Framreiðslumeistarinn Stefán Guðjónsson ætlar að endurvekja Vínklúbbinn og halda fyrsta fundinn í lok september. „Mér finnst gaman að fræða aðra um vín og ekki þarf að vera dagdrykkjumaður til að njóta góðra vína heldur þvert á móti,“ segir Stefán.
Áhugi Stefáns á víni vaknaði þegar hann lærði til þjóns á tíunda áratugnum. Þá vann hann á Hótel Íslandi og gestir gátu valið úr þremur tegundum af hvítvíni og jafnmörgum af rauðvíni.
„Einn matargestur bað mig um að velja fyrir sig vín með lambarétti og ég valdi eitt af þessum þremur rauðvínum, sem ég hélt að myndi passa best. Ég leyfði manninum að smakka sem hann og gerði. Að því loknu horfði hann stíft á mig og sagði: „Þú veist ekkert hvað þú ert að gera.““ Stefán segir að sér hafi brugðið og því næst farið til verkstjóra síns og leitað álits hjá honum. „„Maðurinn hefur rétt fyrir sér,“ sagði hann og bætti við: „Þú veist ekkert hvað þú ert að gera.“ Þá einsetti ég mér að læra meira um vín svo enginn gæti sagt að ég vissi ekkert um hvað ég væri að tala.“
Árið 1993 var vinnustaðurinn Argentína steikhús. „Þá sagði Óskar Finnsson við mig að ég þyrfti að læra meira um allar tegundir víns, bæði létt vín og sterkt vín, því að opna ætti koníaksstofu sem ég ætti að sjá um. „Þetta gekk eftir og síðan hefur þekkingin vaxið jafnt og þétt.“
Lærir af reynslunni
Stefán hefur tekið þátt í nokkrum vínþjónakeppnum heima og erlendis og segir að fyrsta keppnin erlendis hafi ýtt við sér. „Við fórum fimm héðan í fyrstu keppnina, Nordic-Elsass-keppnina, sem Íslendingum var boðið í 1995, og vorum blautir á bak við eyrun enda bara tvær tegundir af víni frá Alsace-héraðinu í Frakklandi til hjá ÁTVR. Okkur gekk vægast sagt illa, lentum í neðstu sætunum.“ Hann hafi látið sér þetta að kenningu verða. „Ég hét sjálfum mér því að komast í úrslit á næsta ári, við fórum þrjú héðan og vorum öll á meðal fimm efstu. Þá byrjaði boltinn að rúlla.“
Stefán hefur sótt ótal námskeið um vín, skrifað um vín í blöð og tímarit og gefið út dvd-diskinn Vínsmakkarann auk þess sem hann heldur úti tveimur vefsíðum um vín (smakkarinn.is og okkarvin.is). „Ég var einn af þeim fyrstu til að skrifa um vín fyrir ÁTVR en við gáfum út hátíðarbækling þar sem mælt var með sérstökum vínþrúgum með ákveðnum réttum.“
Vínklúbburinn var stofnaður í kringum Vínbarinn í byrjun aldarinnar. „Við lögðum áherslu á að kenna fólki en um leið var skemmtanagildið í hávegum haft, að fólkið hefði gaman af þessu.“ Hann hafi haldið áfram með klúbbinn á öðrum veitingastöðum en hætt með hann þegar hafði ekki neitt húsnæði fyrir reksturinn. „Ég var líka nánast alltaf bundinn í vinnu um helgar og vildi vera í fríi með fjölskyldunni þegar ég átti frí.“
Hann hafi síðan verið ráðinn til þess að opna vínbar á Reykjavik Konsulat Hotel og í því ferli hafi hann hitt marga félaga úr gamla Vínklúbbnum. „Það kveikti í mér að sjá gömlu andlitin og ég ákvað að byrja aftur með klúbbinn,“ segir hann og bætir við að áhugasamir geti sent sér fyrirspurnir um Vínklúbbinn (smakkarinn@gmail.com).
Fáðu þér áskrift til að lesa áfram
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu,
rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki
á mbl.is.