Þýskir stjórnmálamenn eru ekki þekktir fyrir að vilja lækka álögur né fyrir að hafa mikinn metnað fyrir því að gera stjórnsýsluna skilvirkari – ef eitthvað er hafa þeir þótt helst til ólmir að seilast í vasa skattgreiðenda og skapa alls kyns nýjar reglur, flækjur og kvaðir.
Er það kannski til marks um hversu alvarlegar horfurnar eru í Þýskalandi að ríkisstjórn Olafs Scholz skyldi tilkynna fyrir viku að gripið verði til umfangsmikilla aðgerða til að létta byrðum af atvinnulífinu og draga úr skrifræði.
Kom tilkynningin í kjölfar tveggja daga vinnulotu ríkisstjórnarflokkanna þriggja: SDP, Græningja og FDP, í sumarhöll kanslaraembættisins, Schloss Meseberg, um klukkustundar akstur norður af Berlín. Er talið líklegt að með vinnulotunni hafi Scholz viljað þétta raðirnar en borið hefur á töluverðri spennu á stjórnarheimilinu að undanförnu.
Ætlunin er að lækka skatta um hér um bil sjö milljarða evra á ári og verður lækkuninni einkum beint að smáum og meðalstórum fyrirtækjum. Til að setja upphæðina í samhengi jafngildir þetta um það bil hálfu öðru prósenti af fjárlögum ríkissjóðs, og því varla hægt að tala um að Scholz sé að ganga verulega á efnahag ríkisins, en hann vonast til að skattalækkunin sendi markaðinum jákvæð skilaboð og verði til þess að örva fjárfestingu og verðmætasköpun.
Land stimplanna
Til að draga úr skrifræði hyggjast stjórnvöld gera gangskör að því að færa hvers kyns þjónustu við fólk og fyrirtæki yfir á stafrænt form. Í dag glímir Þýskaland við að stjórnsýslan situr pikkföst í fortíðinni og þrátt fyrir margra milljarða evra fjárfestingu í stafrænum lausnum á það við um ótal stofnanir að þar er unnið með pappír og bréfabindi og þeir sem þurfa á vottorði eða leyfi að halda skulu gjöra svo vel og bóka tíma og mæta í eigin persónu.
Sem dæmi um hægaganginn sem þetta skapar þá er ekki óalgengt að það taki nokkra mánuði að fá dánar-, hjúskapar- og fæðingarvottorð gefin út. Að fá leyfi til að hefja atvinnurekstur tekur að jafnaði 120 daga, sem er tvöfalt lengra en OECD-meðaltalið. Ótrúlegustu hlutir kalla síðan á svakalegt umstang: til að mega flytja stóran farm á þýskum hraðbrautum, s.s. spaðana fyrir risavaxnar vindmyllur, þarf hér um bil 150 aðskilin leyfi!
Einn sérfræðingurinn komst þannig að orði að tregða þýskrar stjórnsýslu til að tæknivæðast stafi m.a. af því að þýskir embættismenn eru margir komnir af léttasta skeiði og fyrir vikið óviljugir eða ófærir um að tileinka sér ný vinnubrögð. Svo virðist það ríkt í þýsku þjóðarsálinni að nota stimpil: Það að setja stimpil á blað er andlega hreinsandi athöfn, sem vottar með skýrum hætti að verkinu sé lokið og það hafi verið faglega afgreitt! Ekki fylgir sögunni hvort Scholz langar líka að einfalda regluverkið, því til viðbótar við löngu úrelt vinnubrögð í stjórnsýslunni hafa Þjóðverjar unun af að setja flóknar – og iðulega tilgangslausar – reglur um stórt og smátt. Þeir sem hafa umgengist Þjóðverja að einhverju ráði myndu varla mótmæla því að þessi annars yndislega og orkumikla þjóð virðist upplifa einhvers konar djúpstæða öryggiskennd af því að hafa nákvæmar og ítarlegar reglur um allt og alla.
Það er heldur ekki eins og Þjóðverjar hafi ekki fyrir löngu gert sér grein fyrir að regluverkið væri flókið og stjórnsýslan silaleg. Helmut Kohl gerði heiðarlega tilraun árið 1983 þegar hann hleypti af stað því sem átti að verða stórátak til að draga úr skrifræði. Það eina sem átakið skilaði var að ný stofnun var sett á laggirnar í Bonn og skapaði atvinnu fyrir nokkra bjúrókrata. Ótal átaksverkefni af svipuðum toga hafa verið reynd síðan þá, vítt og breitt um Þýskaland, með litlum sem engum árangri.
