Nú heyrir Selenskí minna klapp

Stundum getur allt gerst. Þar á meðal það sem enginn gat fyrir fram giskað á og eins hitt sem talið var handan við það ómögulega. Þess háttar dæmi birtist okkur laust fyrir þessa helgi og átti sá í hlut sem fékk allt næsta nágrennið auk þeirra sem voru lengra frá til að reka upp stór augu.

Pólland vekur undrun

Pólland, af öllum löndum, tilkynnti skyndilega, eins og það væri yfirlýsing sem margir hefðu lengi vænst, að það ríki, nágranninn og vopnabróðirinn trausti í suðri, myndi framvegis hætta með öllu að afhenda Úkraínu nokkur frekari vopn. Því væri lokið og Pólland myndi hér eftir byggja vopnabúr sitt með fullkomnasta búnaði.

Vissulega hafði Pólland ekki verið langöflugasti skaffari vopna frá því að Rússar réðust óvænt inn í Úkraínu. Þar voru Bandaríkin og svo Bretar fremstir í flokki. En það segir ekki alla söguna. Hlutfallslega, hvort sem horft er á fjárhagslega eða hernaðarlega getu, og frá fyrsta degi, voru Pólverjar allra þjóða viljugastir til að gera allt sem þeir máttu og meira en það, og það var allt gert án úrtalna eða tafa. Og það voru ekki aðeins bein framlög, sem þar skiptu miklu, því að Pólland var einnig mikilvægt að öðru leyti. Pólverjar tóku einarða afstöðu og högguðust aldrei, og hvöttu aðrar þjóðir til dáða þegar margar þeirra voru dálítið hikandi við að afhenda þau vopn sem „viðkvæmust“ þóttu þá, en það hefði, að mati sérfræðinga og annarra úrtölumanna, getað gefið Rússum ástæðu eða átyllu til að færa árásarstríðið út og koma því þannig óvænt beint í fangið á Nató. En varnarbandalagið hefur hamrað á því frá fyrstu stundu að það yrði alls ekki beinn aðili að þessu stríði, nema áður hefði verið orðið ljóst að á aðildarríki þess sjálfs hefði verið ráðist og það ekki fyrir mistök, heldur væri þar að baki ótvíræður vilji og ásetningur á ferð.

Langt er síðan lesa mátti út úr framgöngu Rússa og stríðsrekstri að þeir gátu ekki hugsað sér að lenda í alvöru stríði við Nató, enda kom á daginn að þeir virtust raunar eiga fullt í fangi með Úkraínu eina og fengu í þetta sinn ekki allt gefið eftir, eins og þegar hugleysið réð ferðinni 2014. Þá stýrðu Obama og Evrópusambandið viðbrögðunum svo minnti helst á halta að leiða blinda í þúfnakargi. Niðurstaðan varð slappari og verri og enn meira plat en nokkur maður gat ímyndað sér fyrir fram, þótt fullyrt væri að settar hefðu verið á yfirgengilegustu refsiaðgerðir á Rússa sem hugsast gætu, þótt á sama tíma væru Þjóðverjar í keppni við önnur ESB-ríki við að auka viðskipti sín við Rússa, ekki síst í olíu og gasi og þvíumlíku, svo ekki sé talað um á milli þess sem þeir skriðu í viðskiptum fyrir Kína, enda urðu Þjóðverjar skuggalega háðir stórveldinu viðskiptalega séð, svo ekki verði sterkar að orði komið. Þeir hafa sjálfir viðurkennt, ekki síst nokkur nafngreind fyrirmenni þýskra krata, að allt of langt og allt of fljótt og barnalega grunlaust hafi verið gengið í þeim efnum.

Stóru Evrópusambandsríkin tóku mjög seint við sér eftir innrásina 2022 og þótt þau hafi aðeins bætt úr skák síðar, enda legið undir mikilli gagnrýni, þá má halda því fram að Rússar hafi lagt undir sig nær allt það land sem þeir sóttust aðallega eftir í þessari seinni lotu, einmitt á þeim tíma sem hjálpin frá öllum stærstu ESB-ríkjunum lá nánast niðri af þeirra hálfu og sumt var haft að aðhlátursefni, eins og gömlu hjálmarnir sem grafnir voru upp í vöruhúsum sem ekki höfðu verið opnuð í áratugi. En sem betur fer hefur afstaðan og verkin breyst mjög til batnaðar og öflug tæki, smá og stór, borist í vopnabúrið. En þá kom ákvörðun Póllands mörgum í opna skjöldu.

