi konu við miðasölutaumana.

Hver hvatti þig til að sækjast eftir ástríðu þinni?

„Foreldrar mínir eru helsta hvatning mín í lífinu. Þau hafa bæði unnið fyrir sínu og komið sér vel fyrir í lífinu. Þau hafa alltaf sýnt áhuga á því sem ég og við systur gerum og hvatt okkur áfram.

Erna Sif ásamt foreldrum sínum og systrum.
Erna Sif ásamt foreldrum sínum og systrum. Ljósmynd/Erna Sif Þorkelsdóttir

Ömmur mínar eru einnig óbilandi hvatning. Amma heitin í Hrauni og amma á Múla eru og voru svo grjótharðar og duglegar konur. Þegar eitthvað er erfitt þá hugsa ég til þeirra. 

Þegar kemur svo að heilbrigði og lífstíl þá eru bestu vinkonur mínar, Gjóna og Þórey, algjörar fyrirmyndir, en þær eru duglegar að vera í stuðningsliðinu og hvetja mig endalaust áfram til að ná árangri,“ segir Erna Sif. 

Erna Sif ásamt vinkonum sínum, Gjónu og Þóreyju.
Erna Sif ásamt vinkonum sínum, Gjónu og Þóreyju. Ljósmynd/Erna Sif Þorkelsdóttir

Kórónuveiran breytti leiknum

Menningarhúsin og sjálfstæðu sviðslistahóparnir voru meðal þeirra fyrirtækja og stofnana sem urðu illa fyrir barðinu á kórónuveirufaraldrinum og urðu leikhúsin að loka dyrum sínum í tæpa fimm mánuði þegar útlitið var hvað dekkst og óvissan mest. 

Á þeim tíma var Erna Sif búin að sinna stöðu miðasölustjóra í tvö ár, en þetta var tíminn sem breytti leiknum fyrir unga stjórnandann enda varð álagið á miðasöluna gríðarlegt. Það þurfti ítrekað að fresta leiksýningum og flytja kortagesti og aðra miðahafa.

„Ég hafði unnið sem miðasölustjóri í Borgarleikhúsinu í tvö ár þegar kórónuveiran skall á. Á þeim tíma vorum við með gríðarlegan fjölda seldra miða á sýningarnar okkar, sem fram undan voru. Við vorum að frumsýna söngleikinn Níu líf sama dag og okkur var gert að loka,“ segir Erna Sif. Söngleikurinn Níu líf, sem er byggður á lífi tónlistarmannsins Bubba Morthens, er einn sá allra vinsælasti sem sýndur hefur verið á leiksviði hérlendis og þar af leiðandi ekkert grín að fresta sýningum og flytja leikhúsgesti yfir á aðrar dagsetningar. 

Erna Sif ásamt hluta af samstarfsfólki sínu úr miðasöludeild Borgarleikhússins.
Erna Sif ásamt hluta af samstarfsfólki sínu úr miðasöludeild Borgarleikhússins. Ljósmynd/Erna Sif Þorkelsdóttir

„Á þessum tímapunkti þurfti að taka stórar ákvarðanir, hratt og örugglega. Ég fann það strax að tímarnir sem fram undan voru myndu reyna á mig og mitt starf. Á þessum tímapunkti var ekkert annað í boði en að rísa upp, vera ákveðin, taka ákvarðanir og læra að leyfa mér að skipta um skoðanir í leiðinni,“ segir Erna Sif, sem lærði margt á þessum óreiðukenndu tímum. 

„Starfið hefur klárlega haft áhrif á mig og mótað mig, þar sem ég var aðeins 25 ára þegar ég tók við starfinu. Að taka við starfi miðasölustjóra var dýpsta laug sem ég hef nokkurn tíma farið í. Öll reynsla hjálpar og ég tel að reynslan hafi mótað mig mikið sem einstakling,“ segir hún. 

Erna Sif segist hafa fundið fyrir mótlæti sem ung kona í stjórnunarstöðu, en þá sérstaklega til að byrja með. „Það hafa alveg komið augnablik þar sem ég hef þurft að hafa meira fyrir því að fá mitt í gegn og standa fastar á mínu. Mögulega hafði það áhrif að ég er ekki með margar háskólagráður á bakinu og ekki margra ára starfsreynslu. 

Erna Sif segist ákaflega þakklát yfirmanni sínum, Kristínu Ögmundsdóttur framkvæmdastjóra …
Erna Sif segist ákaflega þakklát yfirmanni sínum, Kristínu Ögmundsdóttur framkvæmdastjóra Leikfélags Reykjavíkur, fyrir traustið sem hún hafi sýnt sér. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ungu fólki er samt sem áður gefin tækifæri, sem er alveg frábært, og sjálfri fannst mér til að mynda alveg magnað að yfirmaður minn, Kristín Ögmundsdóttir framkvæmdastjóri Leikfélags Reykjavíkur, hafi gerst svo djörf að ráða inn 25 ára stúlku í stöðu miðasölustjóra á sínum tíma. 

Ég hef samt ávallt fengið að blómstra með mitt hér í Borgarleikhúsinu og stjórnendur hér leitast eftir að hafa sem fjölbreyttastan aldur í starfshópnum,“ útskýrir Erna Sif, sem er óendanlega þakklát fyrir ráðninguna og traustið. 

Hvað er besta ráð sem þú hefur fengið?

„Ég hugsa oft um það sem einu sinni var sagt við mig: Fyrst þú gast lært að ganga sem barn, þá getur þú lært þetta líka. Ég hugsa mjög oft um þessi orð þegar ég er að gera eitthvað sem mér þykir krefjandi,“ segir hún. 

