Leikkonan Hera Hilmarsdóttir gagnrýnir Svandísi Svavarsdóttur matvælaráðherra og fullyrðir að ráðherrann hafi eytt út ummælum á samfélagsmiðlasíðu sinni, þar sem fólk bað hana að endurskoða þá ákvörðun að leyfa aftur hvalveiðar.
Þetta gerir leikkonan á Instagram-reikningi sínum, en þar hefur hún á annað hundrað þúsund fylgjendur.
„Er þetta eitthvað sem er möguleiki?“ spyr Hera og á þar við að ráðherra hafi eytt ummælunum eða falið þau.
„Fyrir flest okkar þá er þetta það [möguleiki]. En er þetta möguleiki fyrir ráðherra í ríkisstjórn, á opinberri síðu hans en ekki einkasíðu, fyrir einhvern sem starfar fyrir almenning og fær borgað frá almenningi, og vefsíðan stendur fyrir þá vinnu sem hann gerir í embætti sínu fyrir almenning?“ spyr hún áfram.
Hún fullyrðir einnig að Vinstri græn, flokkur Svandísar, hafi sömuleiðis komið í veg fyrir að ummæli birtust við færslur flokksins sem tengdust hvalveiðum.