Forgangsraðar betur og er með skýr mörk

María Kristín Guðjónsdóttir formaður UAK.
María Kristín Guðjónsdóttir formaður UAK.

María Kristín Guðjónsdóttir formaður Ungra athafnakvenna er 32 ára forstöðumaður viðskipta-og fjárfestingamála hjá breska sendiráðinu í Reykjavík.

Hún býr í Kársnesinu í Kópavogi ásamt hvuttanum Mána og er með MSc alþjóðaviðskipta- og markaðsfræði úr HR og BSc í næringarfræði úr Hí.

Árið 2021 markaði tímamót hjá Maríu því hún klessti á vegg á 150 kílómetra hraða og fór í gegnum kulnun. Í dag er hún sterkari og setur skýr mörk. 

Getur þú lýst starfinu þínu?

„Mitt helsta verkefni í sendiráðinu er að efla viðskiptatengslin milli Bretlands og Íslands. Í því felst að draga úr flækjustigi í flæði vöru og þjónustu milli landanna, fylgjast náið með þróun í fríverslunarsamningsviðræðum, aðstoða íslensk fyrirtæki að setja upp starfsemi eða fjárfesta í Bretlandi og auðvitað aðstoða bresk fyrirtæki að koma vöru eða þjónustu sinni á framfæri á Íslandi.

Þetta er mjög víðtæk starfslýsing en dagarnir mínir snúast aðallega um að kynna mér stöðu mála á báðum mörkuðum með því að mæta á viðburði og heimsækja fyrirtæki til þess að fræðast um umhverfi þeirra, starfsemi og framtíðarmarkmið. Í framhaldinu reyni ég að koma auga á viðskiptatækifæri og tengja fólk saman þvert á starfsgreinar.“

María átti sér draum að starfa erlendis. Í þrjú ár …
María átti sér draum að starfa erlendis. Í þrjú ár vann hún fyrir hið heimsþekkta vörumerki Weetabix.

Hvers vegna sóttist þú eftir þessu starfi?

„Stafsauglýsingin kveikti hjá mér mikinn áhuga vegna hversu fjölbreytt og óhefðbundið starfið virtist vera. Mér finnst langskemmtilegast í vinnunni þegar ég er að læra eitthvað nýtt og ég var meira en tilbúin í nýja áskorun. Þessi staða var mjög stórt stökk fyrir mig en ákvað samt að slá til og leyfa gagnrýninni að vera í verkahring þeirra sem sáu um ráðninguna og sé alls ekki eftir því í dag.“

Hvað skiptir máli fyrir konur að hafa í huga ef þær ætla að ná langt á vinnumarkaði?

„Ég tel það vera mjög einstaklingsbundið hvað felst í því „að ná langt“. Það er góð regla að minna sig á að við eyðum að meðaltali þriðjungi sólarhringsins í vinnunni svo það er eins gott að þér líði vel og hafir áhuga á starfinu þínu. Ef sú er ekki raunin að þá vera óhrædd að breyta til, prófa mismundi hluti og sækjast eftir nákvæmlega því sem þig langar til að gera.“

Hvernig var þinn ferill?

„Eftir útskrift úr menntaskóla fór ég í grunnnám í næringarfræði við Háskóla Íslands. Ég starfaði í apóteki og heilsubúð með náminu og keppti í fitness sem var vinsælt á þeim tíma. Það var talsverð pressa að fara beint í framhaldsnám eftir næringarfræðina en á þeim tíma hafði ég ekki áhuga á að fara lengra með það nám svo ég skráði mig í matvælafræði sem reyndist vera algjört feilspor fyrir mig. Fann fljótt að þarna átti ég alls ekki heima og hætti eftir fimm vikur svo ég var þarna á algjörum krossgötum. Á næstu mánuðum vann ég sem gjaldkeri hjá Eimskip á meðan ég áttaði mig hvað skildi vera næsta skref. Haustið þar á eftir byrjaði ég í framhaldsnámi í alþjóða viðskipta- og markaðsfræði í Háskólanum í Reykjavík.