Hvers vegna?

Skýringarnar eru ekki eins flóknar og virtust í fyrstu. Úkraínustríðið hefur nú staðið í vel á annað ár. Og horft af sjónarhóli leiðtoganna í Kænugarði þá fer ekki annað fram í tilverunni, og það réttilega, en barátta þeirra upp á líf og dauða. En lífið heldur áfram annars staðar, og fyrir langflesta, svo magnþrungin sem baráttan er á þessum bletti heimsins, eru önnur mál og aðrir hagsmunir sem horfa þarf til þar. Pólland hefur gengið mjög hart að sér og sýnt mikið örlæti og telur, eins og pólski forsætisráðherrann sagði, að nú sé orðið óhjákvæmilegt að byggja upp sinn eigin her með hinum besta búnaði á nýjan leik.

Stór hluti flugflotans var sendur til Úkraínumanna en birgðageymslur hersins voru kannski ekki allar tæmdar þó að þar sé orðið æði tómlegt um að litast. Miklum fjármunum og öllu afli var beitt til að koma birgðum annarra, sem veittu Úkraínu vopnalegan stuðning, til landsins þótt Nató-herinn gætti þess vel að taka ekki beinan þátt í bardögum. En ýmsir telja það öruggt að vestrænir hernaðarlegir sérfræðingar hafi verið til staðar utan víglínanna og reyndar utan landamæra Úkraínu og tekið þar þátt í að stýra hinum flóknu og rándýru tækjum sem Nató-ríkin, og þó fyrst og fremst Bandaríkin, hafa útvegað Úkraínu. Sömu sérfræðingar hafa sjálfsagt látið í ljós sitt mat á því hvernig þessi flóknu vopn dygðu best og drægju úr getu og árangri Rússa.

Þeir sérfræðingar hafa bakstuðning víða í Evrópu og Bandaríkjunum sjálfum og auðvitað þegar þeir eru nær vettvangi átakanna og hafa veitt ráð um hvar og hvernig hinum flóknu og dýru tækjum skuli beitt, svo að þau komi að sem mestu gagni og veiti árásaraðilanum sem mest gagn. Aðgangur Úkraínu og Rússa að gervihnöttum, sem fylgst geta með því sem næst hverjum bletti jarðarinnar, var í upphafi ójafn. Þar kemur nú búnaður Bandaríkjanna og Nató á móti og gerir meira en að jafna stöðuna á milli stríðsaðila.

Spennandi kosningar

Pólland á mikla landbúnaðarhagsmuni, rétt eins og Úkraína og Rússland, og þarf að tryggja þá og þeim þar sárnaði verulega þegar stjórnin í Kænugarði virtist telja að slíkir hagsmunir þeim megin skyldu víkja öllum hagsmunum Póllands algjörlega til hliðar. Þeir töldu sig þar finna til vanþakklætis úr þeirri átt sem síst skyldi, því að fáir höfðu sýnt Úkraínu, og það frá fyrsta degi, eins öflugan stuðning og stjórnin í Varsjá og ekki aðeins varðandi vopn og annan viðbúnað, og ekki síður vegna þess hversu vel þeir tóku á móti flóttamönnum á fyrstu dögum stríðsins.

Ríkisstjórn Póllands hefur setið lengi og sýnt styrk og sjálfstæði, en sú stjórn sem enn situr er þyrnir í augum ESB-elítunnar í Brussel, en þannig vill nú til að helsti andstæðingur Póllandsstjórnar í þessum kosningum er Donald Tusk, fyrrverandi forsætisráðherra Póllands, en hann gegndi lengi eftir þann feril stöðu toppfígúru í Brussel.

