Sendingar Póstsins á Reykjanesi fara nú eingöngu fram með rafmagnsbílum en í byrjun þessa mánaðar varð allt Reykjanesið „grænt“ hjá Póstinum.
Í fréttatilkynningu frá Póstinum segir að farartæki á vegum Póstsins fara um 8.000 kílómetra á mánuði á Reykjanesinu eða nálægt 100.000 km að ári. Áður voru dísilbifreiðar nýttar í þessu verkefni.
„Þetta er heldur betur breyting til batnaðar og í takt við sjálfbærnimarkmið Póstsins þar sem lögð er áhersla á að fjölga grænum svæðum og leiðum og nýta umhverfisvæn farartæki eins og kostur er,“ segir Guðmundur Karl Guðjónsson hjá Póstinum.
Stundum er magnið slíkt að þörf er á stærri bílum í flutningana og þá nýtast stóru rafmagnsflutningabílarnir vel að sögn Guðmundar.
Þeir voru fyrstir sinnar tegundar á Íslandi og teknir í notkun í apríl sl. „Volvo-trukkarnir hafa reynst vel og engin vandamál komið upp varðandi rafmagn og hleðslu. Þeir eru t.d. notaðir í ferðir á Keflavíkurflugvöll og dreifingu innanbæjar. Drægnin er um 200 km við góðar aðstæður svo rafmagnsflutningabílarnir henta vel í slík verkefni,“ segir hann.
Í þessum mánuði bætist 12 tonna metanbíll við flota Póstsins. „Stefnan er að prófa hann á leiðinni Akureyri – Dalvík – Ólafsfjörður – Siglufjörður og þá yrði sá leggur grænn, eins og sagt er. Metan er eingöngu fáanlegt á höfuðborgarsvæðinu og Akureyri og því varð þessi leið fyrir valinu.“
Rafbílar sjá um stóran hluta dreifingarinnar hjá Póstinum sem kallar á fjölgun hleðslustöðva. Nýverið var sett upp 225 kW hleðslustöð við Póstmiðstöðina [á Stórhöfða].
„Rafbílarnir okkar eru víða, svo sem á Akureyri, Akranesi og Selfossi, en við erum komin lengst í orkuskiptunum á Reykjanesinu þar sem alfarið verður notast við rafknúin farartæki,“ segir Guðmundur enn fremur.