Frá því ég var barn hef ég alltaf verið með sterka útlandaþrá. Eins og margir Íslendingar átti ég mér draum um að læra eða starfa erlendis. Það var ekki í boði að fara erlendis í skiptinám hvorki í næringar- né matvælafræði. En í viðskiptafræðinni var skiptinám erlendis í eina önn hluti af kennsluáætlun sem ég tók í Rotterdam í Hollandi.

Í viðskiptafræðináminu skráði ég mig, fyrir slysni, í helgarnámskeið í samningartækni og varð gjörsamlega heilluð. Það sumar pantaði ég sex til sjö samningsbækur af Amazon og las allt sem ég komst yfir tengt efninu með það markmið að komast í samningslið skólans. Það tókst og ég keppti fyrir hönd HR tvö ár í röð í heimsmeistarakeppni í samningatækni með frábærum liðsfélögum, í Austurríki og Kólumbíu. Á lokaönninni skrifa ég svo mastersritgerð um breytingastjórnun í kjarasamningakerfinu á Íslandi.

Á meðan ég var að skrifa ritgerðina rakst ég á draumastarfið á LinkedIn sem var í alþjóðasölu- og markaðsdeild Weetabix úti í Bretlandi. Starfið var frábær leið til að nýta bæði næringar- og alþjóðaviðskiptafræðina og eftir nokkra mánaða ráðningarferli pakkaði ég í tösku og tók stefnuna á smábæinn Kettering vorið 2017. Hjá Weetabix fékk ég að ferðast um heiminn og öðlaðist snemma reynslu sem hefði verið erfitt að fá hér heima svona snemma á ferlinum. Ég bar ábyrgð á sölu- og markaðssetningu vörumerkja fyrirtækisins í Danmörku, Svíþjóð og á mörkuðum við Karíbahafið ásamt því að aðstoða við Asíu, Finnland og Noreg.

Eftir þrjú ár hjá Weetabix í bresku sveitasælunni bauðst mér tækifæri, aftur á LinkedIn, að flytja til London til að sjá um alþjóðlega sölu hjá ört vaxandi fjölskyldufyrirtæki sem heitir Little Moons og framleiðir mochi-ís. Mér fannst þetta vera áhugaverð vara og var líka spennt fyrir að taka þátt í uppvexti sprotafyrirtækis svo ég sló til. Þetta var vorið 2020 þegar heimsfaraldurinn skall á og Bretland innleiddi mjög strangar sóttvarnarreglur. Vinsældir Little Moons og mochi ís sprungu út á samfélagsmiðlum í Evrópu, þá sérstaklega á TikTok, eftirspurnin jókst þúsundfalt og fyrirtækið óx hratt. Á sama tíma gengu Bretar úr Evrópusambandinu og ég þurfti að hafa mig alla við að koma vörum hratt og örugglega á hillurnar í Evrópumörkuðum til að halda markaðshlutdeild. Þetta var hinn fullkomni stormur og því fylgdi mikið álag en lærdómurinn og reynslan voru ómetanleg. Eftir eitt ár í starfi sagði ég upp og flutti heim. Þökk sé vinum og fjölskyldu áttaði ég mig á að ég var komin með alvarleg einkenni kulnunar og við tók nokkra mánaða hvíld sem fór í að reyna núllstilla og endurforgangsraða í lífinu.

Í október 2022, tók ég við sölustarfi hjá Bioeffect hér heima og hafði umsjón með sölu í Evrópu. Á sama tíma skráði ég mig líka í félagið Ungar Athafnakonur (UAK). Þegar ég var flutt heim vildi ég setja minni áherslu á vinnu og byggja upp tengslanet og ný áhugamál. Ég upplifði mig ekki lengur á sama stað og gömlu góðu vinkonurnar og leið eins og ég hafði misst af lestinni. Við fórum tvær vinkonur á UAK-ráðstefnuna í Hörpu um vorið og mér fannst svo góð stemming í hópnum, fylltist innblæstri og dáðist að því hvað félagið var að gera magnaða hluti. Mig langaði að vera hluti af þessum hópi og bauð mig því fram í stjórn þótt ég taldi mig kannski vera mögulega of gamla, en ég var 31 árs, en svo reyndist alls ekki vera.

