Volodimír Selenskí, forseti Úkraínu, skoraði í gær á ríki heims að standa saman gegn þjóðarmorði Rússa í Úkraínu í ávarpi sínu á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna. Sagði Selenskí brýnt að innrásin yrði stöðvuð á forsendum Úkraínumanna, og að öll ríki hefðu ávinning af því að fullveldi Úkraínu yrði tryggt.
Selenskí gagnrýndi Rússa harkalega í gær og sakaði þá um þjóðarmorð, þar sem þeir hefðu rænt hundruðum þúsunda úkraínskra barna og flutt til Rússlands. Þar væri þeim börnum kennt að hata föðurland sitt á sama tíma og öll tengsl þeirra við fjölskyldur sínar væru rofin. „Og það er augljóslega þjóðarmorð þegar hatrinu er breytt í vopn gegn einni þjóð.“
Selenskí fordæmdi einnig tilraunir Rússa til þess að setja hafnbann á útflutningsvörur Úkraínu og árásir þeirra á hafnarborgir sínar. Sagði hann að Rússar hefðu reynt að vígvæða matarskort á alheimsmarkaði til að reyna að tryggja sér viðurkenningu á yfirráðum sínum yfir hernumdu svæðunum. „Rússar hafa skotið upp matarverðinu sem vopnum.“
Ekki hægt að treysta Pútín
Selenskí varaði einnig við því að þjóðarleiðtogar reyndu að leita samninga við Vladimír Pútín Rússlandsforseta um örlög Úkraínu. „Ég veit af tilraununum til þess að gera einhverja skuggalega samninga á bak við tjöldin,“ sagði Selenskí. „Það er ekki hægt að treysta illskunni. Spyrjið Prigósjín hvort hægt sé að veðja á loforð Pútíns,“ sagði Selenskí.
Vísaði Selenskí þar til flugslyssins í Rússlandi í síðasta mánuði þar sem Jevgení Prigósjín, leiðtogi Wagner-hópsins, fórst ásamt nokkrum helstu samstarfsmönnum sínum, en almennt er talið á Vesturlöndum að um hefnd Pútíns hafi verið að ræða fyrir uppreisnartilraun Wagner-liða í júní síðastliðnum.
Joe Biden Bandaríkjaforseti ávarpaði allsherjarþingið fyrr um daginn og fordæmdi þar innrásina harkalega. Sagði hann að allsherjarþingið væri nú haldið undir „dimmum skugga stríðs“ og að Rússar væru að gera heiminn óöruggari, m.a. þegar kæmi að afvopnunarmálum.
Biden talaði einnig gegn hugmyndum um að láta undan Rússum og sagði að ekkert ríki gæti verið öruggt um sjálfstæði sitt ef alþjóðasamfélagið leyfði það að Úkraínu yrði skipt upp, og að því þyrfti að standa gegn innrás Rússa í dag til að koma í veg fyrir aðrar innrásir á morgun. Sagði Biden að Bandaríkin vildu líkt og aðrar þjóðir að stríðinu lyki, en að engin þjóð vildi það meira en Úkraínumenn.
Abrams á næsta leiti
Lloyd Austin, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, tilkynnti í gær að Úkraínumenn myndu fá M1 Abrams-orrustuskriðdrekann á næstu dögum. Sagði Austin að Abrams-drekarnir myndu bætast við skriðdrekagetu Úkraínumanna, sem væri nú þegar orðin umtalsverð með Leopard-skriðdrekunum þýsku.
Um er að ræða 31 skriðdreka, og sagði háttsettur embættismaður í bandaríska varnarmálaráðuneytinu að fyrstu Abrams-drekarnir yrðu komnir til Úkraínu á næstu dögum og að ferlinu öllu yrði lokið á nokkrum vikum.
Ummæli Austins féllu á fundi varnarmálaráðherra um 50 ríkja sem stutt hafa við Úkraínu, og hétu ríkin því að senda hergögn að verðmæti rúmlega 76 milljarðar bandaríkjadala, eða sem nemur um 10.324 milljörðum íslenskra króna, til Úkraínu.
Lagði Austin sérstaka áherslu á fundinum á að ríkin sendu loftvarnakerfi til Úkraínu, þar sem þau hefðu þegar bjargað fjölda mannslífa.
Fáðu þér áskrift til að lesa áfram
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu,
rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki
á mbl.is.