Dýrfinna svarar kalli

Frá vinstri: Guðfinna Kristinsdóttir, Elín Ósk Blomsterberg, Freyja Kjartansdóttir, Anna …
Frá vinstri: Guðfinna Kristinsdóttir, Elín Ósk Blomsterberg, Freyja Kjartansdóttir, Anna Margrét Áslaugardóttir, Eygló Anna Guðlaugsdóttir og Sandra Ósk Jóhannsdóttir. Leitarhundurinn Orka er fyrir framan.

Sjálfboðaliðar í hundasveitinni Dýrfinnu brugðust skjótt við þegar tilkynnt var um bruna í húsnæði í Hafnarfirði 20. ágúst sl. og hófu leit að köttum sem eigendur náðu ekki að bjarga þegar þeir flúðu heimili sín. „Við fundum fljótlega tvær kisur en eigum eftir að finna tvær,“ segir Eygló Anna Guðlaugsdóttir, ráðgjafi og sjálfboðaliði. „Við höfum ítrekað séð gula köttinn og fengið ábendingar um hann á svæðinu en ekki náð honum. Vöktum svæðið áfram og reynum okkar besta.“

Fyrir um þremur árum týndist lítill hundur í Hafnarfirði. Eygló segir að nokkrar konur hafi kynnst við leitina og þær hafi sameinað krafta sína þegar leit hafi hafist að öðrum hundi á svipuðum tíma. „Þannig myndaðist grunnleitarhópurinn Hundasveitin.“ Hún bætir við að Guðfinna Kristinsdóttir, sem hafi veitt rágjöf og skipulagt leitir að dýrum frá 2016, hafi rekið fyrirtækið Cybele og unnið að þróun smáforrits til að auðvelda meðal annars leit að týndum dýrum. Hún hafi átt nafnið Dýrfinna og þau hafi sameinast undir því nafni.

Á heimasíðu Dýrfinnu (dyrfinna.is) kemur fram að þrír hundar týnist að meðaltali á dag á höfuðborgarsvæðinu. „Við leitum að týndum dýrum,“ áréttar Eygló og tekur fram að allt starf sé unnið í sjálfboðavinnu, „Ástæðan fyrir þessu starfi er í raun sú að við myndum vilja þessa hjálp ef okkar dýr týndust.“

Pysjur og lundar

Eygló sér um að taka við símaskilaboðum, hefur umsjón með samfélagsmiðlum og almennu utanumhaldi á vísbendingum sem berast Dýrfinnu við leitir. „Appið Dýrfinna mun gagnast við að leita að týndum dýrum og létta leit í framtíðinni,“ segir hún. „Við erum duglegar við að skipta öllum verkefnum á milli okkar og fara út í leitir, sem eru misjafnar.“

Í grunnhópnum eru auk Guðfinnu og Eyglóar þær Freyja Kjartansdóttir, Anna Margrét Áslaugardóttir, Elín Ósk Blomsterberg, Ragnheiður Lilja Maríudóttir, Sandra Ósk Jóhannsdóttir og Snædís Þorleifsdóttir. Eygló segir að þær hafi haft nóg að gera í þessi starfi. „Við höfum til dæmis leitað að hundum, köttum, páfagaukum og lundum.“ „Lundum?“ hváir blaðamaður. „Já, við höfum þrisvar, að mig minnir, lent í því að bjarga lundum og pysjum út úr höfuðborginni, þannig að við tökum að okkur ýmis verkefni.“

Konurnar fylgjast vel með auglýsingum og tilkynningum um týnd dýr og bjóða fram aðstoð sína við leit. Eygló segir verkefninu vel tekið og til dæmis hafi verslunin dyrafodur.is gefið þeim kattamat til að setja í búr ófundnu kattanna í kjölfar fyrrnefnds bruna í Hafnarfirði og auðvelda þannig að finna þá og ná þeim.

Síðan Dýrfinna varð til eru fimm hundar sem leitað hefur verið að ófundnir. Eygló segir mikilvægt fyrir eigendur að dýrin finnist þótt þau séu ekki lengur á lífi. „Það er alltaf erfitt að færa eigendum dýr sem eru ekki á lífi, en á sama tíma er mjög gott að koma dýrinu heim til fjölskyldunnar, sem þarf þá ekki að búa við óvissu um hvað hafi gerst. Að sama skapi er mjög gefandi þegar við finnum dýr og komum þeim heilu og höldnu til eigenda.“

mbl.is