69% studdu ekki aðgerðir hvalveiðimótmælenda

Mótmælandi í mastri hvalveiðiskipts Hvals hf.
Mótmælandi í mastri hvalveiðiskipts Hvals hf. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Meiri­hluti aðspurðra seg­ist ekki hafa stutt aðgerðir mót­mæl­enda sem hlekkjuðu sig við möst­ur tveggja skipa Hvals hf. í Reykja­vík­ur­höfn í byrj­un mánaðar­ins.

Þetta kem­ur fram í nýj­um Þjóðar­púlsi Gallup, en 31% sögðust hafa stutt aðgerðirn­ar en 69% að þau styddu ekki aðgerðirn­ar. Mark­tæk­ur mun­ur er á af­stöðu fólks eft­ir aldri, bú­setu, mennt­un og stjórn­mála­skoðun.

Tals­vert minni andstaða var við mót­mæl­in í hópi yngra fólks, en 43% fólks yngra en 40 ára sögðust styðja aðgerðirn­ar. Þegar horft er til ald­urs­hóps­ins 60+ var stuðning­ur­inn hins veg­ar aðeins 18%.

Mun fleiri íbú­ar höfuðborg­ar­svæðis­ins voru já­kvæðir gagn­vart mót­mæl­un­um, en 36% þeirra sögðust styðja aðgerðirn­ar á meðan 21% íbúa lands­byggðar­inn­ar sögðust þeirr­ar skoðunar. Þá var stuðning­ur við þær meiri eft­ir því sem mennt­un jókst, en 22% þeirra sem höfðu mest klárað grunn­skóla­próf studdu aðgerðirn­ar, 30% þeirra sem höfðu mest klárað fram­halds­skóla­próf, en 41% hjá þeim sem höfðu lokið há­skóla­prófi.

Hvalveiðimótmæli fyrir framan hvalveiðibátana í Reykjavíkurhöfn.
Hval­veiðimót­mæli fyr­ir fram­an hval­veiðibát­ana í Reykja­vík­ur­höfn. mbl.is/​Eyþór

Þegar horft er til stjórn­mála­skoðana fólks sést að stuðning­ur­inn við aðgerðirn­ar var mest­ur á meðal kjós­enda Pírata, en 75% þeirra sögðust styðja aðgerðirn­ar. Stuðnings­fólk Sósí­al­ista­flokks Íslands var líka lík­legt til að styðja þær,eða 71% aðspurðra og 57% kjós­enda Sam­fylk­ing­ar­inn­ar. Minna en helm­ing­ur stuðnings­fólks annarra stjórn­mála­flokka studdi aðgerðirn­ar. Fæst­ir voru þeir hjá Miðflokkn­um, eða 1% og hjá Sjálf­stæðis­flokkn­um þar sem 5% studdu aðgerðirn­ar. Þá studdu 7% stuðnings­manna Fram­sókn­ar­flokks­ins aðgerðirn­ar.

mbl.is