„Enn að bíða eftir rólegheitum“

Það er aldrei dauð stund í lífi miðasölustjóra, en dagskrá Ernu Sifjar hefur verið fullskipuð frá fyrsta degi og er ekkert að hægja á sér. 

„Ég taldi það auðveldara hlutverk að vera millistjórnandi í fyrirtæki, en það er í raun og veru. Það kom mér mikið á óvart hvað starf miðasölustjóra er krefjandi, margbreytilegt og lifandi. Það eru engir tveir dagar eins. 

Ég man að ég hugsaði þegar ég hætti í Hörpu, hvað það væri nú þægilegt að fara í rólegt starf í leikhúsinu, en ég er enn þá, fimm árum síðar, að bíða eftir þessum rólegheitum. Strax í lok ágúst hefst áskriftarkortasalan á fullu, svo tekur gjafakortasalan við fyrir jólin í beinu framhaldi og við verðum með tíu frumsýningar á nýjum leikverkum, svo það er heldur betur fjör í vinnunni,“ segir Erna Sif, sem er löngu farin að elska allt fjörið í Borgarleikhúsinu. 

„Áskorun að læra að verða ekki ómissandi“

Erna Sif telur sig ljónheppna, en hún elskar starfið og hlakkar ávallt til að mæta og tækla daginn í vinnunni. „Það besta við starfið er að fá að sjá allar þessar fjölbreyttu leiksýningar. Ég er líka að vinna með svo skemmtilegu fólki, það er ekkert nema algjör forréttindi,“ segir hún og hlær. 

Miðasölustjórinn segir það þó hafa verið gríðarlega áskorun fyrir sig að læra að verða ekki ómissandi. „Stundum þykir mér mjög erfitt að setja sjálfri mér tímamörk varðandi verkefni. Ég hef þurft að læra að það má standa upp frá ókláruðum verkefnum og ljúka við daginn á eftir eða jafnvel bara seinna, án þess að hafa verkefnið á heilanum. Það reynir þó oft á þessi atriði á álagstímum í starfinu,“ útskýrir hún.

Erna Sif hefur mótað öfluga liðsheild með framsæknu og metnaðarfullu starfsfólki síðastliðin ár. Hún leggur sig alla fram við að skapa jákvætt og traust andrúmsloft og trúir því að góður yfirmaður sé fyrst og fremst trúverðugur og ekki síður fyrirmynd starfsmanna sinna. 

„Í miðasölu Borgarleikhússins er mjög persónuleg þjónusta við leikhúsgesti og við þekkjum viðskiptavini vel. Þetta var því stórt skarð fyrir mig að fylla, enda einnig þéttur samstarfshópur. Núna fimm árum síðar er ég mjög stolt af því sem við miðasöluteymið höfum byggt upp í sameiningu og erum við bara rétt að byrja,“ segir hún. 

„Samstarfsfólk mitt veitir mér innblástur. Þeir sem starfa í leikhúsi eða við listir eiga það flestir sameiginlegt að hafa mikla ástríðu fyrir því sem verið er að vinna að. Þegar fólk hefur ástríðu fyrir því sem það gerir þá eru verkefnin unnin af metnaði og töfrar verða til,“ útskýrir Erna Sif. 

„Það veitir mér svo mikinn innblástur að vinna með fólki sem hefur sjálft svona mikinn áhuga á því sem það er að gera.“

Núllstillir sig í sveitinni

Ernu Sif finnst mikilvægt að slaka á öðru hverju enda umvafin ástríkri fjölskyldu, kærum vinum og yndislegum kærasta. Hún er í sambandi við Hreiðar Inga Ársælsson, en parið nýtti sumarlokun Borgarleikhússins til þess að koma sér fyrir í nýrri íbúð sinni á Kársnesi. 

Erna Sif ásamt kærasta sínum, Hreiðari Inga.
Erna Sif ásamt kærasta sínum, Hreiðari Inga. Ljósmynd/Erna Sif Þorkelsdóttir

„Við Hreiðar Ingi erum nýflutt í íbúðina okkar á Kársnesi og snýst þar af leiðandi allt um nýja fína heimilið okkar. Ég elska að innrétta og er mögulega með það á heilanum þessa dagana,“ segir Erna Sif og hlær. „Svo var ég að eignast hjól og það er nýtt æði hjá mér núna að fara út að hjóla á kvöldin.“

Erna Sif er dugleg að passa upp á að hugurinn sé ekki alltaf í vinnunni, en til þess að núllstilla líkama og sál ferðast hún í sveitina. „Ég elska að komast í sveitirnar mínar, ég á eina sveit á Barðaströnd og aðra í Landbrotinu. Við Hreiðar og fjölskyldan öll reynum að vera dugleg að kíkja reglulega í sveitina. Ég kem alltaf til baka endurnærð. Í sveitinni hverfa allar áhyggjur, tíminn stoppar og maður upplifir algjöra núllstillingu,“ útskýrir Erna Sif. 

Erna Sif drífur sig í sveitina við hvert tækifæri.
Erna Sif drífur sig í sveitina við hvert tækifæri. Ljósmynd/Erna Sif Þorkelsdóttir

Nú er leikár Borgarleikhússins gengið í garð og álagstími Ernu Sifjar og miðasöluteymisins við það að hefjast. Hópurinn er klár í slaginn, en Erna Sif segir „að á bak við alla velgengni sé ástríða fyrir því sem maður er að fást við, metnaður og dugnaður.“

mbl.is