Ætlar að fara í frelsið

Helga Vala með yfirsýn yfir miðbæinn á nýjum starfsvettvangi á …
Helga Vala með yfirsýn yfir miðbæinn á nýjum starfsvettvangi á Hafnartorgi. Morgunblaðið/Eyþór Árnason

Helga Vala Helgadóttir talar ekki í kringum hlutina frekar en vanalega þegar hún er spurð út í bæjarróminn: „Já, ég er að hætta á þingi og ætla að helga mig lögmannsstörfum.“

Það er þó ekki svo að hún hafi misst áhuga á stjórnmálum, það kemur skýrt og skorinort fram hjá henni, en lög og réttur toga í hana og nú þykir henni rétti tíminn til þess að sinna þeirri köllun.

„Ég fór mjög óvænt inn á þing 2017, þegar ég var lögmaður í blússandi rekstri sem gekk mjög vel. Þetta hefur verið ævintýralegt ferðalag og ákaflega skemmtilegt. En svo fer það að ágerast undanfarið ár – líkt og gerist oft með lögmenn en líka lækna – að fólk héðan og þaðan er að leita ráða hjá mér, biðja mig um ráðleggingu varðandi eitt og annað. Ég hef meira að segja fengið símtal úr héraðsdómi um hvort ég gæti tekið að mér lögmannsstörf, þrátt fyrir að vera ekki með virk lögmannsréttindi.

En ég fékk smá fiðring við þetta. Mér finnst lögfræðin ofsalega skemmtileg og lögmennskan sömuleiðis heillandi. Mér finnst gaman að vera svona nálægt lausnunum, vera að hjálpa fólki eins mikið og ég get. Svo það hefur ágerst á undanförnu ári og haft sín áhrif.“

En þú hefur alltaf verið með sterka pólitíska taug, löngu áður en þú slysaðist á þing?

„Já, mér finnst pólitíkin skemmtileg, finnst hinn pólitíski leikur skemmtilegur. Þetta argaþras, og að leita lausna, ég held það sjái það allir.“

Þú ert náttúrlega lærður leikari …

„Já, þetta er leikhús, svona það sem snýr að almenningi. Ég held að menntun mín hafi nýst vel þarna, bæði lögfræðin og leiklistin. Að kunna að beita röddinni, þekkja töfra þagnarinnar, hafa presens og ná valdi á salnum. Sem raunar á líka við í dómsal.“

Er ekki að fara úr Samfylkingunni

En af hverju að hætta núna þegar Samfylkingin fer með himinskautum í skoðanakönnunum?

„Ég held að það sé miklu verra að stökkva frá borði þegar illa gengur og mest reynir á. Ég myndi ekki vilja fara frá hópnum mínum þegar þannig stendur á, ég er mikil svona … liðskerling.

Og svo það sé nú alveg á hreinu, þá er ég ekki að fara úr Samfylkingunni. Ef það væri málið, þá væri ég farin í einhvern af þeim flokkum sem hafa boðið mér að koma þangað.“

Hverjir voru að bjóða þér það?

„Það gerðist þarna síðasta haust þegar mér var skipt út sem þingflokksformanni, þá héldu sumir að ég væri komin í svo mikla fýlu að ég væri á leið úr flokknum. En ég er ekki þar. Ég er ekki í pólitík fyrir mig og mína hatta.“

Í alvöru?

„Ég veit að það trúir því enginn, af því að þannig birtist pólitíkin, en það er samt þannig.“

Nú hefur þú þótt frekar til vinstri á mælikvarða Samfylkingarinnar en nýi formaðurinn, Kristrún Frostadóttir, síður; það voru alls kyns sögur um að þú og hún ættuð ekki skap saman, að það gneistaði milli ykkar bæði persónulega og pólitískt. Gátuð þið ekki unnið saman?

„Ég er búin að heyra þetta allt. Fyrst átti þetta að vera milli hennar og Oddnýjar [G. Harðardóttur], en svo heyrði ég einhvern tala um að vinnustaðasálfræðingur hefði komið til aðstoðar vegna þess að mér og Kristrúnu kæmi ekki saman. Mér var a.m.k. ekki boðið í það partí og það hefur engum dottið í hug að spyrja mig hvort það væri fótur fyrir þessari sögu.“

Svo er ekki?

„Að minnsta kosti var mér ekki boðið. En sagan er lífseig og pólitískir andstæðingar hafa gaman af að rifja hana upp á tyllidögum.“

Það breytir ekki því að þið Kristrún eruð ekki sammála um allt.

