Forstjóri Fangelsismálastofnunar segir rétt að hluti fanga á Litla-Hrauni hafi ekki mætt til vinnu eða náms í dag vegna ósættis við fæðisfé, dagpeninga og þóknun fyrir vinnu.
Fangarnir eru ósáttir við nokkur atriði, segir Páll Winkel, forstjóri Fangelsismálastofnunar. Í megindráttum skiptist þetta í tvennt, annars vegar um fæðisfé sem snýr að Fangelsismálastofnun og hins vegar um upphæð dagpeninga og þóknunar fyrir vinnu þeirra, sem snýr að dómsmálaráðuneytinu.
Fæðisfé er það reiknað út frá viðmiðum velferðarráðuneytisins. Páll segir Fangelsismálastofnun hafa hækkað upphæðina í tvígang á þessu ári til þess að halda í við verðbólgu sem hefur verið. Annars vegar 1. janúar og hins vegar um mánaðamótin.
„Við höfum fullan skilning á því að þeir finni líka fyrir því að matvara hefur hækkað, eins og annars staðar í samfélaginu, og við viljum mjög gjarnan gera betur,“ segir Páll sem segir Fangelsismálastofnun gera það sem hún getur, innan heimilda.
Hann segir fangana jafnframt eiga kost á að vinna og þiggja þóknun fyrir það, sem og þóknun fyrir nám.
„Þeir eru ekkert ofaldir hvað varðar fæðisfé, en við greiðum það sem við teljum nauðsynlegt og forsvaranlegt.“
Páll segir ósættið snúast um upphæð dagpeninga og þóknunar fyrir vinnu þeirra. Fangelsismálastofnun geti ekki einhliða breytt eða hækkað upphæðirnar, þar sem þær eru byggðar á reglugerð sem sett er af ráðherra.
Aðspurður segir Páll stofnunina ekki hafa fengið fregnir af málinu fyrr en í gærkvöldi og því sé unnið að því að kortleggja stöðuna og ræða við þá sem málið varðar. Hann getur því ekki sagt til um hvenær þessi tiltekni hópur fanga kemur til með að snúa aftur til starfa.
mbl.is fékk sendan tölvupóst frá fanga sem lagði niður störf í dag. Í tölvupóstinum greinir hann frá því að aðgerðirnar geti haft áhrif á afhendingu nýrra bíla, enda framleiði númeraplötudeild Litla-Hrauns að meðaltali um 280-300 númeraplötur á dag.
Páll gefur lítið fyrir þær áhyggjur og segir aðgerðirnar ekki koma til með að hafa áhrif á afhendingu nýrra bíla.
„Það hefur verið starfsemi í fangelsinu á nokkrum vinnustöðum í dag, þannig að sá hópur vinnur áfram og við erum ánægð með það,“ segir Páll og bætir við að fangaverðirnir muni ganga í verkið ef engin fangi fæst til þess.
„Við vonumst auðvitað til þess að þetta leysist sem fyrst með farsællegum hætti og við höfum fullan skilning á því að þeir hafi ekki mikið á milli handanna.“