„Við erum sökkerar fyrir sögu“

Feðgarnir Sævar Knútur Hannesson og Hannes Ingi Jónsson gera saman …
Feðgarnir Sævar Knútur Hannesson og Hannes Ingi Jónsson gera saman út Sigurbjörgu SF 710 frá Höfn. Þeir hafa eru einnig saman í stjórn Hrollaugs - smábátafélags Hornafjarðar. mbl.is/Gunnlaugur

Feðgarn­ir og sjó­menn­irn­ir Sæv­ar Knút­ur Hann­es­son og Hann­es Ingi Jóns­son eru van­ir að starfa sam­an en Sæv­ar fór fyrst með pabba sín­um á sjó um fimm ára og þeir hafa á full­orðins­aldri verið sam­an í áhöfn­inni á Sig­urði Ólafs­syni SF, en eru nú hvor á sínu skip­inu. Sam­an hafa þeir einnig gert út smá­bát­inn Sig­ur­björgu SF og tóku báðir á síðasta ári sæti í stjórn Hrol­laugs – smá­báta­fé­lags Horna­fjarðar, Sæv­ar sem formaður og Hann­es sem rit­ari.

„Viltu ekki bara kíkja til mín í kaffi, pabbi verður hérna líka,“ seg­ir Sæv­ar er blaðamaður slær á þráðinn. Ekki er hægt að hafna slíku boði enda blaðamenn ávallt kaffiþyrst­ir.

Þeir feðgar eru sem fyrr seg­ir báðir sjó­menn en það var ekki sjálf­gefið að Hann­es myndi gera sjó­mennsku að ævi­starfi sínu. „Ég prófaði nú að fara sex­tán ára á sjó. Það var 1983, áður en kvóta­kerf­inu var komið á. Þá var farið aust­ur af Ing­ólfs­höfða og dreg­in net, ekk­ert verið að spá í gæðunum þá. Á þess­um tíma var ver­búðin og man eft­ir að einu sinni var komið með tvo brenni­víns­dauða á pickup-bíl. Það var haldið á þeim um borð og þeir fá að sofa úr sér. Þegar var komið á miðin þá voru öll tæki í bátn­um biluð og við fór­um að horfa á eft­ir bauj­un­um. Það voru all­ir send­ir í að líta eft­ir þeim og en það kom bara einn á dekk af þess­um sem voru born­ir um borð. Hinn kom aldrei úr koju,“ rifjar Hann­es upp og hlær.

Hann seg­ir að sér hafi verið sagt að vera ekk­ert að fara á sjó, það væri eng­in framtíð í því. „Þannig að ég fór í bif­véla­virkj­un. Svo var það þannig að ég var svo slæm­ur í baki, með hrygggigt. Ég var með sveins­próf en kom­inn al­veg í vink­il. Svo prófaði ég að fara á sjó og það var allt annað líf, stóð upp­rétt­ur og leið bara miklu bet­ur.“

Sævar byrjaði snemma að sfara á sjó með Hannesi föður …
Sæv­ar byrjaði snemma að sfara á sjó með Hann­esi föður sín­um. Ljós­mynd/​Aðsend

Blekktu Gæsl­una

Sæv­ar á ekki síður lang­an sjó­manns­fer­il að baki þrátt fyr­ir ung­an ald­ur. „Hann byrjaði snemma að taka mig með á sjó. Ég byrjaði að fara fyrst fimm ára. Svo byrjaði hann í út­gerð og það var spenn­andi að fá að vera út í skúr þegar var verið að fella net. Maður fékk að skera af og fékk borgað fyr­ir það. Svo fékk maður að fara á sjó þegar viðraði vel.“

Hann­es rifjar upp að þrátt fyr­ir ung­an ald­ur hafi Sæv­ar komið að góðum not­um á sjó. „Einu sinni var hann með okk­ur á sjó, kannski tíu eða tólf ára. Svo kom Gæsl­an um borð og það vantaði véla­vörð, hann var meidd­ur og varð eft­ir í landi. Þá voru góð ráð dýr svo við sögðum Sæv­ari að fara í koju og draga upp fyr­ir haus. Það var síðan spurt um véla­vörðinn og við sögðum hann vera niðri í koju. Gæsl­an fór niður og sá þarna ein­hvern í koju. Hann er veik­ur sögðum við. Allt tekið gott og gilt,“ seg­ir hann og fliss­ar.

