Mótmælendurnir eru enn uppi í möstrum hvalveiðiskipanna Hvals 8 og Hvals 9. Matarbirgðir voru í bakpoka annars þeirra en lögregla lagði hald á pokann í morgun.
Vinir aðgerðasinnans brugðu á það ráð að kaupa handa henni mat og til stóð að fá lögreglu til þess að koma matnum upp til hennar.
Enn hefur ekki orðið af því en aðgerðastjóri lögreglu er ekki á vettvangi. Hann kemur aftur klukkan 14 í dag, að því er blaðamaður mbl.is á staðnum best veit.
Ásmundur Rúnar Gylfason aðstoðaryfirlögregluþjónn gat lítið sagt um málið þegar blaðamaður hringdi í hann.
„Það er bara verið að skoða málið og næstu skref,“ segir Ásmundur við mbl.is, inntur eftir því hvort og þá hvenær lögreglan hyggst senda einhvern aftur upp í möstrin.