Kemur sjálfri sér á óvart

Sara Árnadóttir fann sig ekki í ræktinni en þegar hún …
Sara Árnadóttir fann sig ekki í ræktinni en þegar hún byrjaði að æfa utanvegahlaup og sund kviknaði eitthvað innra með henni. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Sara Árnadóttir, hugbúnaðarverkfræðingur og ævintýrakona, æfir þríþraut en það gerir hún ekki síst vegna þess að henni finnst gaman að setja sér markmið og ögra sjálfri sér. Í krefjandi aðstæðum skiptir máli að vera með hausinn rétt skrúfaðan á.

Sara, sem æfði fótbolta þegar hún var yngri, fór að hreyfa sig minna þegar hún flutti frá Selfossi í bæinn til að fara í háskóla. „Þá tók skólinn og lífið yfir og ég hætti í skipulögðum íþróttum. Þá fór ég að mæta í ræktina að gera bara eitthvað eins og margir gera. Það skilaði auðvitað ekki árangri og enginn hvati til að mæta. Það er lítið félagslegt að mæta á æfingar með heyrnartól og tala ekki við neinn, og erfitt að hafa það markmið að líta betur út,“ segir Sara sem fann sig seinna í hlaupum, hjólreiðum og sjósundi.

Hvernig byrjar maður allt í einu að æfa fyrir hálfan Ironman?

„Ég man eftir að hafa heyrt um Ironman þegar ég var yngri, og langaði alltaf að prófa þetta því þetta var svo mikil áskorun. Ég byrjaði að hlaupa vorið 2020 í utanvegahlaupum þegar Kristrún vinkona mín fékk mig til að koma með sér Laugaveginn það sumar. Eftir það tók ég góða pásu í hlaupum og skráði mig á sundnámskeið hjá Ægi. Ég mæli mikið með því, þar lærði ég að synda. Það var síðan um jólin 2021, þegar Bríet vinkona mín sagði mér að hún ætlaði að fara í hálfan járnkarl á Ítalíu, að ég ákvað að slást í för. Ég bjó þá að sundnámskeiðinu og ákváðum við vinkonur að skrá okkur í Ægi. Það var mikið gæfuspor. Þar var tekið virkilega vel á móti okkur og mér fannst ég aftur finna samfélag eins og var í fótboltanum áður fyrr. Þar hef ég lært ótalmargt af mörgum, enda margt að læra.

Annars var pínu erfitt að taka skrefið í þríþrautina því ég átti ekki allar græjur, eins og gott hjól og fleira. Það var alls ekki vandamál því það er ekki gert ráð fyrir að maður eigi allt þegar maður byrjar og ég er ennþá að græja mig upp, það er nóg á óskalistanum. Svo er maður alltaf pínu hræddur við sundið, en það kemur allt og ég er enn að læra að elska að synda með mörgum á braut.“

Sara Árnadóttir hleypur, syndir og hjólar.
Sara Árnadóttir hleypur, syndir og hjólar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Nánast alltaf betra að taka æfingu

Eftir að Sara byrjaði að æfa allar þrjár greinarnar hefur hún kynnst skemmtilegum hópi fólks. „Það er virkilega góður félagsskapur, mikil hvatning og fólk sem hrífur mann með. Núna eru margir hverjir úr sportinu orðnir mínir bestu vinir. Það er mjög hvetjandi, því eins og einhver sagði verður maður meðaltal af fólkinu sem maður eyðir mestum tíma með. Þessi félagsskapur er búinn að normalísera alls konar afrek eins og að synda í margar klukkustundir, hjóla á milli landshluta, hlaupa nokkur maraþon og upp á fjöll og firnindi. Svo er félagsskapurinn oft metnaðarfullur á öðrum sviðum í lífinu, sem er mjög drífandi.“

Hvaðan færðu drifkraftinn til að mæta á æfingar og keppa?

„Mér finnst þetta svo gaman, maður hefur lært með tímanum að það er nánast alltaf betra að taka æfingu en sleppa henni. Það er svo gott fyrir líkama og sál að hreyfa sig aðeins, maður getur bara gert aðeins minna ef maður er ekki í stuði. Æfingar eru í formi göngutúra og allt upp í 15 kílómetra tempóhlaup hringinn í kringum Laugardalsvöllinn.

