Verkjuð, vansæl og dottin úr fyrsta sæti?

Guðríður Torfadóttir einkaþjálfari heldur vinsæl námskeið ásamt Ingu Kristjánsdóttur næringarþerapista …
Guðríður Torfadóttir einkaþjálfari heldur vinsæl námskeið ásamt Ingu Kristjánsdóttur næringarþerapista þar sem blóðsykur og hreyfing eru í forgrunni.

Guðríður Torfadóttir einkaþjálfari skrifar um mataræði í nýjum pistli á Smartlandi. Hún segir að það trufli fólk mikið þegar blóðsykurinn er ekki í jafnvægi og þá sé erfitt að ráða við sykurlöngun. Hún segir að það að hafa stjórn á blóðsykrinum snúist ekki um agaleysi eða aumingjaskap. 

Það er gríðarlega algengt að við konurnar finnum fyrir miklum verkjum í líkamanum. Það getur auðvitað tengst ýmsu en oftast blossa þeir upp vegna mikilla bólgna, sem geta tengst streitu, breytingaskeiði, hreyfingarleysi eða óhentugu mataræði svo eitthvað sé nefnt.

Við konur erum flestar stressaðar, sem leiðir oft til þess að við borðum ekki góða fæðu og setjum hreyfinguna í ruslakistu verkefnanna. Með öðrum orðum, við eigum það til að láta eftir fyrsta sætið til annarra þátta en okkar eigin heilsu.

Stundum getur þó reynist erfitt að finna orsök verkjanna, en það þýðir aldeilis ekki að við getum ekkert gert.

Við vanmetum oft okkar eigin styrk og getu þegar kemur að því að vinna með eigin líðan og getum sjálfar gert svo ótal margt til að bæta ástandið. Til dæmis brölt aftur upp í fyrsta sætið, eða hlammað okkur þar í fyrsta skipti lífsins. Kominn tími til konur!

Hreyfing er eitt sem hægt er að gera. Skemmtileg hreyfing, sem hvetur okkur áfram en veldur ekki of miklu álagi og stressi á líkamann. Hreyfing er frábær leið að minni verkjum.

Konur með mikla verki eru líklega ekkert að fara að æfa fyrir maraþon, eða djöflast í CrossFitt enda ekkert sérstaklega gáfulegt fyrir þann hóp. Hnitmiðuð hreyfing, með uppbyggingu, liðleika, öndun og slökun í forgrunni er nokkuð sem getur bætt líðan gríðarlega og veitt miklu meiri dagleg lífsgæði.

Við vitum núna að hreyfing skapar móteitur gegn streitu. Líkaminn framleiðir alls konar gleðihormón við hreyfinguna sem geta virkað verkjalosandi, sem svo veitir mikla vellíðan.

Svo er það mataræðið.

Það sem við vitum í dag er að blóðsykursjafnandi mataræði skapar ró í kroppnum og minnkar bólgur. Órólegur blóðsykur getur valdið miklum verkjum, alls konar vekjum: liðverkjum, höfuðverkjum, vöðvaverkjum og verkjum á sálinni. Við þekkjum þetta margar. Þegar við höfum dottið ofan í nammiskúffuna, eða kökuboxið, þá finnum við til á líkama og sál. Kannastu við þetta?

En vissir þú að ef blóðsykurinn þinn er ekki í jafnvægi þá er rosalega erfitt að ráða við þessa löngun í sykur og kolvetni? Það snýst ekkert um agaleysi eða aumingjaskap.

Til að ná sér út úr þessu vandamáli er aðal málið að borða þannig að blóðsykurinn sé sem jafnastur, semja blóðsykursfrið við líkamann.

Það er hægt að fullyrða það, að mataræði sem virkar blóðsykursjafnandi og bólgueyðandi virkar fyrir alla og ekki síst konur með verki.

Þú getur byrjað á að passa að morgunmaturinn þinn sé stútfullur af próteini og fitu, það setur bólgueyðandi tón inn í daginn og vinnur með þér fram á kvöld.

Það eru líka til ýmis bætiefni sem geta virkað bólgueyðandi og í fyrsta lagi er málið að passa að þú hafir nægar birgðir af D-Vítamíni. Skortur á því mikilvæga efni getur valdið því að verkir versna mikið. Það eru til fleiri áhugaverð efni og mörgu hægt að mæla með, en kannski er sniðugt að nefna eitt annað hérna, en það er Turmerik-rótin. Hún getur unnið gegn bólgum og aðstoðað gegn verkjunum. Þú getur gert svo mikið sjálf til að láta þér líða betur!

Finndu þína leið, aldrei gefast upp í leitinni. Lykillinn að betri líðan og bættum lífsgæðum er mikið til í þínum höndum.

mbl.is