„Nei, nei. Það er ekkert leyndarmál að ég er mikill Evrópusinni og lítill stóriðjukrati. Og mitt erindi í pólitík er mannréttindi, réttindi fólks, jöfnuður. Þau mannréttindi geta verið efnahagsleg, náð til kynja, kynþátta, kynslóða … þess vegna steig ég inn.“

Á það ekki líka við um formanninn þinn, þótt nálgunin geti verið ólík?

„Jú eflaust, en mín útganga snýst bara ekkert um Kristrúnu. Og þótt það sé vinsælt að teikna upp þá mynd að tvær konur geti ekki verið saman í herbergi, þá er það bara ekki rétt og brottför mín hefur ekkert með hana að gera.“

Hjartað ræður för

Heldur hver?

„Það er hjartað sem ræður og almenn gleði. Mig langar meira í lögmennsku núna.

Ég lít svo á að þingmennskan sé borgaraþjónusta. Þetta er ekki þægileg innvinna, langt í frá, og á ekki að vera. Ef mér finnst að hjarta mitt sé farið eitthvað annað, þá finnst mér að kjósendur eigi rétt á því að ég sé ekki að hanga í einhverjum stól.“

Mörgum finnst þeir nú þægilegir.

„Með fullri virðingu, þá sýnir sagan okkur að fólk hangir frekar of lengi á þessum stólum en hitt.

Núna gengur mjög vel, ég er ekki að svíkja neina og óska félögunum góðs gengis. Ég er bara að segja takk fyrir mig.

Þetta er búið að vera æðislega skemmtilegt, ég er búin að læra mjög mikið, og nú ætla ég að fara í frelsið.“

Þér finnst það frelsi miðað við þingstörfin?

„Já, en ég á líka við það að vera eigin herra, ég hef á vísan stað að fara og undir mér komið hvað úr verður. Það á ekki við um alla þingmenn. Þeir eiga margir – sérstaklega konur – erfitt með að fá vinnu eftir að hafa verið hér á þingi um lengri eða skemmri tíma.“

Þú hefur ekki áhyggjur af því að starfsmannaveltan í þinginu sé of mikil, að stofnanaminnið daprist of hratt?

„Jú, vissulega. Ég get verið sammála því að einhverju leyti. Ég get líka verið sammála því að stundum skorti fagmennsku í þingið. Það er stundum sagt að það séu of margir lögfræðingar á þingi, en það get ég ekki tekið undir. Við erum löggjafinn.

Reynsla mín af því að vera formaður velferðarnefndar á ögurtímum heimsfaraldurs, þar sem við ásamt fjárlaganefnd og efnahags- og viðskiptanefnd vorum starfsömustu nefndirnar, var nú sú að það hefði ekki veitt af fleiri lögfræðingum.“

Lausatök í heimsfaraldri

Þá hefðu kannski dómarnir orðið færri?

„Já, dómar yfir ráðherrum og ríkisvaldi hefðu sjálfsagt orðið færri.

Nú erum við Sigríður Á. Andersen ekki skoðanasystur í stjórnmálum, en það var ákveðin líkn, þegar hún kom og leysti af í velferðarnefnd á þessum tímum. Ég fann að þar var komin manneskja sem skildi mikilvægi þess að við settum í lög þær þvingunarráðstafanir sem lagðar voru á borgarana. Því það þurfa að vera ákveðin lög og reglur, sem við verðum að fara eftir, og við þurfum að gæta að standi í lögum ef ríkisvaldið ætlar í slíkt. Mér fannst á þeim erfiðu krísutímum of lítill skilningur á þessu öllu í þinghópnum.“

Átti það ekki við í öllum flokkum?

„Jú, ég er að tala um þingið í heild sinni.

Og ekki bara þar. Ég þurfti nú að skrifa opið bréf til Kára Stefánssonar um þetta. Að hann væri auðvitað frábær læknir en hann væri ekki lögfræðingur. Við erum hér bara að tala um lögfræði. Ég ber djúpa virðingu fyrir Kára, en hann er ekki auðveldur maður. En það er oft gaman að fólki sem er ekki mjög auðvelt.“

Var löggjafinn ekki að valda verkefninu?

„Það er nú oftar sem ég hef orðið bálreið yfir einhverju svona fúski í þinginu. Eins og við erum nú að horfa upp á í þessu bixi með útlendingamálin, þegar ráðherrar túlka nýsamþykkt lög með gerólíkum hætti. Svo er því vísað til Lagastofnunar, sem svarar að það hafi aðeins verið spurt um eitt en ekki hitt sem máli skipti. Það er ástæða fyrir því að stjórnvöld spyrja ákveðinna spurninga en ekki allra hinna, af því að þau vilja ákveðin svör til að geta byggt á þeim í umræðunni.

