Þau Steinar Smári Hrólfsson og Anna Reneu hafa lengi verið áhugafólk um geislasverð, en fyrir rúmum mánuði stofnuðu þau Geislasverðafélag Íslands. Ásamt því heldur Steinar úti vinsælli youtube-rás og rekur fyrirtæki sem státar af því að hafa framleitt fyrsta íslenska geislasverðið.
„Hjá mér byrjaði þetta þegar ég sá Star Wars fyrst sem barn,“ segir Steinar spurður hvert hann reki áhuga sinn á geislasverðum. „Pabbi minn vildi ekki horfa á barnatímann á laugardagsmorgnum þannig að hann kveikti á Star Wars í myndbandstækinu, en síðan þá hef ég verið hugfanginn af geislasverðum. Mér hefur alltaf þótt sverðabardagar spennandi í bíómyndum og þess háttar og Star Wars tókst að fanga þann áhuga.“
„Ég ólst líka upp við að horfa á Star Wars, en það sem kveikti áhuga minn var þegar ég byrjaði í geislasverðabardagahópi 16 ára gömul í Kentucky, þaðan sem ég er. Síðan þá, undanfarin tíu ár, hef ég verið með annan fótinn í þessu.“
Ást við fyrstu skylmingar
Leiðir þeirra Steinars og Önnu lágu saman fyrir um tveimur árum eftir að Anna flutti hingað til lands til að hefja meistaranám við Háskólann í Reykjavík. „Ég fann instagram-síðuna hans Steinars þar sem hann birtir mikið af efni tengdu geislasverðum. Ég sendi honum skilaboð og stakk upp á að við myndum hittast og skylmast,“ segir Anna, en stuttu seinna hittust þau Steinar í Hljómskálagarðinum og munduðu sverð sín.
„Ég hef gert þetta í fjögur ár og aðallega verið einn. Oftast fer ég á afskekkta staði þar sem ég er úr augsýn, þannig að þetta var í fyrsta skipti sem ég skylmdi á almannafæri,“ segir Steinar. Hann bætir við að í kjölfarið hafi hittingunum fjölgað og þau Anna farið að fella hugi saman. Í dag eru þau par og hafa skylmingarnar, sem hófust á milli þeirra tveggja, undið upp á sig og hafa þau nú stofnað Geislasverðafélag Íslands.
Eiga sextíu geislasverð
„Hugmyndin að félaginu kom út frá svipuðu félagi í Bandaríkjunum sem ég fékk að heimsækja,“ segir Steinar. „Það er mjög skemmtilegt að vera innan um annað fólk sem deilir þessu áhugamáli og að setja saman svona bardaga. Fólk um allan heim er að gera þetta en ég hef ekki séð neinn hér. Þess vegna vildum við koma með þetta hingað og athuga hvort fólk hefði áhuga á að læra að nota geislasverðin.“
Undanfarnar vikur hafa þau Steinar og Anna boðið upp á kennslu í samstarfi við Skylmingafélag Íslands, en þau dreymir um að halda enn fleiri námskeið á næstunni. Þá verða þau með kynningu á geislasverðunum á Midgard-hátíðinni, sem haldin verður í Laugardalshöll um næstu helgi. Þau segja skylmingarnar skemmtilega hreyfingu sem auðvelt sé að ná tökum á. „Ég held að hver sem er geti orðið góður í þessu. Í öðrum bardagalistum tekur oft mörg ár að ná tökum á þeim, en í þessu er maður fljótur að læra og öðlast ágætis kunnáttu,“ segir Steinar.
Steinar og Anna hafa í nægu að snúast þessa dagana, en auk hins nýtilkomna Geislasverðafélags heldur Steinar úti youtube-rás undir nafninu „Stoney Magnum“ þar sem tæplega tólf þúsund manns fylgjast með honum. Þá rekur hann einnig fyrirtækið AZ Saber ásamt félögum sínum í Sviss. Fyrirtækið framleiðir geislasverð og framleiddi nýverið fyrsta íslenska geislasverðið sem ber heitið Verndari. Að sögn Steinars og Önnu er gripurinn sá merkilegasti í geislasverðasafni parsins, sem samanstendur af sextíu sverðum sem ýmist eru notuð til skylminga eða sem sýningargripir.
Fáðu þér áskrift til að lesa áfram
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu,
rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki
á mbl.is.