Þá hafi sjó­mennsk­an einnig reynst góður skóli. „Það var kenn­ara­verk­fall einn vet­ur og ég held að þið hafið fengið að vera með okk­ur viku á sjó þú og Gísli [Ey­steinn Helga­son]. Voruð tólf þrett­án ára.“

Gísli Eysteinn Helgason og Sævar með vænan þorsk árið 2005.
Gísli Ey­steinn Helga­son og Sæv­ar með væn­an þorsk árið 2005. Ljós­mynd/​Aðsend

Hann­es hef­ur verið á ýms­um bát­um frá því hann hóf sjó­mennsku sem aðalstarf en gerði sjálf­ur út Öðling á ár­un­um 2000 til 2005, en fann sig knú­inn að hætta þeirri út­gerð vegna kvóta­skerðinga. Hann er nú vél­stjóri á neta­bátn­um Sig­urði Ólafs­syni SF. „Það eru breytt­ir tím­ar, það var svo mikið um far­and­verka­menn. Það voru 20 bát­ar fyr­ir þrjá­tíu árum að róa með net og nú er Sig­urður Ólafs­son eini neta­bát­ur­inn á Hornafirði,“ seg­ir Hann­es.

Sæv­ar var einnig um tíma í áhöfn­inni á Sig­urði Ólafs­syni SF en hætti í þeirri áhöfn til að kom­ast á nýrra skip og er nú með fast pláss á Jónu Eðvalds SF sem Skinn­ey-Þinga­nes hf. ger­ir út.

Þeir feðgar eru þó hvergi hætt­ir sam­vinn­unni og hófu þeir að gera út smá­bát­inn Sig­ur­björgu SF árið 2019, en ekki er ljóst hve lengi þeir fá að halda nafn­inu Sig­ur­björg þar sem Rammi hf., sem nú hef­ur sam­ein­ast Ísfé­lagi Vest­manna­eyja í Ísfé­lag hf., hef­ur haft einka­leyfi á nafn­inu. Þeir feðgar hafa til þessa fengið að nýta nafnið með leyfi en nú stytt­ist í að Ísfé­lagið fái til lands­ins nýtt skip sem mun bera nafnið Sig­ur­björg ÁR. Þótt nafnið kunni að verða annað eru feðgarn­ir hvergi hætt­ir í út­gerð.

Sigurður Ólafsson SF er eini netabáturinn sem gerður er út …
Sig­urður Ólafs­son SF er eini neta­bát­ur­inn sem gerður er út frá Hornafirði. mbl.is/​Gunn­laug­ur

Formaður af nauðsyn

Sæv­ar var kjör­inn formaður Hrol­laugs – smá­báta­fé­lags Horna­fjarðar á síðasta ári og var faðir hans, Hann­es, rit­ari. Þeir segja þetta ekki endi­lega hafa gerst af ásetn­ingi. „Það var lít­ill áhugi á að taka við þessu og okk­ur þótti leiðin­legt ef þetta skyldi vera að fara að deyja út. Fúsi (Vig­fús Ásbjörns­son) var bú­inn að sinna for­mennsku lengi og það þurfti eitt­hvað að gera því þetta fé­lag á sér sögu hérna á Hornafirði og við erum sökk­er­ar fyr­ir sögu,“ seg­ir Sæv­ar og hlær.

Við borðstofu­borðið eru feðgarn­ir meira en til­bún­ir að ræða helstu bar­áttu­mál smá­báta­sjó­manna á Hornafirði. „Við vilj­um bara 48 daga. Það er ský­laus krafa,“ seg­ir Hann­es. Bend­ir hann á kröf­una um að strand­veiðibát­um um allt land verði tryggðir 12 veiðidag­ar á mánuði í þá fjóra mánuði sem veiðin stend­ur yfir (maí, júní, júlí og ág­úst). Síðasta strand­veiðitíma­bil endaði frek­ar snemma, 12. júlí, og á síðasta ári voru veiðar stöðvaðar 21. júlí.

„Okk­ur sýn­ist hafa komið mjög lítið út úr þess­um til­lög­um hjá henni Svandísi [Svavars­dótt­ur mat­vælaráðherra]. Það þarf þessa 48 daga og sleppa þess­ari hug­mynd um svæðis­skipt­ingu,“ seg­ir Sæv­ar sem kveðst jafn­framt sann­færður um mik­il­vægi strand­veiðanna til að hvetja fleiri í grein­ina.

