„Auðvitað er þetta erfitt gagnvart starfsfólki“

Gunnþór Ingason, framkvæmdastjóri Síldarvinnslunnar, segir ákvörðun um lokun frystihússins á …
Gunnþór Ingason, framkvæmdastjóri Síldarvinnslunnar, segir ákvörðun um lokun frystihússins á Seyðisfirði vera nauðsynlega hagræðingaraðgerð.

„Auðvitað er þetta erfitt gagn­vart starfs­fólki og sam­fé­lag­inu,“ seg­ir Gunnþór Ingva­son, fram­kvæmda­stjóri Síld­ar­vinnsl­unn­ar, í sam­tali við 200 míl­ur um ákvörðun þess efn­is að loka bol­fisk­vinnslu fé­lags­ins á Seyðis­firði 30. nóv­em­ber.

Með ákvörðun­inni hef­ur 30 af 33 starfs­mönn­um verið sagt upp.

Aðstæður hafi verið slík­ar í rekstr­ar­um­hverf­inu að nauðsyn­legt hafi verið að aðhaf­ast. „Þetta eru erfiðir hlut­ir að fara í gegn­um, en suma hluti þarf að gera til að geta horft til framtíðar. Þetta höf­um við séð á mörg­um víg­stöðvum í at­vinnu­líf­inu þar sem menn hafa verið að tækni­væða og aðlag­ast breyttu um­hverfi,“ seg­ir hann.

Full­trú­ar Síld­ar­vinnsl­unn­ar hafa fundað með starfs­fólki og funda nú með full­trú­um Fjarðabyggðar.

„Það er bara verið að fara yfir það hvað við get­um lagt af mörk­um til að minnka þetta áfall í sam­starfi við viðeig­andi hagaðila,“ seg­ir Gunnþór og vís­ar til þess að fé­lagið hafi mark­mið um mót­vægisaðgerðir þar sem horft verður til tæki­færa og fjár­fest­inga í at­vinnu­upp­bygg­ingu á svæðinu, svo sem í ferðaþjón­ustu, fisk­eldi eða öðrum hug­mynd­um. Mark­miðið er að fjár­festa til engri tíma í verk­efn­um á svæðinu sem skapað geta heils­árs­störf.

„Við trú­um því að það eru tæki­færi í vax­andi ferðaþjón­ustu og ann­arri starf­semi.“

Vannýtt af­köst í Grinda­vík

Árið 2014 festi Síld­ar­vinnsl­an kaup á út­gerðinni Gull­bergi ehf. sem gerði út tog­ar­ann Gull­ver NS-12 og rak frysti­hús á Seyðis­firði.

Til­gang­ur kaup­anna var að verða sér út um veiðiheim­ild­ir í bol­fiski og til­heyr­andi vinnslu til að breikka rekstr­ar­grund­völl fé­lags­ins, en Síld­ar­vinnsl­an hafði verið – eins og nafnið gef­ur til kynna – út­gerðarfyr­ir­tæki með áherslu á veiðar og vinnslu upp­sjáv­ar­teg­unda.

Margt hef­ur breyst á þess­um tíma og má nefna að ráðgjöf haf­rann­sókna­stofn­un­ar í þorski fyr­ir fisk­veiðiárið 2014/​2015 nbam 218 þúsund tonn­um og jókst ráðgjöf næstu árin. Hún hef­ur hins veg­ar dreg­ist sam­an um tæp 23% frá hápunkt­in­um fisk­veiðiárið 2019/​2020 og nam 211 þúsund tonn­um fyr­ir fisk­veiðiá­arið 2023/​2024.

Hef­ur verið lang­ur aðdrag­andi að þess­ari ákvörðun um að loka frysti­hús­inu á Seyðis­firði?

„Þetta er búið að hafa ákveðinn aðdrag­anda. Við erum búin að sjá aðstæður breyt­ast frá því að við kom­um að þessu frysti­húsi á sín­um tíma. Á þess­um tíma var þetta gam­alt og það hef­ur ekki verið grund­völl­ur fyr­ir að fjár­festa neitt í því. Svo erum við að sjá kostnaðarliði hækka og um­hverfið á mörkuðum breyt­ast hratt. Eldri frysti­hús hafa ekki tök sama sveigj­an­leika [í fram­leiðslu] eins og þessi yngri tækni­vædd­ari hús þar sem fjöl­breyti­leik­inn er meiri,“ svar­ar Gunnþór.

Hann seg­ir það hafa verið ljóst að vannýtt af­kasta­geta hafi verið í vinnslu Vís­is hf. í Grinda­vík þegar Síld­ar­vinnsl­an eignaðist fyr­ir­tækið á síðasta ári. Ákvörðunin nú sé ein­fald­lega hluti af „al­mennri hagræðing­araðgerð“.

mbl.is