Lögreglan hefur girt af enn stærra svæði við hvalveiðabátana Hval 8 og Hval 9 við Reykjavíkurhöfn. Þar hafa tvær konur fest sig í möstur skipanna til þess að mótmæla áframhaldandi hvalveiðum og hafa verið þar síðan í nótt.
Ljósmyndari mbl.is er á vettvangi og staðfestir að fjölmiðlum verði aftur á móti ekki gert að færa sig fjær bátunum.
Lögregla hefur skipað hátt í þriðja tug manna að færa sig lengra frá bátnum í átt að Geirsgötu. Þar að auki hefur bæði fjölgað í hópi lögreglumanna og stuðningsmanna á svæðinu.
Tveir lögreglumenn klifruðu upp á möstrin til þess að ræða við mótmælendurna. Þeir klifuðu aftur niður nokkrum mínútum síðar.
Fyrr í dag, um klukkan 11, klifruðu lögreglumenn einnig upp til þess að ræða við konurnar tvær. Þeir fóru síðan niður skömmu síðar.