Róðurinn þyngist hjá Þjóðverjum

Olaf Scholz Þýskalandskanslari mætti á opnun bílasýningarinnar í Frankfurt í …
Olaf Scholz Þýskalandskanslari mætti á opnun bílasýningarinnar í Frankfurt í gær og þótti óvenju vígalegur með nýjan augnlepp en hann slasaðist við íþróttaæfingar fyrir skemmstu. Þýska hagkerfið er við frostmark. AFP

Þýsk­ir stjórn­mála­menn eru ekki þekkt­ir fyr­ir að vilja lækka álög­ur né fyr­ir að hafa mik­inn metnað fyr­ir því að gera stjórn­sýsl­una skil­virk­ari – ef eitt­hvað er hafa þeir þótt helst til ólm­ir að seil­ast í vasa skatt­greiðenda og skapa alls kyns nýj­ar regl­ur, flækj­ur og kvaðir.

Er það kannski til marks um hversu al­var­leg­ar horf­urn­ar eru í Þýskalandi að rík­is­stjórn Ol­afs Scholz skyldi til­kynna fyr­ir viku að gripið verði til um­fangs­mik­illa aðgerða til að létta byrðum af at­vinnu­líf­inu og draga úr skri­fræði.

Kom til­kynn­ing­in í kjöl­far tveggja daga vinnu­lotu rík­is­stjórn­ar­flokk­anna þriggja: SDP, Græn­ingja og FDP, í sum­ar­höll kansl­ara­embætt­is­ins, Sch­loss Mese­berg, um klukku­stund­ar akst­ur norður af Berlín. Er talið lík­legt að með vinnu­lot­unni hafi Scholz viljað þétta raðirn­ar en borið hef­ur á tölu­verðri spennu á stjórn­ar­heim­il­inu að und­an­förnu.

Ætl­un­in er að lækka skatta um hér um bil sjö millj­arða evra á ári og verður lækk­un­inni einkum beint að smá­um og meðal­stór­um fyr­ir­tækj­um. Til að setja upp­hæðina í sam­hengi jafn­gild­ir þetta um það bil hálfu öðru pró­senti af fjár­lög­um rík­is­sjóðs, og því varla hægt að tala um að Scholz sé að ganga veru­lega á efna­hag rík­is­ins, en hann von­ast til að skatta­lækk­un­in sendi markaðinum já­kvæð skila­boð og verði til þess að örva fjár­fest­ingu og verðmæta­sköp­un.

Land stimpl­anna

Til að draga úr skri­fræði hyggj­ast stjórn­völd gera gangskör að því að færa hvers kyns þjón­ustu við fólk og fyr­ir­tæki yfir á sta­f­rænt form. Í dag glím­ir Þýska­land við að stjórn­sýsl­an sit­ur pikk­föst í fortíðinni og þrátt fyr­ir margra millj­arða evra fjár­fest­ingu í sta­f­ræn­um lausn­um á það við um ótal stofn­an­ir að þar er unnið með papp­ír og bréfa­bindi og þeir sem þurfa á vott­orði eða leyfi að halda skulu gjöra svo vel og bóka tíma og mæta í eig­in per­sónu.

Sem dæmi um hæga­gang­inn sem þetta skap­ar þá er ekki óal­gengt að það taki nokkra mánuði að fá dán­ar-, hjú­skap­ar- og fæðing­ar­vott­orð gef­in út. Að fá leyfi til að hefja at­vinnu­rekst­ur tek­ur að jafnaði 120 daga, sem er tvö­falt lengra en OECD-meðaltalið. Ótrú­leg­ustu hlut­ir kalla síðan á svaka­legt umstang: til að mega flytja stór­an farm á þýsk­um hraðbraut­um, s.s. spaðana fyr­ir risa­vaxn­ar vind­myll­ur, þarf hér um bil 150 aðskil­in leyfi!

