Hvalveiðiskipið Hvalur 9 var rétt í þessu að landa við hvalstöðina í Hvalfirði. Systurskip þess, Hvalur 8, mætti í Hvalfjörðinn snemma í morgun.
Hvalveiðiskipin hafa verið við veiðar síðan á miðvikudag og hefur veiðum miðað vel. Morgunblaðið greinir frá því í dag að skipin séu samanlagt með þrjár langreyðar, fyrra skipið með eina og seinna með tvær.
Búið er að stækka það svæði við hvalstöðina sem er girt af með rafmagnsgirðingu.
Hvalveiðarnar voru heimilaðar á ný 1. september en með takmörkunum. Vertíðin tafðist þó um nokkra daga, fyrst vegna veðurskilyrða en síðan vegna mótmæla. Höfðu þá tveir mótmælendur hlekkjað sig fasta í möstur skipanna í rúman einn og hálfan sólarhring og tafið veiðarnar um tæpa þrjá daga.