Skipverjar hvalaveiðiskipanna tveggja í Reykjavíkurhöfn eru farnir að tínast um borð. Aðgerðasinnarnir tveir sitja sem fastast í tunnunum á möstrum skipanna en önnur þeirra hefur óskað eftir heilbrigðisaðstoð.
Ekki er víst hvað skipverjarnir eru að gera um borð en svo virðist sem þeir séu að undirbúa brottför skipanna.
Aðgerðasinnarnir Elissa og Anahita telja að áhöfn skipsins sé að gera sig tilbúna að sigla út á sjó um leið og þær koma niður.
„Stelpurnar hafa verið þarna uppi síðan klukkan 5 í gærmorgun. Klukkan 6 þann morgun tók lögreglan bakpoka Anahitu sem í var matur og vatn. Hún hefur nú verið án vatns í meira en 24 klukkustundir. Við vorum að tala við hana og hún hefur staðfest að hún vilji heilbrigðisstarfsmann til þess að kíkja á sig,“ segir Imogen Sawyer, aðgerðasinni á vegum Paul Watson-samtakanna.
Hún segir lögregluna hafa sagt við Anahitu að ef hún vilji mat, vatn eða heilbrigðisaðstoð þurfi hún að koma niður.
„Við höfum áhyggjur af því að ofþornun geti látið fólk haga sér öðruvísi en það myndi gera venjulega. Við höfum áhyggjur af því að Anahita gæti reynt að koma sér niður sjálf þegar öryggisráðstafanir eru óviðunandi. Hún er ekki hlekkjuð föst því að lögreglan klippti keðjurnar í gærkvöldi. Hún er nú án öryggisbúnaðar til þess að komast niður á jörðina,“ segir Imogen.
Imogen segir að kollegi hennar hafi hringt á sjúkrabíl í morgun sem kom ekki. Hún hafi sjálf hringt þegar klukkuna vantaði korter í átta í morgun og verið sagt að sjúkrabíll væri á leiðinni. Hann hafi hins vegar ekki komið.
„Ég hringdi aftur í neyðarlínuna og þau þar sögðu að lögreglan hafi afpantað sjúkrabílinn,“ segir Imogen.
Hún bætir við að lögreglumenn á hafnarsvæðinu hafi margir sagt í hljóði að þeir séu sammála því að stöðva þurfi hvalveiðarnar.
„Þegar allt kemur til alls eru þeir ríkisstarfsmenn sem þurfa að gera það sem þeim er sagt.“