Lakast af stóru hagkerfunum
Ástandið er áberandi slæmt í Þýskalandi. Þegar spá AGS fyrir hagvöxt öflugustu hagkerfa heims er skoðuð kemur í ljós að þýska hagkerfið er það eina sem reiknað er með að muni skreppa saman. Væntir AGS að landsframleiðsla í Þýskalandi minnki um 0,3% á þessu ári en til samanburðar er gert ráð fyrir að evrusvæðið allt vaxi um 0,9% og að hagvöxtur verði 1,8% í Bandaríkjunum. Frammistaðan var líka áberandi slæm á síðasta ári: 1,8% hagvöxtur var í Þýskalandi á meðan hagvöxtur evrusvæðisins mældist 3,5%.
The Economist sá ástæðu til að leggja heilt tölublað undir versnandi horfur í Þýskalandi og bendir einn greinarhöfundurinn á að eftir ævintýralegt uppgangsskeið frá og með síðustu aldamótum, þar sem Þýskaland bar höfuð og herðar yfir önnur ríki Evrópu, sé eins og þróttur þýska hagkerfisins hafi dalað. Greina má vaxandi gremju meðal almennings og er tekið að hrikta í stoðum samfélagsins.
Bendir tímaritið á að ein ástæða vandans sé sú að hagkerfið hafi reitt sig um of á sínar hefðbundnu kjarna-atvinnugreinar en ekki fjárfest í nýjum greinum, og kemst Þýskaland t.d. ekki með tærnar þar sem Frakkland og Bandaríkin hafa hælana hvað viðkemur fjárfestingu í tæknifyrirtækjum. Þá hafa stjórnvöld haldið of fast um pyngjuna svo að landið situr núna uppi með tiltölulega litlar skuldir en lúna innviði. Er það t.d. orðið verulegt vandamál hve illa gengur að halda lestarkerfi landsins á áætlun.
Velgengni Þýskalands undanfarinn aldarfjórðung má m.a. þakka mikilli eftirspurn eftir þýskum iðnaðarvörum í Kína en nú er allt í keng þar í landi: þörfin fyrir þýska framleiðslu fer hratt minnkandi, og þýskir bílar hafa tapað markaðshlutdeild til kínversku merkjanna. Orkumál Þýskalands eru líka heljarinnar hausverkur: viðskiptamódel þýskra iðnfyrirtækja byggðist á því að geta keypt ódýra orku frá Rússlandi, en nú hefur verið skrúfað fyrir gasleiðslurnar. Til að gera illt verra hafa Græningjar komið því til leiðar að þýsk kjarnorkuver heyra núna sögunni til.
Hagkerfið reiddi sig líka á að geta laðað að vinnuafl frá ríkjum Austur-Evrópu. Í næstum hálfa öld hefur fæðingartíðni í Þýskalandi verið með lægsta móti en fyrirtækin getað sogað til sín nýútskrifaða verkfræðinga og vélsmiði frá ESB-löndum sem buðu upp á fáa áhugaverða atvinnumöguleika en hafa smám saman náð að byggja upp sín eigin iðn- og tæknifyrirtæki.
Loks er þýskt samfélag eldgamalt. Meðalaldur í Þýskalandi er núna 47,8 ár og aðeins í Japan og Mónakó sem meðalaldurinn er hærri. Til samanburðar er meðalaldurinn í Sviss, Frakklandi, Danmörku og Belgíu á bilinu 41,4 til 42,4 ár – og á Íslandi aðeins 38,1 ár.
Ekki eintómar vondar fréttir
Ekki er öll von úti enn og með smá lagni og heppni gæti Scholz komið hagkerfinu á réttan kjöl.
Það hjálpar Scholz að skuldastaða ríkissjóðs Þýskalands er mjög góð í samanburði við t.d. Frakkland, Belgíu og Ítalíu, svo að stjórnvöld hafa ágætis fjárhagslegt olnbogarúm þrátt fyrir nokkuð háan lántökukostnað. Atvinnuleysi er líka með minnsta móti svo að vinnumarkaðurinn ætti að fara létt með að aðlagast hvers kyns breytingum og inngripum.
Viðskipti við Kína munu væntanlega fara minnkandi, en á móti má reikna með meiri eftirspurn eftir þýskri framleiðslu í löndum á borð við Víetnam sem virðast núna smám saman vera að taka við af Kína sem meiri háttar framleiðsluþjóðir. Ætti Þýskaland líka að njóta góðs af nú þegar bæði stjórnvöld og fyrirtæki víða um heim virðast vera að snúa baki við Kína og reyna að færa aðfangakeðjur sínar nær sér.
Svo má ekki gleyma að góður árangur undanfarinn aldarfjórðung átti sér stað þrátt fyrir himinháa skatta og flókið regluverk. Er því heilmikið svigrúm til að losa um fjötrana og nota meira frelsi sem örvunartæki.
Síðast en ekki síst hafa Þjóðverjar sýnt það, trekk í trekk, að þeir kunna að bretta upp ermarnar þegar á móti blæs.