Kjartan Magnússon borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins segir að hægt væri að stórbæta strætótengingar milli Reykjavíkur og Kópavogs án byggingar Fossvogsbrúar. Í ræðu sinni á borgarstjórnarfundi í gær lagði hann til að gamall vegur sem liggur í sunnanverðri Öskjuhlíð yrði lagfærður og gerður að svokallaðri strætógötu. Vegurinn er lokaður fyrir umferð eins og er.
„Með slíkri framkvæmd væri hægt að stórbæta strætisvagnatengingar milli Nauthólsvíkur og Kópavogs með margfalt ódýrari hætti en með byggingu fokdýrrar Fossvogsbrúar.“
Kjartan lagði áherslu á að mikil óvissa ríkti um fjármögnun og rekstur samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins í ræðu sinni og sagði mikilvægt að sáttmálinn yrði endurskoðaður frá grunni.
Hann sagði ljóst að kostnaðarmat nokkurra verkefna sáttmálans hefði hingað til byggst á mikilli óskhyggju og nefndi að árið 2019 hefði því verið haldið fram að fjárfestingarkostnaður við borgarlínu myndi nema um 60 milljörðum króna. Nú væri hins vegar talið að fjárfestingin yrði ekki undir 100 milljörðum.
Auk þess sagði hann óviðunandi hvernig meirihlutinn í Reykjavík hefði tafið ýmsar framkvæmdir sem kveðið er á um í sáttmálanum, nefndi hann sem dæmi að mikið vantaði upp á stýringu umferðarljósa. Kjartan sagði stýringu umferðarljósanna auka mjög á tafir í umferðinni og að með aukinni snjallvæðingu þeirra væri hægt að greiða fyrir umferð og draga úr töfum í kerfinu um allt að 20%, samhliða því að veita strætisvögnum forgang í umferð.
Þar að auki mætti stórbæta almenningssamgöngur á höfuðborgarsvæðinu með því að ráðast strax í endurbætur á núverandi strætisvagnakerfi í stað þess að skapa annað kerfi til viðbótar, sem tæki mörg ár og útheimti óheyrilega mikið fé. Það væri m.a. hægt að gera með því að endurnýja vagnaflotann og skipta út lélegu greiðslukerfi. Að lokum sagði hann óviðunandi að hinum miklu kostnaðarhækkunum, sem nú væru boðaðar í ýmsum verkefnum samgöngusáttmálans, yrði velt sjálfkrafa á herðar skattgreiðenda í Reykjavík með vegaskatti.
Nánari umfjöllun er að finna í Morgunblaðinu í dag.