Eftir rúmlega ár hjá Bioeffect rak ég augun í starfsauglýsingu frá breska sendiráðinu á mbl.is fyrir stöðuna sem ég sinni í dag og hef verið í því starfi núna í eitt ár. Síðastliðið vor var ég einnig kjörin formaður UAK fyrir þetta starfsár sem er að hefjast og ég er full tilhlökkunar fyrir haustinu. Þetta er sagan hingað til,“ segir María Kristín. 

Fannst þér þú uppskera á einhverjum tímapunkti að þú værir búin að ná markmiðunum þínum?

„Já, klárlega, en ekki fyrr en ég hafði litið í baksýnisspegilinn. Það var alltaf langþráður draumur að læra og starfa erlendis en það var ekki fyrr en ég var komin aftur heim að ég áttaði mig almennilega á að ég hafði uppfyllt þann draum. Ég er mjög hvatvís og fljót að fara úr einu í annað og setja mér næsta markmið. Það er margt sem mig langar að gera og afreka en síðustu ár hef ég líka tamið mér að gefa mér tíma og viðurkenningu á því sem ég hef afrekað til dagsins í dag. Ég stóð sjálfa mig að því nokkur áramót í röð að líða eins og ég hefði ekki afrekað né upplifað neitt um árið. Þannig ég hef tamið mér það að vista mánaðarlega myndir í albúm af nýjum upplifunum og skemmtilegum augnablikum yfir árið og skoða svo albúmið á áramótunum,“ segir María. 

Hvað gefur vinnan þér?

„Helsta ánægjan sem ég fæ úr starfinu mínu er að eiga þátt í að auka sýnileika Íslands í Bretlandi, koma á tengingu milli fólks og aðstoða þannig fyrirtæki að ná markmiðum sínum. Fjölbreytnin er líka frábær, ég get setið á orkuráðstefnu einn morguninn en svo verið að ræða varnarmál eða innflutning á osti um eftirmiðdaginn. Svo er ég auðvitað daglega að vinna með og kynnist frábæru fólki í leiðinni sem eru að gera ótrúlega áhugaverða hluti,“ segir hún. 

Dr. Bryony Mathew sendiherra Bretlands á Íslandi og María Kristín …
Dr. Bryony Mathew sendiherra Bretlands á Íslandi og María Kristín Guðjónsdóttir.

Klessti á vegg á 150 kílómetra hraða

Hefur þú átt það til að ofkeyra þig, og ef svo er, hvernig hefur þú brugðist við því?

„Já 100%, enda klessti ég á andlegan vegg árið 2021 á 150 kílómetra hraða. Að fara í gegnum kulnun er eitt af því erfiðasta sem ég hef upplifað og óska ég engum að fara í gegnum slíkt. Ég leitaði mér aðstoðar, las mér til, svaf mjög mikið og byrjaði að hlusta betur á minn líkama. Núna reyni ég að forgangsraða betur og setja mér mjög skýr mörk. Þegar ég lít tilbaka þá var þetta óumflýjanlegt en ég er þakklát að hafa brotlent um þrítugt og lært þessa lexíu snemma á leiðinni með mögulega lægri fórnarkostnaði en ef þetta hefði komið fyrir seinna,“ segir hún. 

Finnst þér konur þurfa að hafa meira fyrir því að vera ráðnar stjórnendur í fyrirtækjum en karlmenn?