En ég skal líka játa að mér finnst þetta bæði skemmtilegasti hlutinn af þingstarfinu, það er að geta bent á þessa lögfræðilegu þætti, en líka það sem veldur manni mestri gremju þegar mikilvæg lögfræðileg sjónarmið komast ekki að. Þegar maður biður kollegana að gleyma því eitt augnablik að maður sé stjórnarandstöðuþingmaður og hlusta aðeins, að ég sé ekki að reyna að klekkja á þeim heldur aðeins að benda á að ef eitthvað sé orðað svona þá leiði það til einhvers sem ekki var ætlun meirihlutans.

En af því að maður er í stjórnarandstöðu, þá finnst mörgum maður bara vera með stæla.“

Þrasið á ekki að vera persónulegt

Á það við um alla þína júrísku bræður og systur á þingi?

„Nei, þess vegna var svo gott að fá Siggu þarna inn, af því að hún skildi hvað ég var að fara. Um það vorum við alveg sammála, þótt okkur greindi á um nánast allt annað.“

Þið Brynjar Níelsson, sem líka er lögfræðingur, urðuð landsþekkt fyrir að rífast vikulega í Bítinu á Bylgjunni, átti þetta líka við um ykkur?

„Ja, það er nú bara þannig með pólitíkina, fólk er oft að velta fyrir sér hvernig maður geti verið að standa í þessu argaþrasi eilíflega og einmitt ekki síst út af þessum reglulegu rimmum okkar Binna. Ég tek svona pólitískt þras bara engan veginn persónulega. Þess vegna var líka þægilegt að hafa hann á móti sér, því að hann var alveg eins stemmdur með það.“

En það eru ekki allir þannig.

„Nei, það eru ekki allir þannig.“

Hefur þú tekið það nærri þér?

„Nei, ég hef þykkan skráp. En ég á erfitt með óheiðarleika og undirferli, þegar verið er að reyna að koma fólki illa persónulega og í einkalífi þess út frá pólitík. En það er auðvitað bara ákveðin tegund af mannfólki og finnst víðar en á þingi. Og svo er nú hitt að þótt maður sé með skráp, þá á það ekki endilega við um þá sem næst manni standa, þau verða stundum viðkvæmari fyrir skítkastinu til mín.“

Meiri harka, meiri skautun

Mér finnst þessi harka hafa ágerst eftir hrun, getur það verið rétt?

„Jú, ég held að það sé orðið algengara. Sumum virðist ekki nægja að eiga andstæðinga, þeir hafa þá að óvinum. Við svo bætist að það sem á sér stað innan flokkanna er miklu flóknara og tilfinningaríkara en það sem á sér stað milli flokka.

En það er þessi skarpa skautun sem er orðin í öllu, ég hef áhyggjur af henni. Eiginlega bara mjög miklar.“

Líða þingstörfin fyrir það?

„Já, en ég er meira að tala um skautun í samfélögum, því þessi þróun hefur verið víða um heim. Og það eru ákveðnir kjörnir fulltrúar, bæði á Íslandi og annars staðar, sem ætla sér að ná hylli með því að auka skautunina. Það held ég að muni ekki leiða til neins góðs.“

En hafa slíkir stjórnmálamenn nokkuð uppskorið hér? Þeir hafa ekki náð miklu ef nokkru fram og ekki haldist vel á atkvæðum.

„Kannski ekki, en áður var þetta bara einn og einn maður, mér finnst fleiri tala á sama veg nú.“

En berið þið ekki líka ábyrgð á skautuninni? Í margræddum útlendingamálum eru ýmsar réttmætar áhyggjur, sem samt fást ekki ræddar, og þeim sem færa þær í tal bornar á brýn annarlegar kenndir og fordómar.

„Jújú og manni finnst t.d. eins og Sjálfstæðisflokkurinn viti ekkert hvernig hann eigi að höndla þennan málaflokk. Og ekki voru þau skýrari skilaboðin frá þessum tveimur flokksráðsfundum, sem við fengum um síðustu helgi. Almáttugur!

