Aldur og galdur eru af sama meiði sagði Baldur við Konna

Morgunblaðið/Eggert

Íslendingar fylgjast ekki endilega með bandarískum stjórnmálum af verulegum áhuga. Flestir þeirra láta sér nægja að kíkja létt undir yfirborðið. Enda er nálgunin við hana mjög ólík því sem við eigum að venjast. Íslenskir stjórnmálamenn þykjast góðir ef þeir geta ýtt sæmilega við íslenskum kjósendum, þegar aðeins eru 6-8 vikur til kosninga. Þegar tæp tvö ár eru til forsetakosninga vestra og annarra kosninga sem því fylgja dæsa þeir þar yfir því, að nú sé þetta allt að skella á. Reyndar hefur þátttaka í íslenskum kosningum farið minnkandi og hefur hún þó löngum verið mun betri en gerist og gengur í þeim bandarísku. Ekki er augljóst hvers vegna það hefur gerst. En ein líkleg skýring er sú, að fólkið í landinu hefur áttað sig á því, að valdið hefur verið fært í algjöru heimildarleysi til Brussel og Alþingi lætur eins og það sé sjálft á kafi við lagasetningu þegar það stimplar ólesna og vafasama texta frá þeim þar syðra. Alþingismenn gera allt slíkt í leyfisleysi.

Lítum um stund til vesturs

Þar er kosið til ríkisþinga, sem eru spegilmynd bandaríska þjóðþingsins, og á sex ára fresti eru kosnir „forsetar“, ríkisstjórar, í sömu ríkjum, og er þriðjungur þeirra kosinn á tveggja ára fresti. Ríkisstjórarnir eru allvoldugir menn, hver í sínu ríki, og sjaldnast næst upp einhver sérstök spenna á landsvísu vegna þeirra kosninga. Mætti ætla að slík spenna næðist upp varðandi kjör öldungadeildarþingmanna og fulltrúadeildarmanna á þjóðþinginu í Washington. En það gerist sjaldnast, nema þá að tæpt sé hvor meginflokkur kunni að ná eða halda meirihluta í öldungadeild eða fulltrúadeild. Ástæðan fyrir litlum áhuga á persónum á kjördag er annars vegar að forsetakjör er yfirþyrmandi þann dag og svo hitt að prófkjör flokkanna sker úr um hverjir verða í framboði fyrir flokkana tvo og til hvorrar deildar fyrir sig og vinni sitjandi þingmaður það prófkjör, sem oftast er, þá eru yfirgnæfandi líkindi á að hann vinni andstæðinginn í kosningunum sem eru samhliða forsetakosningunum.

Nú hittist svo á, að þeir tveir, sem fram til þessa virðast líklegastir til að verða í framboði til forseta, Joe Biden forseti og Donald Trump fyrrverandi forseti, þykja vera nokkuð við aldur, þótt dálítill munur sé á. Biden er fáeinum árum eldri, en mörgum þykja óþægileg elliglöp farin að veikja hann og áberandi er að ónafngreindir aðstoðarmenn hans gera allt sem þeir geta til að koma í veg fyrir að blaðamenn komist að forsetanum, nema þeir séu algjörlega „vinsamlegir“ honum svo ekki sé meira sagt. Fyrrnefndar reglur um kjör til þingdeilda þjóðþingsins skapa skilyrði til þess að þingmenn sitji lengi í sínum stól þar, enda eru þeir fjarri því að vera eins áberandi og forsetinn er, á hverjum tíma. Mörg dæmi eru um þingmenn sem verða níræðir eða mun eldri eins og Strom Thurmond sem var senator þar til hann varð 100 ára og 29 daga! Og nokkrir þingmenn eru vel við aldur nú, 90 ára eða eldri, og fyrrverandi forseti fulltrúadeildar, Nancy Pelosi, sem er 83 ára, hefur nýlega tilkynnt að hún muni bjóða sig fram á ný 2024, enda eigi hún mikið eftir að eigin sögn. Það er í sjálfu sér ekki aldurinn sem skiptir öllu máli á slíkum stað heldur geta viðkomandi og eins að aldursdreifing sé skikkanleg.

Í gær kom það enn einu sinni upp fyrir allra augum að Joe Biden rataði ekki úr ræðupúltinu að lokinni ræðu sinni og benti fram og til baka á meðan hann var að gera það upp við sig hvernig hann kæmist burt. Var það allt mjög pínlegt eins og nærri má geta. „The mainstream media“ eru beinir og óbeinir samstarfsaðilar að sjónvarpsrekstri sem spila algjörlega saman með demókrötum á vettvangi stjórnmálanna og er sláandi að þeir hika ekki við að nýta allir sömu talpunktana svo blasir við öllum. Þarna eru CNN, NBC, CNBC, CBS og ABC og blöð eins og NYT og Washington Post. Hinum megin eru til dæmis FOX og Wall Street Journal.

Vilja mörk

Upp á síðkastið hefur aðeins borið á kröfum um að setja verði reglur um efri aldursmörk vegna kjörgengis, og eru dæmin um Biden sjálfsagt hvatningin, þótt sumir nefni Trump og Ronald Reagan einnig í framhjáhlaupi. En þær vangaveltur fá ekki miklar undirtektir. Fyrir það fyrsta þá er við stjórnarskrána að eiga í þeim efnum. Það er auðvitað hægt að breyta stjórnarskrá, en það er ekki hlaupið að því. En svo benda menn á, að þótt einn flokkur leggi til frambjóðanda, sem bersýnilega hefur ekki getu eða styrk til að ráða við forsetaembættið, þá eru það milljónir manna á öllum aldri sem geta það ekki heldur og flokkarnir sjá um að bjóða ekki slíka fram, þótt stundum hafi slíkt staðið tæpt. Og þótt Biden eigi erfitt með vegna síns aldurs er það fremur undantekning en regla. Og nú þegar flokkur hans sér hvernig komið er, þá er að verða næsta augljóst, að þeir munu ekki bjóða hann fram á ný, nema neyddir. Það varð fyrst ljóst í lok síðustu viku, þegar við blasti að allir helstu fjölmiðlar demókrata eru að koma sér upp sömu talpunktunum í þeim efnum.

Nú er veðjað á, að ekki síðar en í kringum þakkargjörðardaginn 23. nóvember muni menn þar á bæ líklega hafa gengið frá þeirri breytingu þótt útsauminn vanti enn. Vandinn er sá, að almennt álit Bandaríkjamanna er að Kamala Harris varaforseti sé fjarri því að vera fær um að taka við kyndlinum af Biden og það hefur ekkert með aldur hennar að gera. Aðeins hæfi. Aldur forseta hefur ekki verið vandi fyrr en nú (þótt reynt sé í áróðri að nefna Reagan, einn vinsælasta forseta allra tíma, og Trump til sögu) og svo hafa raunar bæst við önnur og alvalegri efni tengd framgöngu Joes Bidens og allrar fjölskyldu hans, sem lengi hefur verið þráfaldur orðrómur um, og ótrúlega iðni og ósvífni hennar við að sanka að sér vafasömu fé, frá vafasömum öflum erlendra ríkja. Nú virðist augljóst að talpunktar „the mainstream media“ hafi nú þegar verið samræmdir og inntak þeirra sé að gefa verði Biden færi á að hverfa úr embætti með sæmilegri reisn, sé það fær leið.

Aldur þeirra 10 elstu í hópi forseta

Aldur forseta hefur ekki verið vandi fram til þessa. Það sést þegar horft er á aldur seinustu 10 forseta Bandaríkjanna, þegar þeir töku við völdum. Þá er augljóst að aldur þeirra hefur aldrei verið vandi, fyrr en hugsanlega nú.

1) Joe Biden var 78 ára og tveggja mánaða þegar hann sór eið sem forseti.

2) Donald Trump var 70 ára og sjö mánaða þegar hann sór eið sem forseti.

3) Ronald Reagan var 69 ára og 11 mánaða þegar hann sór eið sem forseti.

4) William Harrison var 68 ára og 24 daga þegar hann sór eið sem forseti og lést einum mánuði síðar vegna kulda og flensu.

5) James Buchanan var 65 ára og 10 mánaða þegar hann sór eið sem forseti.

6) George H.W. Bush var 65 ára og 10 mánaða þegar hann sór eið sem forseti.

7) Zachary Taylor var 64 ára og þriggja mánaða þegar hann sór eið sem forseti.

8) Dwight D. Eisenhower var 62 ára og þriggja mánaða þegar hann sór eið sem forseti.

9) Andrew Jackson var 61 árs og 11 mánaða þegar hann sór eið sem forseti.

10) John Adams var 61 árs og fjögurra mánaða þegar hann sór eið sem forseti.

Sá seinasti sem þarna er nefndur til sögu var annar forseti Bandaríkjanna. Þegar hugsað er til þess, hversu mun langlífari og hressari að meðaltali íbúar þróaðra ríkja verða nú, þá virðist með öllu óþarft, þegar horft er til þessara 10 „elstu“ forseta af 46, að breyta stjórnarskránni út af Biden einum. Forsetinn, hver sem hann er, hefur varaforseta nærtækan, handvalinn af honum sjálfum, svo þar kemur maður í manns stað ef óhjákvæmilegt er að skipta um efst í brúnni á kjörtímabili. Varaforsetinn kemur ekki síst til ef forsetinn er ófær um að gegna sínum starfa um lengri eða skemmri tíma. Stundum geta menn verið heppnir með varaforseta, stundum síður, rétt eins og gerist með forseta sjálfa þegar reynsla kemur á þá. Harry S Truman hafði aðeins átt eitt sæmilegt samtal við Roosevelt forseta, þegar honum var tilkynnt að forsetinn væri allur og hann væri nú forseti. Truman reyndist um margt hinn prýðilegasti forseti. Lyndon Johnson varð forseti þegar John F. Kennedy var myrtur í heimaríki Johnsons. Leyndarskjölin um það morð hafa enn ekki verið birt, nú 60 árum síðar, en Trump hefur lofað að birta þau þegar í stað, verði hann kjörinn forseti á ný.

Óvæntur varaforseti

Það ríkti skrítið og dularfullt ástand eftir að Woodrow Wilson forseti fékk slag og varð í raun ófær um að gegna embætti sínu. En þá komst kona hans upp með það, að taka við skilaboðum og spurningum úr kerfinu, um ákvarðanir forsetans, og bera hans svör og ákvarðanir til baka, án þess að „kerfið“ efaðist, og stjórnaði þannig Bandaríkjunum algjörlega umboðslaus, þar til kjörtímabil forsetans var liðið. En hvar var varaforsetinn? Hann neitaði að grípa inn í nema boð eða kröfur kæmu um það frá forsetanum eða öðrum réttum aðilum. Og þau boð komu ekki! Forsetinn hafði fengið vægt „slag“ 25. september 1919 og svo mun verra áfall um viku síðar. Hann féll þá á gólfið og Edith Bolling Galt Wilson, kona hans, dró hann inn í rúm og lét kalla á líflækni forsetans, og án þess að geta þess við nokkurn annan. „Guð minn góður,“ sagði læknirinn, þegar hann kom í hús. „Forsetinn er lamaður.“ Næstu tvö árin stjórnaði Edith Wilson forsetafrú Bandaríkjunum með því að „færa forsetanum skjöl og spurningar og bregðast við þeim „fyrir hans hönd““, og stjórnaði því Bandaríkjunum í tvö ár, eða allt þar til 21. mars 1921, þegar kjörtímabil forsetans (og þar með hennar) rann út.

Edith Bolling Galt Wilson var sögð sannarlega afkomandi indíánans fræga Pocahontas og þar birtist kannski óvænt réttlæti Bandaríkjanna með því að afkomandi Pocahontas indíánahöfðingja fór um tveggja ára skeið með alræðisvald í landinu.

Ekki fór svona illa í þetta sinn vegna hás aldurs forsetans, því að hann var aðeins 63 ára gamall þegar hann veiktist svona illa.

mbl.is