„Ég var bara að styðja stelpurnar og fannst táknrænt að senda friðarmerki,“ segir Sigurjón Ólafsson í samtali við mbl.is í dag en ljósmyndari Morgunblaðsins og mbl.is náði mynd af Sigurjóni þar sem hann var á sundi í Reykjavíkurhöfn nálægt hvalbátunum síðdegis í gær.
„Ég syndi mikið í sjónum. Ég var búinn að fara í Nauthólsvíkina og fór svo í Reykjavíkurhöfnina þar sem ég sá stelpurnar í möstrunum. Ég sá að löggan var með lokanir og ákvað að fara Daníelsslipps megin og synda þar.
Þegar ég kom að hvalveiðiskipunum þá óskaði lögreglan eftir því að ég færi í burtu. Ég spurði hversu langt og svarið sem ég fékk var; bara langt. Stúlkan sem ég sendi friðarmerkið til þáði greinilega stuðninginn en hún veifaði mér á móti og sendi mér líka friðarmerki,“ segir Sigurjón, sem er ánægður með myndina.
„Myndin er flott og vinnufélagar mínir eru búnir að hengja hana upp á vegg,“ segir Sigurjón.
Sigurjón segist hafa viljað sýna stuðning í verki.
„Mér finnst svolítið merkilegt í okkar þjóðfélagi í dag að það þurfi allt og oft að vera útlendingar sem benda okkur á hvað við gerum rangt. Sjáum bara hvað gerðist með blóðmerahaldið. Þá komu svissneskir dýraverndunarsinnar og tóku myndir og voru í kjölfarið útmálaðir sem eitthvað slæmir.
Rétt fyrir hrun kom erlendur hagfræðingur og benti okkur á að allt væri að fara í klessu. Í kjölfarið var honum sagt að fara í endurmenntun. Við Íslendingar þolum oft mjög illa gagnrýni frá útlendingum en við þurfum stundum aðeins að hlusta á þá,“ segir Sigurjón og bætir við:
„Þessar tvær konur sem fóru í hvalbátana sýndu hugrekki að grípa til aðgerða gegn skepnum sem geta ekki varið sig.“
Sigurjón segist vera duglegur að stunda sjósund en segist þó aðallega vera í þríþraut. „Þríþrautin er mjög skemmtilegt sport og ég mæli svo sannarlega með því. Þetta er mjög hressandi og sérstaklega fyrir miðaldra karlmann eins og mig að halda sér ungum,“ segir Sigurjón og hlær.