Karlmaður hefur verið ákærður af embætti héraðssaksóknara fyrir nauðgun í september 2021. Segir í ákæru málsins að maðurinn hafi haft samræði og önnur kynferðismök við konu gegn vilja hennar, en hann er sagður hafa slegið hana nokkrum sinnum með lófa í andlitið, rifið í hár hennar og tekið konuna kverkataki. Olli það því að konan átti erfitt með andardrátt.
Málið var þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur í gær.
Er tekið fram að konan hafi ítrekað beðið manninn að hætta verknaðinum án þess að hann hafi orðið við því, en hann hélt konunni niðri og hafði við hana samræði.
Er maðurinn ákærður samkvæmt 1. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga sem tekur á nauðgun, en viðlög við að brjóta þá grein eru fangelsi ekki skemur en eitt ár og allt að 16 árum.
Auk þess sem saksóknari fer fram á að maðurinn verði dæmdur til refsingar fer konan fram á að maðurinn greiði henni 4 milljónir í miskabætur.