Yfirleitt hefur það verið eitthvert markmið sem hefur dregið mig áfram í æfingum, til dæmis að setja í dagatalið fjallgöngu, ævintýri eða einhverja keppni. Þetta verður einhvers konar hringrás, þú æfir af því að þú ert að fara í keppni og skráir þig í keppni til að ýta undir æfingar. Maður þarf bara að taka skrefið og ganga inn í lúppuna og þá helst þetta bara rúllandi og maður fer að sjá árangur. Með keppnirnar eru þær svo skemmtilegar eftir á, sérstaklega ef manni gengur vel. Oft nær maður að koma sér á óvart. Svo eykst drifkrafturinn þegar maður fer að sjá árangur.“

Mæting er bæting

Stendur eitthvað upp úr?

„Það er svo margt, ég fór í Viðeyjarsundið nýlega sem var virkilega gaman. Þvílík stemning í sjósundsheiminum. Svo finnst mér voða gaman að fara út að hjóla, hjólaði mína fyrstu 100 kílómetra um daginn, lengri leiðina frá Reykjavík á Selfoss. Nokkuð sem mér hefði ekki dottið í hug fyrir ári. Magnað að horfa á kortið á Strava og sjá hvað hægt er að ferðast langt á hjóli. Normið hefur breyst mikið, því fyrir stuttu fannst mér Reykjavíkurhringurinn svo langur, en núna er það ekkert mál. Sem og að synda í sjónum, ég átti svo erfitt með að fara með hausinn ofan í en núna get ég synt skriðsund í sjónum og finnst það bara huggulegt. Eitt ráð er að feika bros undir sjávarmálinu ef manni líður illa og þá verður allt aðeins betra.

Annars eru allar keppnir skemmtilegar sem ég hef tekið þátt í, og held ég að Dyrfjallahlaupið og Kópavogsþríþrautin standi upp úr núna í sumar. En heilt yfir var hálfi járnkarlinn á Ítalíu í fyrra toppurinn, gott veður og ég tók stórt skref út fyrir þægindarammann.“

Sara kann vel við sig í sjónum.
Sara kann vel við sig í sjónum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Hefurðu mætt einhverjum hindrunum eða áskorunum?

„Ég hef verið mjög heppin með meiðsli og ekki glímt við neitt alvarlegt, auðvitað eðlilegt að lenda í einhverju og þá hefur maður bara þurft að hvíla sig og það getur reynst erfitt þegar maður er með eitthvert markmið eða er að missa af skemmtilegri útivist með vinum. Annars hefur andlega hliðin stundum verið pínu áskorun, þá finnst mér hreyfingin og að drífa mig út í náttúruna og hitta góða vini hjálpa gífurlega.“

Hvað hugsar þú um þegar þú ert að taka erfiðar æfingar eða jafnvel í erfiðum keppnum og langar helst bara að gefast upp?

„Það var nú bara seinast í Reykjavíkurmaraþoninu sem ég fékk í magann og það var svo erfitt að halda áfram, ég grét aðeins á leiðinni líka. Þá tekur maður bara 50 metra í einu og hugsar hvað það verður næs að komast í mark og hitta vinina. Maður hefur líka hlustað á sögur frá okkar fremsta íþróttafólki, að þau þjáist líka, þá horfir maður í kringum sig og hugsar; það líður öllum illa.“

Seturðu þér markmið?

„Já, aðallega að mæta. Ég setti mér markmið að mæta í öll Powerade-hlaupin, öll FH-hlaupin, allar íslenskar þríþrautir og fleiri hlaup. Það hefur skilað sér í bættum árangri. Mæting er bæting, það er bara næg áskorun til að byrja með finnst mér.“

Hefur aukið sjálfstraustið

Sara segir æfingarnar gott mótvægi við vinnuna en hún starfar í krefjandi vinnu sem forritari auk þess sem hún er að stofna sprotafyrirtæki. Í íþróttunum fær líkaminn útrás en stundum þarf hún að forgangsraða. „Maður þarf oft að fórna samfélagsmiðla- og sjónvarpstíma. Svo mæta heimilisstörfin oft afgangi. Núna finnst mér mjög auðvelt að forgangsraða hreyfingu, maður getur líka blandað hreyfingunni saman við eitthvað annað. Hitta vini og vinkonur í sundi eða í fjallgöngu, og horft á sjónvarpið á hjólinu. Ég fer kannski að taka þvottinn með mér í sund bara.“

Finnst þér þú hafa eflst sem persóna við að taka þátt í erfiðum keppnum?

„Já, þetta hefur aukið sjálfstraustið til muna. Það hefur hjálpað mér að sjá hvað ég er fær um að yfirstíga og sigrast á. Það að klára sig af í keppni eða á erfiðri æfingu gefur manni svo mikið,“ segir Sara.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: