„Ég hef aldrei upplifað einhverja sælutilfinningu eftir hreyfingu“

Hallgrímur Ólafsson nýtur sín best í golfi.
Hallgrímur Ólafsson nýtur sín best í golfi. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Hallgrímur Ólafsson leikari segist ekki lifa mjög heilsusamlegu lífi og segist ekki finna fyrir sælutilfinningu eftir hreyfingu. Best finnst honum að hreyfa sig úti á golfvelli en þar líður honum sérstaklega vel.

Hvernig hreyfir þú þig?

„Ég hreyfi mig aðallega með því að spila golf, mér finnst hreyfing oftast nær frekar leiðinleg en um leið og hún tengist einhverjum leik eða keppni þá verður þetta bærilegra,“ segir Hallgrímur.

Hvað færðu út úr hreyfingu?

„Ég hef aldrei upplifað einhverja sælutilfinningu eftir hreyfingu eins og margir tala um, er oftast nær bara þreyttur og sveittur, en það skemmir ekkert að spila vel eða vinna andstæðinginn.“

Hugsar þú um mataræðið?

„Nei, ég hugsa nú ekkert mikið um mataræðið og borða bara það sem mér þykir gott, mætti sennilega hugsa meira um hvað ég læt ofan í mig.“

Hvað borðar þú til að láta þér líða betur?

„Mér líður nú yfirleitt vel þegar ég hef borðað, en óneitanlega kannski örlítið betur ef ég veit að ég hef verið að snæða eitthvað hollt.“

Er eitthvað sem þú borðar alls ekki?

„Ég get ekki borðað slátur, hafragraut, grjónagraut og rúsínur. Held ég geti látið mig hafa flest annað, já, og einu sinni smakkaði ég eitthvað sem heitir tófú, það geri ég aldrei aftur.“

Hvað gerir þú til að slaka á?

„Ég slaka aldrei betur á en í golfi og við stangveiðar. Það er svona mitt jóga.“

Ertu með einhverja ósiði sem þú þarft að venja þig af?

„Já, ósiði hef ég nokkra, þeir eru kannski helstir ofneysla sykurs og nikótíns, einhvern tíma mun ég reyna að venja mig af sykrinum.“

Ertu með einhver heilsumarkmið fyrir veturinn?

„Já, ég ætla mér að losna kannski við þessi örfáu aukakíló sem einhvern veginn safnast eingöngu framan á mig miðjan. Svo væri ekki verra ef einhver gæti gefið mér ráð um hvernig ég gæti bætt á mig nokkrum sentímetrum. Þeir eru aðeins of fáir.“

Hallgrímur Ólafsson.
Hallgrímur Ólafsson. mbl.is/Eggert Jóhannesson
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: