Heimilt að semja um skipti á eignum við slit ÍL-sjóðs

Bjarni Benediktsson, fjármála og efnahagsráðherrra.
Bjarni Benediktsson, fjármála og efnahagsráðherrra. mbl.is/Árni Sæberg

Auka á við hlut Íslands í Þróunarbanka Evrópuráðsins í samræmi við ákvörðun stjórnar bankans fyrir allt að 80 milljónir króna en þetta kemur í liðnum ýmsar heimildir í frumvarpi til fjárlaga 2024 sem kynnt var í morgun.

Fleira kemur fram í frumvarpinu undir sama lið. Heimilt er að færa eignir og fjárfestingarheimildir sem hafa verið nýttar milli málaflokka á þann fjárlagalið sem til stendur að hagnýta eða varðveita tiltekna eign. Sé um að ræða flutning eigna milli A1-hluta í A2-hluta fjárlaga er heimilt að fella niður fjárveitingu og umbreyta í lán eða eigið fé til hlutaðeigandi umsýsluaðila.

Þá er heimilt að kaupa og selja fasteignir milli eignasafna ríkisins sem falla undir A-hluta með láni eða eigin fé enda hafi það ekki áhrif á samstæðu A-hluta ríkissjóðs. 

Þá á að heimila ráðstöfun á losunarheimildum, í samráði við ráðherra loftslagsmála, sem tilheyra íslenska ríkinu í viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir gróðurhúsalofttegunda til móts við loftslagsskuldbindingar íslenska ríkisins.

Einnig er heimild til þess að ganga til samninga um skipti á eignum í tengslum við slit á ÍL-sjóði á grundvelli sérlaga um skuldaskil og slit á sjóðnum ásamt því að gera upp fyrirliggjandi ríkisábyrgð á skuldum ÍL-sjóðs. 

Að lokum er heimild fyrir að undirgangast skuldbindingar fyrir hönd ríkissjóðs vegna útboðs á Ölfusárbrú gegn því að sérstök gjaldtaka fyrir akstur um hana standi undir kostnaði.

mbl.is