Tíðari aftakaflóð á Íslandi gætu orðið raunin samhliða loftslagsbreytingum. Huga þarf að skipulagi íbúðakjarna og byggðarlaga samhliða framtíðarsviðsmyndum af stöðu sjávar.
Veðurstofa Íslands gaf á síðasta ári út skýrslu þar sem lagt var mat á aftakaflóð umhverfis landið. Um er að ræða fyrsta mat á endurkomutíma sjávarflóða fyrir allt landið.
Út frá þeirri vinnu er hægt að leggja mat á það hversu langt slík flóð gætu náð inn á landið við helstu byggðarkjarna.
Kortið var reiknað fyrir strandsvæði á landinu og sýnir hæð flóða sem hafa 1% árslíkur og því kölluð 100 ára flóð, segir Anna Hulda Ólafsdóttir, skrifstofustjóri loftslagsþjónustu og aðlögunar hjá Veðurstofu Íslands.
Anna segir kortið í raun ekki sýna framtíðarsviðsmyndir, heldur sé einungis verið að meta þessi 100 ára viðmiðunarflóð og þar af leiðandi ekki hægt að spá fyrir um hvenær næsta flóð verður.
Anna hefur fjallað um að áhrif loftslagsbreytinga á sjávarstöðuna og hækkun á sjávarborði sem getur jafnframt haft áhrif á tíðni aftakaflóða, sem í heitari sviðsmyndum gætu orðið á 12 ára fresti í stað 100 ára.
Í því samhengi veltir Anna fyrir sér hversu vel við getum tekið á móti svona afbrigða-umbrotum oftar.
Nánari umfjöllun er að finna í Morgunblaðinu sem kom út í dag, 11. september.