Einar Þorsteinsson borgarfulltrúi Framsóknar telur eðlilegt að endurskoða samgöngusáttmálann með tilliti til tímaáætlana og fjármögnunar, í ljósi þess að samgönguvísitala hefur hækkað um 30% frá því að sáttmálinn var undirritaður árið 2019.
Hann segir eðlilegt að staldra við í langtímaverkefni sem þessu og meta áætlanir líkt og unnið hefur verið að undanfarnar vikur, en samgöngusáttmálinn verður til umræðu á fundi borgarstjórnar Reykjavíkur í dag að kröfu sjálfstæðismanna.
Einar segir að það mikilvægasta við sáttmálann sé að þeir sem að honum komu hafi sameinast um sýn og stefnu í samgöngumálum á höfuðborgarsvæðinu. Sýnina segir hann byggjast á þekkingu um hvernig best sé að leysa umferðarvanda á vaxandi svæðum eins og höfuðborgarsvæðinu, en tekur undir með þeim sem hafa áhyggjur af kostnaði. „Ég lít ekki svo á að þeir sem tala fyrir endurskoðun samgöngusáttmálans séu að reyna að slá borgarlínu út af borðinu, enda er hún eitt stórt spil í heildarmyndinni. Það er hins vegar eðlilegt að endurmeta kostnaðaráætlanir og sú vinna er hafin,“ segir Einar.
Heiða Björg Hilmisdóttir borgarfulltrúi Samfylkingar telur jafnframt mjög mikilvægt að halda áfram að vinna að þeim samgöngubótum sem í sáttmálanum felast. Hún segist ekki eiga von á því að gera þurfi miklar breytingar á sáttmálanum þrátt fyrir að hann sé í endurskoðun. „Ég held að hann sé mjög raunhæfur og mikilvægur fyrir höfuðborgarsvæðið,“ segir Heiða og bætir við: „Ef fólk á að komast hér á milli staða þurfum við að gera um það plan og mér finnst þetta gott plan.“
Spurð hvort hún telji að gera þurfi ráðstafanir vegna aukins kostnaðar við Fossvogsbrú, sem nú er komin til framkvæmda, segir Heiða það skipta miklu máli að gera leiðina milli sveitarfélaganna greiðari. Hún telur alla þá sem búa á höfuðborgarsvæðinu finna fyrir því að mikil þörf sé á brúnni og segir hana því mikilvægan hlekk í keðjunni.