Þríeykið í Brussel hefur átt mjög bágt með að sýna hlutleysi sitt gagnvart stjórninni í Varsjá, rétt eins og það á í vandræðum gagnvart stjórninni í Búdapest, enda telur það forystumenn þar ekki hafa verið eins þýða í taumi og kommisserum í Brussel hefur hentað. Því hafa stjórnvöld í báðum löndum hvað eftir annað verið beitt hótunum um efnahagsleg óþægindi. Það andar raunar einnig köldu til nýrrar stjórnar á Ítalíu, sem er undir forystu Meloni forsætisráðherra, Matteo Salvani og Tajani sem kemur úr flokki Berlusconi sem lést fyrir skömmu. Tveir síðarnefndu flokkarnir er taldir eða grunaðir um að vera fremur hallir undir málstað Pútíns, en forsætisráðherrann ekki, en ýmsir fullyrða að fjárhagsstaða Ítalíu sé svo viðkvæm og að stuðningur Meloni forsætisráðherra við sjónarmið þríeykis kommissera ESB helgist af efnahagslega þröngri stöðu ríkisstjórnarinnar sem Brussel minni ótt og títt á.

Pólska ríkisstjórnin er hins vegar að gæta hagsmuna bænda og kornræktarmanna, en kosningar sem fara fram 15. október næstkomandi eru algjörlega ráðandi í huga stjórnvalda í Brussel. Ríkisstjórn hægrimanna hefur setið drjúgan tíma við völd og munaði ekki mjög miklu í seinustu kosningum að hún félli.

Skoðanakannanir virðast sýna að nú sé enn minni munur á milli stjórnar og stjórnarandstöðu svo að mjög erfitt er að spá fyrir um hvernig fer. Kosningaóróleikinn er meginskýringin á því hve mikil áhrif skammir valdhafa í Kænugarði höfðu, settar fram á svo viðkvæmum tíma og ekki horft til þess hversu öflugan og heilsteyptan stuðning pólska stjórnin hefur sýnt frá upphafi, og kostað miklu til, og það umfram flest önnur ESB-ríki, sem óneitanlega þurfti að hotta heilmikið á til að koma af stað.

Selenskí hjá SÞ sem eru ekki mjög sameinaðar

Og Selenskí forseta er líka vorkunn. Hann er á ferð um valdasvæði Bandaríkjanna. Fyrst í New York á þingi SÞ og svo í Washington og á fundi bæði í Hvíta húsinu og með þingmönnum, þótt ekki hafi honum verið boðið, að þessu sinni, að flytja ávarp í báðum deildum þingsins. Það er vissulega ekki jafn stutt í kosningar vestra og í Póllandi, en rétt rúmt ár dugar þó Bandaríkjamönnum til að komast í töluvert kosningauppnám, eins og alþekkt er þar.

En það, sem vekur meiri óróleika í huga Selenskís og helstu manna hans, er að stríðsþreyta fer vaxandi í Bandaríkjunum og slík þreyta fer illa í flesta Bandaríkjamenn, þótt þeir berjist ekki þar.

En þeir borga brúsann!

Þar eru menn að hugsa um galopin landamæri Bandaríkjanna. Þeir ábyrgu hafa áhyggjur af því að fráfarandi ríkisstjórn er búin að veðsetja Bandaríkin upp í rjáfur. Þar er rifist um það hvort virkilega eigi að banna mönnum fóstureyðingar án ástæðna á 36. viku fósturs í móðurkviði. Margir repúblikanar vilja banna fóstureyðingar eftir að fóstur nær 16-18 vikna aldri, nema allmargar gildar röksemdir, læknisfræðilegar eða félagsfræðilegar, komi til. Sumir kjósendur vilja að Pentagon upplýsi hversu margar geimverur herflugmenn þeirra þar hafa séð og jafnvel myndað! Og þannig má lengi telja. Því miður er það að koma fram, sem sumir höfðu giskað á, að eftir 10. nóvember, þegar „aðeins“ verður ár til kosninga, hefur Úkraínustríðið færst sífellt neðar á lista kosningamála. Flestir segja raunar að Úkraínustríðið sé ekki kosningamál.

Það er ekki sanngjarnt.

En þannig er það.

mbl.is