Taka við keflinu á endanum

Hákon Arnar Haraldsson lék sinn 13. A-landsleik gegn Bosníu og …
Hákon Arnar Haraldsson lék sinn 13. A-landsleik gegn Bosníu og komst mjög vel frá sínu. Morgunblaðið/Eggert

Íslenska karlalandsliðið í knattspyrnu vann sinn fyrsta leik undir stjórn Norðmannsins Åge Hareide á mánudaginn þegar liðið hafði betur gegn Bosníu í J-riðli undankeppni EM 2024 á Laugardalsvelli, 1:0.

Sigurinn var mikilvægur fyrir íslenska liðið sem hafði á föstudeginum tapað illa fyrir Lúxemborg, 3:1, í Lúxemborg í J-riðli undankeppninnar en íslenska liðið er með sex stig í fimmta og næstneðsta sæti riðilsins, líkt og Bosnía sem er í fjórða sætinu. Portúgal er sem fyrr í efsta sætinu með 18 stig eða fullt hús stiga, Slóvakía kemur þar á eftir með 13 stig, Lúxemborg er með tíu stig í þriðja sætinu og Liechtenstein er án stiga í neðsta sætinu.

Fyrir fram höfðu þjálfarinn og leikmenn íslenska liðsins gert sér vonir um sex stig úr landsleikjaglugganum í september en að endingu urðu þau aðeins þrjú.

Bosnía sterkari aðilinn

„Leikurinn gegn Lúxemborg var ákveðin vonbrigði, sérstaklega úrslitalega séð, og það var því mjög mikilvægt fyrir okkur að ná góðum úrslitum gegn Bosníu,“ sagði Arnar Grétarsson, þjálfari Vals í Bestu deild karla, í samtali við Morgunblaðið þegar hann ræddi frammistöðu íslenska liðsins í leikjunum tveimur.

„Við stóðum okkur ekki nægilega vel gegn Lúxemborg sem var vonbrigði en þar reyndust einstaklingsmistökin okkur ansi dýr. Fáum á okkur klaufalegt víti mjög snemma í leiknum og við það riðlast leikurinn mikið. Við gerum líka mistök í öðru marki Lúxemborgar þar sem miðverðirnir eru of lengi á boltanum og okkur er refsað grimmilega fyrir það. Lúxemborg gerði mjög vel í þeim leik og okkur var í raun refsað fyrir öll einstaklingsmistökin sem við gerðum en heilt yfir var frammistaðan gegn Lúxemborg ekki nægilega góð.

Við unnum okkur vel inn í leikinn gegn Bosníu eftir vonbrigðin í Lúxemborg en það er stundum þannig, þegar leikurinn endar eins og hann gerði, að fólk horfir meira í úrslitin en frammistöðuna. Mér fannst leikurinn gegn Bosníu að mörgu leyti fínn en þegar rýnt er í tölfræðina þá vorum við undir í öllum helstu tölfræðiþáttum. Við sköpum lítið framan af og fyrsta alvörufærið okkar kemur um miðjan seinni hálfleikinn. Fáum svo tvö mjög fín færi til að skora en við getum verið mjög ánægðir með úrslitin í leik þar sem Bosníumenn voru sterkari aðilinn,“ sagði Arnar.

Refsað fyrir öll mistök

Hákon Arnar Haraldsson fór mikinn í báðum leikjunum og þá lék Orri Steinn Óskarsson sína fyrstu A-landsleiki fyrir Ísland.

„Það var gríðarlega mikilvægt fyrir liðið að ná í sigur eftir síðustu leiki en það er líka mikilvægt að rýna í frammistöðuna. Úrslitin skipta alltaf mestu máli í þessum landsliðsfótbolta en ef frammistaðan er ekki góð þá er erfitt að ætla sér að byggja ofan á hana, farandi inn í næstu leiki. Ef við horfum á jákvæðu punktana þá voru margir ungir leikmenn sem stigu upp í þessu landsliðsverkefni og Hákon Arnar Haraldsson var mjög flottur fannst mér. Willum Þór Willumsson kom vel inn í þetta líka gegn Bosníu eftir að hafa átt mjög góða leiki gegn Slóvakíu og Portúgal og Kolbeinn Birgir Finnsson stóð sig mjög vel í vinstri bakverðinum.