Einn sér­fræðing­ur­inn komst þannig að orði að tregða þýskr­ar stjórn­sýslu til að tækni­væðast stafi m.a. af því að þýsk­ir emb­ætt­is­menn eru marg­ir komn­ir af létt­asta skeiði og fyr­ir vikið óvilj­ug­ir eða ófær­ir um að til­einka sér ný vinnu­brögð. Svo virðist það ríkt í þýsku þjóðarsál­inni að nota stimp­il: Það að setja stimp­il á blað er and­lega hreins­andi at­höfn, sem vott­ar með skýr­um hætti að verk­inu sé lokið og það hafi verið fag­lega af­greitt! Ekki fylg­ir sög­unni hvort Scholz lang­ar líka að ein­falda reglu­verkið, því til viðbót­ar við löngu úr­elt vinnu­brögð í stjórn­sýsl­unni hafa Þjóðverj­ar unun af að setja flókn­ar – og iðulega til­gangs­laus­ar – regl­ur um stórt og smátt. Þeir sem hafa um­geng­ist Þjóðverja að ein­hverju ráði myndu varla mót­mæla því að þessi ann­ars ynd­is­lega og orku­mikla þjóð virðist upp­lifa ein­hvers kon­ar djúp­stæða ör­yggis­kennd af því að hafa ná­kvæm­ar og ít­ar­leg­ar regl­ur um allt og alla.

Það er held­ur ekki eins og Þjóðverj­ar hafi ekki fyr­ir löngu gert sér grein fyr­ir að reglu­verkið væri flókið og stjórn­sýsl­an sila­leg. Helmut Kohl gerði heiðarlega til­raun árið 1983 þegar hann hleypti af stað því sem átti að verða stór­átak til að draga úr skri­fræði. Það eina sem átakið skilaði var að ný stofn­un var sett á lagg­irn­ar í Bonn og skapaði at­vinnu fyr­ir nokkra bjúró­krata. Ótal átaks­verk­efni af svipuðum toga hafa verið reynd síðan þá, vítt og breitt um Þýska­land, með litl­um sem eng­um ár­angri.

Lak­ast af stóru hag­kerf­un­um

Ástandið er áber­andi slæmt í Þýskalandi. Þegar spá AGS fyr­ir hag­vöxt öfl­ug­ustu hag­kerfa heims er skoðuð kem­ur í ljós að þýska hag­kerfið er það eina sem reiknað er með að muni skreppa sam­an. Vænt­ir AGS að lands­fram­leiðsla í Þýskalandi minnki um 0,3% á þessu ári en til sam­an­b­urðar er gert ráð fyr­ir að evru­svæðið allt vaxi um 0,9% og að hag­vöxt­ur verði 1,8% í Banda­ríkj­un­um. Frammistaðan var líka áber­andi slæm á síðasta ári: 1,8% hag­vöxt­ur var í Þýskalandi á meðan hag­vöxt­ur evru­svæðis­ins mæld­ist 3,5%.

The Econom­ist sá ástæðu til að leggja heilt tölu­blað und­ir versn­andi horf­ur í Þýskalandi og bend­ir einn grein­ar­höf­und­ur­inn á að eft­ir æv­in­týra­legt upp­gangs­skeið frá og með síðustu alda­mót­um, þar sem Þýska­land bar höfuð og herðar yfir önn­ur ríki Evr­ópu, sé eins og þrótt­ur þýska hag­kerf­is­ins hafi dalað. Greina má vax­andi gremju meðal al­menn­ings og er tekið að hrikta í stoðum sam­fé­lags­ins.

Bend­ir tíma­ritið á að ein ástæða vand­ans sé sú að hag­kerfið hafi reitt sig um of á sín­ar hefðbundnu kjarna-at­vinnu­grein­ar en ekki fjár­fest í nýj­um grein­um, og kemst Þýska­land t.d. ekki með tærn­ar þar sem Frakk­land og Banda­rík­in hafa hæl­ana hvað viðkem­ur fjár­fest­ingu í tæknifyr­ir­tækj­um. Þá hafa stjórn­völd haldið of fast um pyngj­una svo að landið sit­ur núna uppi með til­tölu­lega litl­ar skuld­ir en lúna innviði. Er það t.d. orðið veru­legt vanda­mál hve illa geng­ur að halda lest­ar­kerfi lands­ins á áætl­un.

