Áhugi er á því að hin farsæla björgunarþyrla Íslendinga TF-LIF verði flutt á Flugsafn Íslands á Akureyri og verði þar til sýnis í framtíðinni.
Alls voru það 1.565 manns sem var bjargað eða fluttir í sjúkraflugi með þyrlunni á 25 ára tímabili.
Öldungaráð Landhelgisgæslunnar hefur unnið að því leita leiða til að koma vélinni í safnhæft ástand og flytja hana norður á Akureyri. Á safninu eru nú þegar til sýnis tvær flugvélar sem tengdust Landhelgisgæslunni, þyrlan TF-SIF og Fokker-flugvélin TF-SYN.
TF-LIF kom til landsins 1995 og var í notkun fram til 2020. „Þyrlan á sér mikla sögu og það væri virkilega ánægjulegt ef þessi áform gengju eftir,“ segir Ásgeir Erlendsson upplýsingafulltrúi Landhelgisgæslunnar.
TF-LIF gerði gæfumuninn
Undir þessi orð tekur Benóný Ásgrímsson, fyrrverandi þyrluflugstjóri hjá Landhelgisgæslunni. Benóný flaug vélinni til Íslands 1995 ásamt Páli Halldórssyni og fór í óteljandi björgunar- og sjúkraferðir, sumar við gríðarlega erfiðar aðstæður. Hann tengist því þyrlunni sterkum böndum. „Að Gæslan hafði yfir að ráða TF-LIF gerði að mínu mati gæfumuninn þegar varnarliðið fór 2006 og við Íslendingar þurftum alfarið að taka björgunarflugið yfir,“ segir Benóný.
Að sögn Ásgeirs Erlendssonar var TF-LIF, í samráði við fjármála- og efnahagsráðuneytið, sett í hefðbundið söluferli hjá Ríkiskaupum í byrjun þessa árs. Tilboð voru opnuð 4. maí síðastliðinn. Aðeins barst eitt tilboð, frá sænska fyrirtækinu EX-Change Parts AB. Fyrirtækið bauð 910.000 evrur í þyrluna og varahluti henni tengda. Það jafngildir um 130 milljónum íslenskra króna.
Skrokkurinn skilinn eftir
Jafnframt bauð fyrirtækið tvo kosti; að taka vélina í heild eða koma og fjarlægja úr henni þá vélarhluta sem fyrirtækið vildi nýta og skilja skrokkinn eftir í þannig ástandi að hægt væri að setja hann á safn, ef áhugi væri fyrir því.
„Flugsafnið á Akureyri hafði þá þegar sýnt áhuga á að fá vélina til sín og eftir samráð við safnið var ákveðið að þiggja síðarnefnda kostinn. Fulltrúar fyrirtækisins komu til landsins í ágúst og fjarlægðu úr henni þá parta sem nýttir verða. Skrokkurinn er nú í flugskýli Landhelgisgæslunnar og vonir standa til þess að hann verði fluttur norður á flugsafnið,“ segir Ásgeir.
Fjórir félagar í öldungaráði Landhelgisgæslunnar hafa haft forgöngu í þessu máli, flugstjórarnir Benóný Ásgrímsson og Páll Halldórsson, Halldór B. Nellett skipherra og Gylfi Geirsson sprengjusérfræðingur.
„Öldungaráðið, sem er félagsskapur fyrrverandi starfsmanna Lanhelgisgæslu Íslands, hefur áhuga á að að koma þyrlunni TF-LIF á Flugsafn Íslands á Akureyri,“ segir í upphafi bréfs sem fjórmenningarnir sendu á valda viðtakendur í mars sl.
Í bréfinu kemur fram að þyrlan TF-LIF hafi verið framleidd árið 1986 og keypt hingað til lands 1995. Hún hafi verið í stanslausri þjónustu Landhelgisgæslunnar út árið 2019 og valdið byltingu í björgunargetu stofnunarinnar. Á þessu tímabili hafi fjölmörg björgunarverkefni verið framkvæmd með þyrlunni, þar sem fólk var m.a. híft upp í hana frá skipum og bátum eða beint af sjó. Þá hafi þyrlan farið fjölmörg sjúkraflug, þar sem ekki var hægt að nota önnur tæki. Alls eru það 1.565 manns sem hefur verið bjargað eða fluttir með þyrlunni á tímabilinu.
„Á meðal eftirminnilegra björgunarverkefna TF-LIF má nefna björgun ms. Dísarfells eftir að skipinu hvolfdi milli Íslands og Færeyja og björgun áhafnar ms. Vikartinds er skipið var að reka upp í fjöru austan Þjórsár.“
Einstakur sess í sögunni
Fjórmenningarnir segja að sér sé kunnugt um að sams konar þyrlur hafi verið settar á söfn í Svíþjóð eftir að hlutir sem hægt var að selja voru fjarlægðir, en í staðinn útvegaðir ónothæfir sams konar hlutir. „Við teljum að þyrlan TF-LIF eigi sér svo einstakan sess í björgunarsögunni að allt verði að gera til að þyrlan verði varðveitt,“ eru lokaorð félaganna í bréfinu.
Ekki liggur fyrir hver kostnaðurinn gæti orðið við að útvega varahluti og koma vélinni í safnhæft ástand. Framlög frá velviljuðum aðilum væru vel þegin. Landhelgisgæslan féllst á að geyma þyrluna uns lyktir fást í þessu máli.
Fáðu þér áskrift til að lesa áfram
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu,
rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki
á mbl.is.