Hjörtur Hermannsson komst mjög vel frá sínu gegn Bosníu en við erum með ungt lið og þessir strákar þurfa tíma. Við eigum eitthvað í land ennþá og við þurfum meira sjálfstraust svo menn þori að halda boltanum aðeins betur. Það eru auðvitað mismunandi skoðanir á því hvernig við eigum að spila en við þurfum fyrst og fremst að vera skynsamir í okkar leik og ég myndi persónulega vilja sjá okkur gera meira af því að reyna að halda boltanum betur innan liðsins. Við þurfum líka að fækka mistökunum inni á vellinum því þau eru mjög dýr í landsliðsfótboltanum þar sem þér er refsað fyrir nánast öll mistök.“

Svigrúm til bætinga

Hareide tók við þjálfun íslenska liðsins í apríl á þessu ári og hann hefur því ekki fengið mikinn tíma með liðinu.

„Það er erfitt að átta sig á helstu áherslubreytingum liðsins undir stjórn Hareide ef horft er í þessa fjóra leiki, meðal annars vegna þess að mótherjarnir í þessum fjórum leikjum eru allir mjög ólíkir. Þegar Arnar Þór Viðarsson var með liðið þá sá maður það mjög glögglega að hann vildi pressa mótherjana ofarlega á vellinum og spila út frá aftasta manni. Stundum gekk það vel og stundum gekk það illa. Það tekur tíma að þjálfa leikmenn í hápressu og við sem þjálfum félagslið þekkjum það mjög vel. Við fáum 5-6 æfingar á viku, allan ársins hring, og oft á tíðum er það ekki nóg. Landsliðsþjálfararnir fá aðeins nokkra daga til að þjálfa liðið almennilega þannig að verkefnið er gríðarlega krefjandi og í raun fáránlega erfitt á sama tíma.

Mér finnst liðið ekki fara alveg jafnofarlega á völlinn núna eins og það gerði undir stjórn Arnars. Í nútímafótbolta í dag eru hættulegustu augnablik leiksins þegar þú vinnur boltann og tapar honum. Ég myndi vilja sjá liðið vinna aðeins betur í því að setja góða hápressu af stað þegar við töpum boltanum, það myndi gera það að verkum að það yrði mjög erfitt að spila á móti okkur. Eins og ég kom inn á áðan þá var ágætis jafnvægi á liðinu gegn Bosníu en það er alltaf svigrúm til þess að bæta sig.“

Staðan tekin hverju sinni

Margir úr gullaldarliði Íslands eru að komast á aldur en liðið var án landsliðsfyrirliðans Arons Einars Gunnarssonar í þessu verkefni og þá binda margir vonir við að Gylfi Þór Sigurðsson komi aftur inn í leikmannahópinn þegar hann byrjar að spila aftur með félagsliði sínu Lyngby.

„Mér finnst við þurfa að vega það og meta hverju sinni hvernig leikmennirnir eru að standa sig með sínum félagsliðum. Jóhann Berg Guðmundsson er að spila í ensku úrvalsdeildinni og þá hlýtur hann að geta hjálpað landsliðinu líka. Gylfi hefur ekki spilað fótbolta í tvö ár og hann þarf tíma til þess að koma til baka. Ef hann verður í dúndurformi þá þurfum við að skoða það auðvitað hvað hann mun gefa okkur eða hvort það séu aðrir betri til staðar. Auðvitað er þetta úrslitabransi en við þurfum líka að byggja upp til framtíðar.

Það er alveg ljóst að eldri leikmenn liðsins eiga ekki margar undankeppnir eftir í sér og þetta verður alltaf erfiðara og erfiðara eftir því sem menn eldast. Við þurfum held ég bara að taka stöðuna hverju sinni og sjá á hvaða stað þeir eru með sínum félagsliðum. Það þýðir ekki að velja menn í landsliðið af því að þeir voru einu sinni frábærir fyrir landsliðið, þannig má þetta ekki virka, og þeir þurfa að vera að spila með sínum félagsliðum. Það hjálpar hins vegar mikið að hafa þessa stráka í hópnum, upp á að leiðbeina yngri leikmönnunum, en það styttist í að þessir yngri leikmenn þurfi að taka alfarið við keflinu,“ sagði Arnar Grétarsson í samtali við Morgunblaðið.

mbl.is