Þekking og fræðsla skiptir miklu máli

Stefán Guðjónsson hefur lært mikið um vín.
Stefán Guðjónsson hefur lært mikið um vín.

Framreiðslumeistarinn Stefán Guðjónsson ætlar að endurvekja Vínklúbbinn og halda fyrsta fundinn í lok september. „Mér finnst gaman að fræða aðra um vín og ekki þarf að vera dagdrykkjumaður til að njóta góðra vína heldur þvert á móti,“ segir Stefán.

Áhugi Stefáns á víni vaknaði þegar hann lærði til þjóns á tíunda áratugnum. Þá vann hann á Hótel Íslandi og gestir gátu valið úr þremur tegundum af hvítvíni og jafnmörgum af rauðvíni.

„Einn matargestur bað mig um að velja fyrir sig vín með lambarétti og ég valdi eitt af þessum þremur rauðvínum, sem ég hélt að myndi passa best. Ég leyfði manninum að smakka sem hann og gerði. Að því loknu horfði hann stíft á mig og sagði: „Þú veist ekkert hvað þú ert að gera.““ Stefán segir að sér hafi brugðið og því næst farið til verkstjóra síns og leitað álits hjá honum. „„Maðurinn hefur rétt fyrir sér,“ sagði hann og bætti við: „Þú veist ekkert hvað þú ert að gera.“ Þá einsetti ég mér að læra meira um vín svo enginn gæti sagt að ég vissi ekkert um hvað ég væri að tala.“

mbl.is