Ástlausara hjónaband hefur maður nú varla orðið vitni að. Því það sem maður fann upphaflega var að það voru einhverjir straumar þarna undir niðri, en nú er þetta bara málamyndahjónaband.“

Ætlar ekki í hælisleitendamálin

Við nefndum útlendingamálin, sem þú hefur helgað þig töluvert, bæði í lögmannsstörfum áður og síðar í þinginu, en nú ertu að fara aftur að praktísera. Ætlarðu sinna þeim mikla málaflokki aftur?

„Nei.“

Nei?

„Nei. Þegar maður er að fara aftur af stað í lögmennsku þarf maður að gæta þess að maður geti rekið sig og þessi mál eru ekki vel til þess fallin. Lögmenn í þeim málaflokki þurfa að gefa mikið af sínum tíma og það er ekki hægt að endurræsa lögmannsstofu á þeim grunni.“

Hvaða sviðum lögfræðinnar ætlarðu helst að sinna?

„Ég mun taka upp þráðinn í sakamálum, mér finnast þau spennandi og skemmtileg. Eins hvers kyns persónuréttur, fjölskylduréttur, mannréttindi og fleira. Síðan vil ég fara meira í stjórnsýsluna, aðstoða sveitarfélög og fyrirtæki í samskiptum við ríkisvaldið. Þar hef ég öðlast mikla reynslu á síðustu árum.“

Heldurðu að einhver fetti fingur út í að þú sért allt of vel tengd eftir þingsetuna?

„Þetta er lítið land og ég hafði verið í samskiptum við fólk út um allt samfélag áður en ég settist á þing. Þetta er því eilíf vangavelta um hver var í bekk með systur hvers eða kyssti bróður hins. Það eru íslenskar tengingar og þess vegna minni ástæða til að hafa áhyggjur af tengslum við erlenda borgara með lítil sem engin tengsl. Við ættum kannski að hafa meiri áhyggjur af tengslum þingmanna við samlanda sína.“

Gæta menn sín ekki?

„Við sjáum bara fólk setja digrar summur inn á kosningasjóði þingmanna og þá skilur maður ákveðna afstöðu í hápólitískum málum. Þú ert beinlínis að fást við þingmál, sem hafa bein áhrif á fyrirtæki í þinni eigu eða fjölskyldunnar. Og það er bara látið eins og það sé allt í lagi á meðan þetta eru Íslendingar.

Á hverjum degi les ég í kommentakerfum að ég sé vanhæf til að fjalla um málefni flóttafólks af því ég græði svo mikið á þessum málum. Sem er bara lygi og ég hef bent á það í mörg ár. Svo koma jafnvel þingmenn í þingsal og lepja þetta upp.

Arnar Þór Jónsson spurði mig þó að þessu beint og ég þakkaði honum nú bara fyrir að gefa mér tækifæri til þess að útskýra það að ég hefði látið af lögmennsku þegar ég settist á þing 2017, en þessi mál voru þess utan tekin af lögmönnum og sett inn í Rauða kross þremur árum fyrr.“

Vill meiri mennsku í sakamálin

Sakamálin, hefurðu engar áhyggjur af að þú sért að koma inn í talsvert harðari glæpaheim en þú kvaddir 2017?

„Það sem ég vil setja meira inn í sakamálin er ákveðin mennska.

Ég held að við þurfum oftar að spyrja sakborninginn: „Hvað kom fyrir þig? Hver var vondur við þig?“ Ég held að við þurfum að vinna með þessar spurningar miklu oftar. Og ég held að við þurfum líka að gera það varðandi hatrið, sem nú færist í vöxt eins og við sáum í skemmdarverkinu á Skólavörðustíg um síðustu helgi. Hvað veldur þessu hatri og heift?

Þetta sprettur ekki úr engu. Það er eitthvað sem hefur gerst hérna. Það eru ekki bara erlend glæpagengi sem hafa búið þetta til. Það er eitthvert rof.“

En þetta eru ekki svörin sem fjölskyldur fórnarlamba vantar, ekki réttlætið sem þær leita.

„Nei. En ef við ætlum að reyna að fækka glæpum, þá lögum við ekki það sem gerst hefur, en við getum reynt að koma í veg fyrir að einstaklingur sem fremur hræðilegan glæp haldi áfram á þeirri braut. Við komum ekki í veg fyrir glæpi með því að útskúfa viðkomandi úr íslensku samfélagi. Það verður enginn að betri manni við það.“

Finnst þér refsistefnan hér ströng?

