Geislasverðafélagið lítur dagsins ljós

Þau Steinar og Anna hafa lengi verið áhugafólk um geislasverð, …
Þau Steinar og Anna hafa lengi verið áhugafólk um geislasverð, en nýlega stofnuðu þau Geislasverðafélag Íslands. Morgunblaðið/Sigurður Bogi

Þau Stein­ar Smári Hrólfs­son og Anna Reneu hafa lengi verið áhuga­fólk um geislasverð, en fyr­ir rúm­um mánuði stofnuðu þau Geislasverðafé­lag Íslands. Ásamt því held­ur Stein­ar úti vin­sælli youtu­be-rás og rek­ur fyr­ir­tæki sem stát­ar af því að hafa fram­leitt fyrsta ís­lenska geislasverðið.

„Hjá mér byrjaði þetta þegar ég sá Star Wars fyrst sem barn,“ seg­ir Stein­ar spurður hvert hann reki áhuga sinn á geislasverðum. „Pabbi minn vildi ekki horfa á barna­tím­ann á laug­ar­dags­morgn­um þannig að hann kveikti á Star Wars í mynd­bands­tæk­inu, en síðan þá hef ég verið hug­fang­inn af geislasverðum. Mér hef­ur alltaf þótt sverðabar­dag­ar spenn­andi í bíó­mynd­um og þess hátt­ar og Star Wars tókst að fanga þann áhuga.“

„Ég ólst líka upp við að horfa á Star Wars, en það sem kveikti áhuga minn var þegar ég byrjaði í geislasverðabar­daga­hópi 16 ára göm­ul í Kentucky, þaðan sem ég er. Síðan þá, und­an­far­in tíu ár, hef ég verið með ann­an fót­inn í þessu.“

Ást við fyrstu skylm­ing­ar

Leiðir þeirra Stein­ars og Önnu lágu sam­an fyr­ir um tveim­ur árum eft­ir að Anna flutti hingað til lands til að hefja meist­ara­nám við Há­skól­ann í Reykja­vík. „Ég fann in­sta­gram-síðuna hans Stein­ars þar sem hann birt­ir mikið af efni tengdu geislasverðum. Ég sendi hon­um skila­boð og stakk upp á að við mynd­um hitt­ast og skylm­ast,“ seg­ir Anna, en stuttu seinna hitt­ust þau Stein­ar í Hljóm­skálag­arðinum og munduðu sverð sín.

„Ég hef gert þetta í fjög­ur ár og aðallega verið einn. Oft­ast fer ég á af­skekkta staði þar sem ég er úr aug­sýn, þannig að þetta var í fyrsta skipti sem ég skylmdi á al­manna­færi,“ seg­ir Stein­ar. Hann bæt­ir við að í kjöl­farið hafi hitt­ing­un­um fjölgað og þau Anna farið að fella hugi sam­an. Í dag eru þau par og hafa skylm­ing­arn­ar, sem hóf­ust á milli þeirra tveggja, undið upp á sig og hafa þau nú stofnað Geislasverðafé­lag Íslands.

Eiga sex­tíu geislasverð

„Hug­mynd­in að fé­lag­inu kom út frá svipuðu fé­lagi í Banda­ríkj­un­um sem ég fékk að heim­sækja,“ seg­ir Stein­ar. „Það er mjög skemmti­legt að vera inn­an um annað fólk sem deil­ir þessu áhuga­máli og að setja sam­an svona bar­daga. Fólk um all­an heim er að gera þetta en ég hef ekki séð neinn hér. Þess vegna vild­um við koma með þetta hingað og at­huga hvort fólk hefði áhuga á að læra að nota geislasverðin.“

Und­an­farn­ar vik­ur hafa þau Stein­ar og Anna boðið upp á kennslu í sam­starfi við Skylm­inga­fé­lag Íslands, en þau dreym­ir um að halda enn fleiri nám­skeið á næst­unni. Þá verða þau með kynn­ingu á geislasverðunum á Midgard-hátíðinni, sem hald­in verður í Laug­ar­dals­höll um næstu helgi. Þau segja skylm­ing­arn­ar skemmti­lega hreyf­ingu sem auðvelt sé að ná tök­um á. „Ég held að hver sem er geti orðið góður í þessu. Í öðrum bar­dagalist­um tek­ur oft mörg ár að ná tök­um á þeim, en í þessu er maður fljót­ur að læra og öðlast ágæt­is kunn­áttu,“ seg­ir Stein­ar.

Stein­ar og Anna hafa í nægu að snú­ast þessa dag­ana, en auk hins nýtil­komna Geislasverðafé­lags held­ur Stein­ar úti youtu­be-rás und­ir nafn­inu „Stoney Magn­um“ þar sem tæp­lega tólf þúsund manns fylgj­ast með hon­um. Þá rek­ur hann einnig fyr­ir­tækið AZ Sa­ber ásamt fé­lög­um sín­um í Sviss. Fyr­ir­tækið fram­leiðir geislasverð og fram­leiddi ný­verið fyrsta ís­lenska geislasverðið sem ber heitið Vernd­ari. Að sögn Stein­ars og Önnu er grip­ur­inn sá merki­leg­asti í geislasverðasafni pars­ins, sem sam­an­stend­ur af sex­tíu sverðum sem ým­ist eru notuð til skylm­inga eða sem sýn­ing­ar­grip­ir.

mbl.is