14 ára gamall drengur lést eftir samfélagsmiðlaáskorun

Harris Wolobah neytti sterkustu flögu í heimi.
Harris Wolobah neytti sterkustu flögu í heimi. Samsett mynd

Nú gengur áskorun á samfélagsmiðlum þar sem fólk er hvatt til að borða „extra sterka“ kartöfluflögu og á hún að reyna á styrk þess sem innbyrðir hana. Áskorunin, „One Chip Challenge“ kom fyrst fram á sjónarsviðið árið 2016 þegar Hollywood-stjörnur og áhrifavaldar kepptust um að borða flögurnar.

Nú virðist sem áskorunin sé að finna vinsældir hjá ungdómnum en ungur drengur í Massachusetts lést á föstudag aðeins klukkutímum eftir að hafa tekið þátt í „One Chip Challenge“ og er fjölskylda drengsins á því að samfélagsmiðlaáskorunin hafi valdið ótímabæru andláti hans.

Neytti Paqui-flögunnar

Harris Wolobah, 14 ára gamall nemandi á öðru ári við Doherty Memorial High School í Worcester, neytti Paqui-flögunnar, sem er krydduð með samblandi af Carolina Reaper-piparnum, heitasta pipar í heimi, og Naga Viper-piparnum, sem var árið 2011 kosinn heitasti pipar í heimi. 

Skömmu eftir að Wolobah neytti flögunnar fór hann að finna fyrir magakrömpum og öðrum óþægindum. Stuttu síðar fannst Wolobah meðvitundarlaus og var fluttur á sjúkrahús þar sem hann var úrskurðaður látinn. 

Móðir drengsins sagði í samtali við NBC 10 Boston að þrátt fyrir að dánarorsök drengsins væri óljós og að fjölskyldan biði niðurstaðna úr krufningu þá tryði hún því að Paqui-flagan hefði valdið andláti sonar síns. 

Framleiðendur flögunnar segja á heimasíðu fyrirtækisins að Paqui-flagan gæti haft skaðleg áhrif á líkamsstarfsemi þeirra sem neyta hennar og að flagan eigi einungis að vera neytt af fullorðnum einstaklingum. 

mbl.is