„Nei, hún er ekki mjög ströng en okkur vantar betrun. Við erum ekkert rosalega góð í því þessa dagana að gefa fólki annað tækifæri eftir að það kemur úr fangelsi. Auðvitað eru ákveðin brot flóknari eins og kynferðisbrot, og það er enginn að ætlast til þess að brotaþolar fyrirgefi ofbeldismanni eftir afplánun. En manneskjan verður ekki betri af varanlegri útskúfun, líkt og getur orðið hjá ungum strákum, sem hafa leiðst út á braut afbrota. Sú útskúfun er helst til þess fallin að gera þá andfélagslega.

Á því þarf samfélagið að taka, því það er dýrt í öllum skilningi að gera ekkert í því eða gera það illa. Það er samfélaginu dýrt að láta einstakling, sem er sakaður um brot, ganga í fjögur ár frá kæru þar til dómur er kveðinn upp í Landsrétti. Það er langur tími fyrir 18 ára mann sem þarf að dúsa svo lengi á sakamannabekk áður en dómur fellur. Jafnvel í játningarmálum.“

Og svo er dómurinn.

„Já, svo er dómurinn. Þar finnst mér rétt að spyrja af hverju dómarar megi ekki dæma fólk til samfélagsþjónustu, af hverju það verði að vera fangelsisdómur. Af hverju má ekki gefa ungum strákum annað tækifæri undir ákveðnum kringumstæðum frekar en að senda þá inn á Hraun til gömlu neyslufélaganna, sem þeir hafa kannski „skvílað“ um?

En óháð þeim dómi er svo er líka dómstóll götunnar, sem heldur áfram með sum mál eftir að þeim er lokið i réttarkerfinu, einkum kynferðisbrot. Það verður einhvers staðar að vera hægt að komast aftur inn í samfélagið. Því ef samfélagið útskúfar einhverjum algerlega, þá vekur það andfélagslega hegðun og þannig erum við að ýta undir frekari afbrot.“

Hatrið eykst

Heldurðu að almenningur sé móttækilegur fyrir slíkum hugmyndum um mildi gagnvart fleiri og harðari glæpum?

„Ég vona það og held að skynsama fólkið sé minna að öskra á netinu. Það þegir opinberlega en er duglegt að koma til mín úti í búð og þakka mér fyrir eitt og annað sem ég segi.

En ef það fólk þegir, sem ekki telur að allir sem fæddust í útlöndum séu vont fólk, finnst að afbrotafólk eigi að fá annað tækifæri eða styður hinsegin samfélagið, þá erum við að „normalísera“ hatrið í íslensku samfélagi.“

Heldurðu í alvöru að hatrið sé að aukast?

„Já. Ég finn það. Ég finn það mjög sterkt.

Ég vil kalla þetta Trump-áhrifin. Hann komst upp með alls konar ósannindi, að ég held gegn betri vitund. Mér finnast einstaka stjórnmálamenn, líka hér á landi, tala gegn betri vitund til þess að ýta undir andúð á einstökum minnihlutahópum.“

Varla er hann fyrsti stjórnmálamaðurinn til að skruma?

„Nei, en hann var Bandaríkjaforseti og sjónvarpsstjarna með mjög sterka rödd.

Ég hef líka haft sterka rödd, alveg frá því ég gekk hér inn, en líka verið þess meðvituð að ég þyrfti að fara vel með hana. Ef þingmenn, sem fá hér ákveðið svið, ætla ekki að nota það til þess að mótmæla þegar gengið er hart fram gegn minnihlutahópum þá tapar samfélagið. Það er ekki hægt að þegja sig út úr slíku.“

Finnst þér slík þögn hávær?

„Mér finnst of margir þingmenn velja það að þegja. Þessi minnihlutamál eru „heit kartafla“ eins og sagt er, en það sem sagt er upphátt er ekki alltaf satt og rétt.“

Er fólk orðið værukærara gagnvart mannréttindum?

„Já og nei, umræðan er líka kröftug með mannréttindum, en það hefur orðið ákveðið bakslag.“

Þú sagðir að þú værir ekki hætt í Samfylkingunni þótt þú værir að hætta á þingi og það er auðheyrt að þú hugsar mjög mikið um pólitík, heldurðu áfram á vettvangi flokksins?

„Ég verð ekkert minna pólitísk og ef fólk kærir sig um það, þá mun ég ekki láta mitt eftir liggja innan flokksins eða annars staðar.

En næsta kastið þarf ég að einbeita mér að því að opna stofuna mína, bera skrifborðið hennar mömmu inn á nýjan stað á Hafnartorgi og komast í gang sem praktíserandi lögmaður. Ég hlakka mjög mikið til. Get eiginlega ekki beðið!“

mbl.is