„Ef þú skoðar kynjaskipta tölfræði á útskrift úr íslenskum háskólum vs. kynjaskiptingu á stjórnendum fyrirtækja í landinu sést mikið ósamræmi. Það væri mjög áhugavert og löngu tímabært að skoða nánar hvað það er sem veldur þessu.“

Áttu þér einhverja kvenfyrirmynd?

„Já, ég á mér mjög margar kvenfyrirmyndir. Efst í huga eru samstjórnarkonur mínar, bæði í núverandi og fyrrverandi stjórn UAK. Þær veita mér mikinn innblástur, hvatningu og ég hef lært svo mikið á því að vinna með þessum fjölbreytta hóp. Síðan á ég eldri systur sem er líklegast mín fyrsta kvenfyrirmynd í lífinu og mun alltaf líta upp til bæði hvað varðar starfsframa og fjölskyldu.“

Ertu með hugmynd hvernig hægt er að útrýma launamun kynjanna fyrir fullt og allt?

„Það er í rauninni ótrúlegt að það sé enn launamismunur á milli kynjanna árið 2023. Tækin og tólin til að útrýma þessu eru löngu komin til sögunar en sem dæmi má nefna lausn PayAnalytics. Laun og tekjur hafa lengið verið „tabú“ umræðuefni í samfélaginu en ég held að aukið launagagnsæi myndi koma okkur langt í þessum efnum.“ 

Hvernig er morgunrútínan þín?

„Mig langar að segja að ég byrji daginn á kaldri sturtu, tebolla og hugleiðslu. En í fullri hreinskilni þá byrjar dagurinn á að slá nokkrum sinnum á snooze-takkann og kaffibolla sem ég sötra á meðan ég geri mig til. Skottast svo út í göngutúr með hvutta og kem mér svo á skrifstofuna, oftast á réttum tíma,“ segir hún og hlær. 

Nærðu að vinna bara átta stunda vinnudag eða teygist vinnudagurinn fram á kvöld?

„Oftast, en ég þarf reglulega að ferðast á vegum vinnunnar og mæta á viðburði eða í móttökur sem eru stundum á kvöldin. En ég fæ frí á móti svo það helst ágætis jafnvægi í þessu. Við í stjórnUAK erum allar í sjálfboðaliðastarfi og það starf fer allt fram utan vinnutíma þannig það er oft unnið fram eftir kvöldi og um helgar. En það er mjög gefandi og skemmtileg vinna með frábærum hópi þannig sá tími er mjög eflandi og ánægjulegur.“

Hvað finnst þér skemmtilegast að gera utan vinnutíma?

„Mér finnst langskemmtilegast að eyða tíma með vinum og hundinum mínum Mána. Ég verð að hreyfa mig reglulega til að líða vel. Skipuleggja og dreyma stórt með UAK. Ég nýt þess líka mikið að elda góðan mat með góðan lagalista á fóninum. Svo er ég mikill lestrarhestur, hvort sem það er að lesa góð bók eða reyna að lesa framtíðina úr tarot spilum,“ segir hún. 

Hvað er framundan hjá þér?

„Það sem er helst á döfinni hjá mér þessa stundina er byrjun á nýju starfsári Ungra athafnakvenna (UAK) sem hefst með glæsibrag í Grósku í dag klukkan 20.00. Viðburðurinn er opinn öllum sem hafa áhuga á að kynna sér starfsemi félagsins óháð aldri eða kyni. UAK er félag sem stuðlar að kynjajafnrétti með þvi að leggja áherslu á að styrkja stöðu ungra kvenna á vinnumarkaði. Félagið skapar vettvang fyrir félagskonur til að fræðast um hin ýmsu málefni, sækja innblástur frá framúrskarandi konum í samfélaginu auk þess að mynda tengslanet þvert á menntun, starfsgrein og pólitískar skoðanir. En svo hlakka ég líka til að komast í smá haustrútínu, hvernig svo sem hún mun líta út.“

Hér er María ásamt stjórn UAK.
Hér er María ásamt stjórn UAK.
María og hundurinn Máni.
María og hundurinn Máni.
mbl.is