48 dag­ar minnka óvissu

Sæv­ar bend­ir á að hóp­ur strand­veiðisjó­manna á Hornafirði sé hægt og ró­lega að kom­ast á ald­ur og lík­leg­ur til að hætta störf­um. Þörf sé á að fjölga yngri strand­veiðisjó­mönn­um, en að hefja út­gerð er fjár­fest­ing með mikla óvissu þegar veiðar eru stöðvaðar eins snemma og gert hef­ur verið und­an­far­in ár.

„Með 48 dög­um minnk­ar öll óvissa og þá mynd­ast mögu­leiki fyr­ir ungt fólk að byrja í sjáv­ar­út­vegi, menn sjá þá kannski ástæðu til að kom­ast inn í þetta og fyr­ir ungt fólk að geta byrjað í út­gerð. Það er bara ekki hægt í dag. Það er verið að bjóða upp kvóta á sex þúsund krón­ur kílóið í litla kerf­inu. Það þarf að vera tæki­færi fyr­ir ungt fólk að kom­ast inn í þetta. Það er ekk­ert fyr­ir alla að vera í átta-til-fjög­ur-vinnu og þetta gef­ur sveigj­an­leika í hvernig fólk vinn­ur fyr­ir sér, við erum eins mis­mun­andi og við erum mörg,“ út­skýr­ir Sæv­ar.

„Það breytt­ist mikið hérna á Hornafirði með strand­veiðunum. Þá fjölgaði svo mikið bát­um,“ seg­ir Hann­es og rifjar upp að lang­flest­ir ef ekki all­ir sem höfðu verið í daga­kerf­inu gamla og fengu kvóta þegar því kerfi var breytt seldu og hættu út­gerð.

„Það var al­gjört klúður, bara ávís­un á að menn seldu strax,“ gríp­ur Sæv­ar fram í.

„Það voru mjög fáir smá­bát­ar áður en strand­veiðarn­ar byrjuðu en það eru núna um 20 bát­ar á strand­veiðunum,“ seg­ir Hann­es og kveðst undr­andi á því að ekki sé meiri stuðning­ur við strand­veiðar meðal stjórn­mála­manna. „Sjálf­stæðis­menn gera út á frelsi ein­stak­lings­ins, þeir hamra á því. Frelsi ein­stak­lings­ins kem­ur hvergi bet­ur í ljós en að vera trillu­karl.“

Hætta á að þekk­ing glat­ist

Þeir eru sam­mála um að eins og strand­veiðum er háttað nú sé ekki hægt að hafa fulla at­vinnu af slík­um veiðum og því flest­ir sem taka þátt í strand­veiðum einnig í öðrum störf­um eða í ann­arri vertíðar­vinnu.

Strand­veiðarn­ar geyma einnig mik­il­væg verðmæti að mati Hann­es­ar. „Það er bara svo mik­il hætta á að þekk­ing glat­ist. Þetta er góður skóli til að afla sér upp­lýs­inga um miðin og læra á þau.“ Hann bend­ir einnig á að veiðarn­ar séu mik­il­væg­ar fyr­ir sveit­ar­fé­lagið sem hef­ur meðal ann­ars tekj­ur af hafn­ar­gjöld­um af trill­um í smá­báta­höfn­inni.

Sæv­ar tek­ur und­ir og seg­ir skerðing­ar í út­gefn­um afla­heim­ild­um í sam­ræmi við ráðgjöf Haf­rann­sókna­stofn­un­ar und­an­far­in ár hafa gert það að verk­um að ekki sé verið að landa fiski á Höfn á sumr­in, nema þá strand­veiðifiski. Benda þeir feðgar á að með þessu fá­ist tölu­verð vinna fyr­ir fisk­markaðinn, auk þess sem eru af­leidd störf sem tengj­ast vél­smíði og annað sem verður til í kring­um rekst­ur af þess­um toga.

Strandveiðarnar hafa verið mikilvægar fyrir byggðarlagið að mati feðganna.
Strand­veiðarn­ar hafa verið mik­il­væg­ar fyr­ir byggðarlagið að mati feðganna. mbl.is/​Gunn­laug­ur
Nán­ar um málið
í Morg­un­blaðinu
Áskrif­end­ur:
Nán­ar um málið
í Morg­un­blaðinu
Áskrif­end­ur: