Sakar Svandísi um sýndarsamráð

Örvar Marteinsson, formaður Sambands smærri útgerða, segir fyrirhugað samráð um …
Örvar Marteinsson, formaður Sambands smærri útgerða, segir fyrirhugað samráð um tillögur um breytingar á fiskveiðistjórnunarkerfinu vera sýndarsamráð. mbl.is/Árni Sæberg

„Helstu niður­stöðurn­ar eru í raun all­ar til skaða fyr­ir litl­ar og meðal­stór­ar út­gerðir,“ full­yrðir Örvar Marteins­son, formaður sam­taka Smærri út­gerða, um til­lög­ur starfs­hópa verk­efn­is­ins Auðlind­in okk­ar í aðsendri grein í Morg­un­blaðinu á laug­ar­dag.

Hann seg­ir í grein sinni að ljóst sé að vinn­an sem leggja á til grund­vall­ar frum­varps Svandís­ar Svavars­dótt­ur mat­vælaráðherra um ný heild­ar­lög um stjórn fisk­veiða hafi verið „sýnd­ar­sam­ráð“.

Í maí síðasta ári var stefnu­mót­un­ar­verk­efnið Auðlind­in okk­ar hrint af stað af Svandísi sem skipaði fjóra starfs­hópa með fimm ein­stak­ling­um í hverj­um hóp, sjö manna verk­efna­stjórn og 27 manna sam­ráðsnefnd með full­trú­um hagaðila, stjórn­mála­flokka á Alþingi og for­mönn­um starfs­hópa.

Fengu ekki að fjalla um til­lög­urn­ar

End­an­leg­ar til­lög­ur starfs­hóp­anna um breyt­ing­ar á fisk­veiðistjórn­un­ar­kerf­in voru kynnt­ar 29. ág­úst og var sama dag birt í sam­ráðsgátt sytjórn­valda áform um laga­setn­ingu á grund­velli til­lagna hóp­anna.

„Svo­kölluð sam­ráðsnefnd fær hins veg­ar ekki að fjalla um niður­stöðurn­ar fyrr en 20. sept­em­ber næst­kom­andi en ráðherra er þó þegar bú­inn að lýsa yfir fyr­ir­ætl­un­um sín­um um laga­setn­ingu. Merki­legt sam­ráð það!“ skrif­ar Örvar.

„Und­ir­ritaður hef­ur tekið þátt í svo­kölluðum sam­ráðshópi sem full­trúi Sam­taka smærri út­gerða, sem sam­an­standa að lang­stærst­um hluta af út­gerðum króka­leyf­is­báta, en hef­ur einnig lagt sig fram um að tala máli annarra lít­illa og meðal­stórra út­gerða, sem eru fyrst og fremst fjöl­skyldu­fyr­ir­tæki í sjáv­arþorp­um um allt landið. Okk­ar til­lög­ur og at­huga­semd­ir hafa ekki síst gengið út á að bæta rekstr­ar­grund­völl króka­leyf­is­báta, m.a. með auknu veiðarfæra­frelsi, og að verja stöðu fjöl­skyldu­fyr­ir­tækj­anna. Í stuttu máli virðist ekk­ert hafa verið hlustað, hvorki á okk­ur né aðra hags­munaaðila.“

Óánægja víðar

Orð Örvars eru í takti við af­stöðu Lands­sam­band smá­báta­sjó­manna, Strand­veiðifé­lag Íslands og Sam­tök fisk­fram­leiðenda og -út­flytj­enda sem sendu frá sér yf­ir­lýs­ingu 3. sept­em­ber þar sem vinnu­brögð ráðherra voru sögð „forkast­an­leg“.

Hörmuðu sam­tök­in að skýrsla starfs­hóp­anna hefði verið kynnt sem og áform um laga­setn­ingu án þess að vinna starfs­hóp­anna hefði verið kynnt í sam­ráðsnefnd­inni.

Árás á ein­yrkja og fjöl­skyldu­fyr­ir­tæki

„Lagt er til að leggja af svo­kallaða línuíviln­un, m.a. á þeim fölsku for­send­um að hún hafi ekki verið full­nýtt. Króka­leyf­is­bát­ar eru bundn­ir mikl­um laga­leg­um tak­mörk­un­um. Þeir mega ein­göngu veiða á króka, þ.e. á línu eða hand­færi, og geta því ekki notað þau veiðarfæri sem eru hag­kvæm­ust á hverj­um árs­tíma auk þess sem línu­út­gerð er mjög kostnaðar­söm. Aug­ljóst er að af­nám línuíviln­un­ar mun hraða samþjöpp­un afla­heim­ilda í króka­afla­marks­kerf­inu enn frek­ar,“ skrif­ar Örvar.

Hann bend­ir einnig á að fyr­ir­huguð hækk­un veiðigjalda muni bitna hlut­falls­lega þyngra á litl­ar og meðal­stór­ar út­gerðir, sér­stak­lega króka­afl­marks­út­gerðir vegna veiðarfæra­tak­mark­anna sem þær út­gerðir búa við.

Bend­ir hann á að í skýrslu starfs­hóp­anna seg­ir að sannað hafi verið að álagn­ing veiðigjalda leiði til samruna fyr­ir­tækja í grein­inni og er af­leiðing þess stærri og færri út­gerðir. Örvar seg­ir því ljóst að til­laga ráðherra sé „enn eitt skref að auk­inni samþjöpp­un. Enn ein árás­in á ein­yrkj­ana og fjöl­skyldu­fyr­ir­tæk­in sem sjáv­arþorp­in eru byggð á.“

„Til að kór­óna þess­ar fyr­ir­ætlan­ir, þar sem lok­aniðurstaðan er að verða aug­ljós, er lögð til hækk­un á kvótaþak­inu handa þeim fyr­ir­tækj­um sem skrá sig á hluta­bréfa­markað. Slík ráðstöf­un gagn­ast aug­ljós­lega ein­göngu þeim allra stærstu, en skaðar enn frem­ur sam­keppn­is­stöðu lít­illa og meðal­stórra fyr­ir­tækja í sam­keppn­inni um afla­heim­ild­ir. Er þetta til þess fallið að auka sátt um sjáv­ar­út­veg?“ spyr hann.

Línuveiðar eru kostnaðarsamar að sögn Örvars.
Línu­veiðar eru kostnaðarsam­ar að sögn Örvars. mbl.is/​Krist­inn Bene­dikts­son

Eng­in sátt

Þá gagn­rýn­ir hann einnig til­lögu Svandís­ar um að hefja til­raun­ir með upp­boð afla­heim­ilda sem hingað til hafa verið ráðstafað línuíviln­un og al­menn­um byggðakvóta. Bent er á að í skýrslu starfs­hóp­anna hafi verið varað við þess­ari leið og að hún hafi reynst illa. Fjár­sterk­ustu fyr­ir­tæk­in hafi getað fest kaup á afla­heim­ild­um á kostnað þeirra smærri.

„Það eru nú meiri öf­ug­mæl­in þegar ráðherr­ar segj­ast standa með byggðunum í land­inu eða þegar þeir þykj­ast hafa áhyggj­ur af samþjöpp­un afla­heim­ilda. Þessi veg­ferð er aug­ljós. Um hana verður eng­in sátt,“ seg­ir Örvar að lok­um.

Lesa má grein Örvars hér.

mbl.is