Vel­gengni Þýska­lands und­an­far­inn ald­ar­fjórðung má m.a. þakka mik­illi eft­ir­spurn eft­ir þýsk­um iðnaðar­vör­um í Kína en nú er allt í keng þar í landi: þörf­in fyr­ir þýska fram­leiðslu fer hratt minnk­andi, og þýsk­ir bíl­ar hafa tapað markaðshlut­deild til kín­versku merkj­anna. Orku­mál Þýska­lands eru líka helj­ar­inn­ar haus­verk­ur: viðskipta­mód­el þýskra iðnfyr­ir­tækja byggðist á því að geta keypt ódýra orku frá Rússlandi, en nú hef­ur verið skrúfað fyr­ir gas­leiðslurn­ar. Til að gera illt verra hafa Græn­ingj­ar komið því til leiðar að þýsk kjarn­orku­ver heyra núna sög­unni til.

Hag­kerfið reiddi sig líka á að geta laðað að vinnu­afl frá ríkj­um Aust­ur-Evr­ópu. Í næst­um hálfa öld hef­ur fæðing­artíðni í Þýskalandi verið með lægsta móti en fyr­ir­tæk­in getað sogað til sín ný­út­skrifaða verk­fræðinga og vélsmiði frá ESB-lönd­um sem buðu upp á fáa áhuga­verða at­vinnu­mögu­leika en hafa smám sam­an náð að byggja upp sín eig­in iðn- og tæknifyr­ir­tæki.

Loks er þýskt sam­fé­lag eld­gam­alt. Meðal­ald­ur í Þýskalandi er núna 47,8 ár og aðeins í Jap­an og Mónakó sem meðal­ald­ur­inn er hærri. Til sam­an­b­urðar er meðal­ald­ur­inn í Sviss, Frakklandi, Dan­mörku og Belg­íu á bil­inu 41,4 til 42,4 ár – og á Íslandi aðeins 38,1 ár.

Ekki ein­tóm­ar vond­ar frétt­ir

Ekki er öll von úti enn og með smá lagni og heppni gæti Scholz komið hag­kerf­inu á rétt­an kjöl.

Það hjálp­ar Scholz að skuld­astaða rík­is­sjóðs Þýska­lands er mjög góð í sam­an­b­urði við t.d. Frakk­land, Belg­íu og Ítal­íu, svo að stjórn­völd hafa ágæt­is fjár­hags­legt oln­boga­rúm þrátt fyr­ir nokkuð háan lán­töku­kostnað. At­vinnu­leysi er líka með minnsta móti svo að vinnu­markaður­inn ætti að fara létt með að aðlag­ast hvers kyns breyt­ing­um og inn­grip­um.

Viðskipti við Kína munu vænt­an­lega fara minnk­andi, en á móti má reikna með meiri eft­ir­spurn eft­ir þýskri fram­leiðslu í lönd­um á borð við Víet­nam sem virðast núna smám sam­an vera að taka við af Kína sem meiri hátt­ar fram­leiðsluþjóðir. Ætti Þýska­land líka að njóta góðs af nú þegar bæði stjórn­völd og fyr­ir­tæki víða um heim virðast vera að snúa baki við Kína og reyna að færa aðfanga­keðjur sín­ar nær sér.

Svo má ekki gleyma að góður ár­ang­ur und­an­far­inn ald­ar­fjórðung átti sér stað þrátt fyr­ir him­in­háa skatta og flókið reglu­verk. Er því heil­mikið svig­rúm til að losa um fjötr­ana og nota meira frelsi sem örvun­ar­tæki.

Síðast en ekki síst hafa Þjóðverj­ar sýnt það, trekk í trekk, að þeir kunna að bretta upp erm­arn­ar þegar á móti blæs.

mbl.is