Segir Rússa beita hatrinu sem vopni

Selenskí sakaði Rússa um þjóðarmorð í ræðu sinni á allsherjarþingi …
Selenskí sakaði Rússa um þjóðarmorð í ræðu sinni á allsherjarþingi SÞ í New York í gær. AFP/Michael M. Santiago

Volodimír Selenskí, for­seti Úkraínu, skoraði í gær á ríki heims að standa sam­an gegn þjóðarmorði Rússa í Úkraínu í ávarpi sínu á alls­herj­arþingi Sam­einuðu þjóðanna. Sagði Selenskí brýnt að inn­rás­in yrði stöðvuð á for­send­um Úkraínu­manna, og að öll ríki hefðu ávinn­ing af því að full­veldi Úkraínu yrði tryggt.

Selenskí gagn­rýndi Rússa harka­lega í gær og sakaði þá um þjóðarmorð, þar sem þeir hefðu rænt hundruðum þúsunda úkraínskra barna og flutt til Rúss­lands. Þar væri þeim börn­um kennt að hata föður­land sitt á sama tíma og öll tengsl þeirra við fjöl­skyld­ur sín­ar væru rof­in. „Og það er aug­ljós­lega þjóðarmorð þegar hatr­inu er breytt í vopn gegn einni þjóð.“

Selenskí for­dæmdi einnig til­raun­ir Rússa til þess að setja hafn­bann á út­flutn­ings­vör­ur Úkraínu og árás­ir þeirra á hafn­ar­borg­ir sín­ar. Sagði hann að Rúss­ar hefðu reynt að víg­væða mat­ar­skort á al­heims­markaði til að reyna að tryggja sér viður­kenn­ingu á yf­ir­ráðum sín­um yfir her­numdu svæðunum. „Rúss­ar hafa skotið upp mat­ar­verðinu sem vopn­um.“

Ekki hægt að treysta Pútín

Selenskí varaði einnig við því að þjóðarleiðtog­ar reyndu að leita samn­inga við Vla­dimír Pútín Rúss­lands­for­seta um ör­lög Úkraínu. „Ég veit af til­raun­un­um til þess að gera ein­hverja skugga­lega samn­inga á bak við tjöld­in,“ sagði Selenskí. „Það er ekki hægt að treysta illsk­unni. Spyrjið Prigó­sjín hvort hægt sé að veðja á lof­orð Pútíns,“ sagði Selenskí.

Vísaði Selenskí þar til flug­slyss­ins í Rússlandi í síðasta mánuði þar sem Jev­gení Prigó­sjín, leiðtogi Wagner-hóps­ins, fórst ásamt nokkr­um helstu sam­starfs­mönn­um sín­um, en al­mennt er talið á Vest­ur­lönd­um að um hefnd Pútíns hafi verið að ræða fyr­ir upp­reisn­ar­tilraun Wagner-liða í júní síðastliðnum.

Joe Biden Banda­ríkja­for­seti ávarpaði alls­herj­arþingið fyrr um dag­inn og for­dæmdi þar inn­rás­ina harka­lega. Sagði hann að alls­herj­arþingið væri nú haldið und­ir „dimm­um skugga stríðs“ og að Rúss­ar væru að gera heim­inn óör­ugg­ari, m.a. þegar kæmi að af­vopn­un­ar­mál­um.

Biden talaði einnig gegn hug­mynd­um um að láta und­an Rúss­um og sagði að ekk­ert ríki gæti verið ör­uggt um sjálf­stæði sitt ef alþjóðasam­fé­lagið leyfði það að Úkraínu yrði skipt upp, og að því þyrfti að standa gegn inn­rás Rússa í dag til að koma í veg fyr­ir aðrar inn­rás­ir á morg­un. Sagði Biden að Banda­rík­in vildu líkt og aðrar þjóðir að stríðinu lyki, en að eng­in þjóð vildi það meira en Úkraínu­menn.

Abrams á næsta leiti

Lloyd Aust­in, varn­ar­málaráðherra Banda­ríkj­anna, til­kynnti í gær að Úkraínu­menn myndu fá M1 Abrams-orr­ustu­skriðdrek­ann á næstu dög­um. Sagði Aust­in að Abrams-drek­arn­ir myndu bæt­ast við skriðdreka­getu Úkraínu­manna, sem væri nú þegar orðin um­tals­verð með Leop­ard-skriðdrek­un­um þýsku.

Um er að ræða 31 skriðdreka, og sagði hátt­sett­ur emb­ætt­ismaður í banda­ríska varn­ar­málaráðuneyt­inu að fyrstu Abrams-drek­arn­ir yrðu komn­ir til Úkraínu á næstu dög­um og að ferl­inu öllu yrði lokið á nokkr­um vik­um.

Um­mæli Aust­ins féllu á fundi varn­ar­málaráðherra um 50 ríkja sem stutt hafa við Úkraínu, og hétu rík­in því að senda her­gögn að verðmæti rúm­lega 76 millj­arðar banda­ríkja­dala, eða sem nem­ur um 10.324 millj­örðum ís­lenskra króna, til Úkraínu.

Lagði Aust­in sér­staka áherslu á fund­in­um á að rík­in sendu loft­varna­kerfi til Úkraínu, þar sem þau hefðu þegar bjargað fjölda manns­lífa.

mbl.is