Gert er ráð fyrir 410 milljóna króna tímabundnu framlagi til uppgjörs á sanngirnisbótum vegna misgjörða á vistheimili fyrir börn á Hjalteyri í Arnarneshreppi í fjárlagafrumvarpi ársins 2024.
Dómsmálaráðherra lagði fram í samráðsgátt drög að frumvarpi til laga um sanngirnisbætur fyrir misgjörðir á vistheimilinu undir lok síðasta árs. Þar segir að frumvarpið geri kleift að taka á málum einstaklinga sem urðu fyrir varanlegum skaða af illri meðferð eða ofbeldi þegar þeir voru vistaðir sem börn á heimilinu á árunum frá 1972 til 1979.
Fyrir tæpum tveimur árum skipaði ráðherra starfshóp vegna málsins en skýrsla hópsins og fyrri umfjöllun vistheimilanefndar styðja við þær frásagnir sem hafa komið upp um að einstaklingar sem þar voru vistaðir kunni að hafa orðið fyrir illri meðferð.
Nú hafa rúmar 400 milljónir verið eyrnamerktar uppgjöri á sanngirnisbótum til þessara einstaklinga.