Til átaka kom er mótmælandi á vegum Paul Watson-samtakanna streittist á móti handtöku lögreglu við Reykjavíkurhöfn í dag.
mbl.is náði tali af mótmælandanum, Nic, sem segir viðbrögð sín skýrast af áhyggjum vegna ásigkomulags Anahitu, annarra kvennanna sem sátu hlekkjaðar við möstrin á Hval 8 og 9 í Reykjavíkurhöfn í dag.
Að sögn Nic hófst atburðarásin þegar mótmælendur reyndu árangurslaust að ná sambandi við Anahitu, sem sat hlekkjuð við mastur Hvals 8 fyrr í dag.
„Anahita virtist stressuð. Hún var að reyna að ná athygli okkar í gegnum hljóðnemann sem hún var með en hann virkaði illa. Þá drógum við þá ályktun að hún væri að reyna að ná athygli Micah, kvikmyndagerðarmanns og maka síns,“ segir Nic, en Micah var þá staddur á blaðamannasvæðinu þar sem hann hlóð myndavélina sína.
Nic segist hafa haft miklar áhyggjur af ásigkomulagi Anahitu og hafi hún því brugðið á það ráð að fara inn á blaðamannasvæðið til þess að ná sambandi við Anahitu í gegnum míkrófóninn sem þar var að finna og tjá henni að stutt væri í að Micah gæti komið henni til aðstoðar.
„Mér fannst ég verða að koma því til skila til hennar að hann hann gæti talað við hana eftir fimm mínútur, en á því augnabliki hugsaði ég ekki um hvaða afleiðingar þetta gæti haft fyrir mig, ég vildi bara fullvissa hana um að við heyrðum í henni,“ segir Nic.
„Síðan eru hlutirnir í móðu. En ég veit að allt í einu greip mjög sterkur maður í handlegginn á mér og ósjálfrátt sagði ég honum að sleppa mér, hann þyrfti ekki að grípa svona í mig. Ég sagði honum að hann hefði bara getað hrópað á mig að fara af svæðinu, ég var hvort eð er á leiðinni til baka. En svo kom annar lögreglumaður og greip í hinn handlegginn á mér.“
Þá á Nic að hafa slegið til lögregluþjónanna sem handtóku hana fyrir að ráðast að lögreglumanni. „Ég veit ekki einu sinni í hvaða átt ég hreyfði höndina,“ segir Nic. „Ég sá bara allt svart því hann hélt mér svo fast,“ segir Nic með grátstafinn í kverkunum, örvingluð eftir atburðarás dagsins.
Hún segir sér þykja leitt hvernig hafi farið og leggur áherslu á að Paul Watson-samtökin fordæmi allt ofbeldi. „Þessi ósjálfráðu viðbrögð voru ofbeldisfull af minni hálfu og standa samtökin gegn ofbeldi af öllu tagi.“
Þá segist Nic stolt af þeim Anahitu og Elissu fyrir að hafa styrk til þess að standa með sjálfum sér og þeim sem leggist gegn hvalveiðum.
„Þær eru hugrakkari en ég fyrir að hafa farið þarna upp. Þeirra framlag skiptir sköpum vegna þess að hætta þurfti hvalveiðum í einn og hálfan dag og það er það sem við verðum að muna – að við gerum þessa hluti til þess að reyna að hafa áhrif,“ segir Nic.